Umræða um EES og ummæli utanríkisráðherra

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 13:58:07 (3440)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er ástæða til að þakka að hæstv. forseti bregst við spurningum þingmanna. En ég er ekki sammála hæstv. forseta um þær skýringar og skoðanir sem fram komu varðandi þetta mál af hálfu hæstv. forseta. Hér var sagt að markmið ríkisstjórnarinnar væri að afgreiða þetta mál. Forseti tekur undir það, ef ég heyrði rétt, að nauðsynlegt væri að afgreiða þetta mál á þingi fyrir jólin. Það álit heyrðist hjá hæstv. utanrrh. fyrir nokkru síðan að hann teldi að það væri brýn nauðsyn að afgreiða málið fyrir jól. Hins vegar hefur komið fram að svo er ekki og hæstv. ráðherra hefur viðurkennt það frammi fyrir Alþingi að engin brýn nauðsyn sé til þess að fjalla um, hvað þá afgreiða þetta mál fyrir jól. Ég vil spyrja hæstv. forseta: Hvernig hyggst forsetinn haga þingstörfum til jóla? Er það vilji ríkisstjórnar að þetta mál fái þann forgang að önnur mál sem liggja fyrir þinginu, mál eins og umfjöllun um fjárlagafrv. og skattalagafrv. ríkisstjórnar svo eitthvað sé nefnt, víki fyrir umræðum um þetta mál fram til jóla? Er það hugmynd hæstv. forseta að sniðganga samráð við stjórnarandstöðuna um þetta mál? Það má vera að ósk hafi komið fram um að fresta málinu fram yfir helgi. Ég veit hins vegar ekki annað en mótmæli hafi verið við því að taka málið á dagskrá en ekki spurning um að fresta því fram yfir helgi.