Umræða um EES og ummæli utanríkisráðherra

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 14:05:11 (3445)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég kveð mér hljóðs um gæslu þingskapa er umræðan um nauðsyn þess og það álit virðulegs forseta að afgreiða samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði fyrir áramót.
    Þá leyfi ég mér að setja fram þá skoðun mína að ef við eigum að eiga eitthvert erindi inn í það fjölþjóðasamstarf sem fer fram innan vettvangs EES hljóti það að vera alger prófsteinn fyrir hæstv. ríkisstjórn hvort hún hefur afl og getu til þess að ráða við þau brýnu innanlandsmál á sviði efnahagsmála sem nú liggja fyrir. Hafi hæstv. ríkisstjórn ekki tök á því og geti ekki sýnt fram á það á næstu dögum að hún ráði við að fylgja boðuðum efnahagsaðgerðum eftir með lagabreytingum, m.a. breytingu á aðstöðugjaldi sem átti að verða til þess að aðlaga okkar atvinnulíf því sem gerist í nágrannalöndum okkar, eigum við ekkert erindi inn í víðtækara efnahagssamstarf. Virðulegi forseti. Það er mín skoðun að öll rök séu til þess að við tökum málin í þeirri röð að við látum reyna á það fyrst hvort hæstv. ríkisstjórn ræður við þau mál.
    Til viðbótar vil ég láta það koma fram sem mína skoðun, virðulegi forseti, að nú er svo komið að mér sýnist að við getum ekki á nokkurn hátt farið inn í hið evrópska samstarf undir forustu þess hæstv. utanrrh. sem nú situr. Þeim sem hér stendur hefur sjaldan runnið eins í skap undir nokkru eins og undir ummælum hæstv. utanrrh. í sjónvarpi í gærkvöldi sem hann viðhafði á blaðamannafundi úti í Sviss. Maður sem hefur hlotið trúnað og brotið hann á þann hátt sem hæstv. utanrrh. gerði í gær á ekki skilið trúnað þjóðar sinnar eða Alþingis. Ég ítreka þær kröfur sem hér hafa komið fram um það að hæstv. ráðherra tjái sig um þessi mál, hvað hann var að meina með ummælum sínum úti í Genf um helgina. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa okkar þingmanna að það komi fram. Við getum síðan farið í langar viðræður við hæstv. ráðherra og látið reyna á hans líffæraþol varðandi það hver sé hænan og hvert sé eggið í þessu máli og hvort það sé ekki svo, virðulegur forseti, að þegar ríkisstjórn gengur fram með þeim hætti sem hún gerir núna eigi stjórnarandstaða ekki annarra kosta völ en að fara í málþóf.