Umræða um EES og ummæli utanríkisráðherra

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 13:34:59 (3433)

     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Áður en umræða um Evrópskt efnahagssvæði hefst vil ég að það komi skýrt fram að ekki hafa verið höfð nein samráð við stjórnarandstöðuna og málsvara hennar um tilhögun dagskrár í dag. Ég vil líka að það komi fram sem skoðun mín að nú, þegar svo skammt er til jólaleyfis, sé afar óhyggilegt að standa þannig að málum að ekki séu höfð samráð um dagskrá. Það eru ekki nema átta þingdagar til jólaleyfis. Hins vegar er fullljóst að mjög mörg mál þarf að ræða á næstu dögum sem varða efnahagsmál og afgreiðslu fjárlaga.
    Við höfum meðtekið það að hæstv. utanrrh. hefur ekki aðeins tilkynnt erlendum blaðamönnum og fréttamönnum það hver úrslit muni verða í atkvæðagreiðslu um EES á Alþingi og hvernig einstakir flokkar muni greiða atkvæði heldur og hitt að málþóf sé fyrirhugað um EES. Ég held að þetta sé á nokkrum misskilningi byggt. Ég held að það mál sem hér er til umræðu sé það viðamikið og snerti flest svið mannlegra samskipta að ekki þurfi að tala um neitt málþóf þótt þingmenn telji sér nauðsyn að ræða það ítarlega á lengri tíma en er nú til jóla. Það er alkunnugt að margir stjórnarandstöðuþingmenn tóku alls ekki til máls við 1. umr. Ég gæti nefnt allmarga sem ekki gerðu það en 2. umr. máls er aðalumræða. Hér er ekki aðeins um að ræða eitt örlagaríkasta mál sem fyrir þingið hefur verið lagt heldur er það líka mælt í þúsundum síðna og má segja að þetta þingmál eitt sé á við mörg hundruð önnur þingmál. Þar af leiðir að eyða þarf í það miklu lengri tíma en öll venjuleg þingmál. Þess vegna finnst mér miðað við þann skamma tíma sem fram undan er að afar óhyggilegt sé að reyna ekki að átta sig á því hvernig við ætlum að komast fram úr þeim mörgu málum sem við höfum að glíma við til jóla. Ég vil eindregið hvetja virðulegan forseta til þess að leita samráðs við alla þingflokka um meðferð mála á næstu dögum.