Umræða um EES og ummæli utanríkisráðherra

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 14:09:06 (3446)

     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Þegar forseti gerði grein fyrir gangi mála varðandi EES-málið að undanförnu mátti skilja forseta svo að málið hefði tafist í þinginu af völdum hv. þm. og að stjórnarandstaðan hefði átt þar hlut að máli. Ég vek á því athygli ef einhver, einkum og sér í lagi utan þings, hefur ekki áttað sig á því hvers vegna EES-samningurinn er svona seint á ferðinni til 2. umr. Það er ekki víst að allir átti sig á því hvers vegna það er og hvers vegna það stóðst ekki að málið væri tekið til 2. umr. upp úr 20. nóv.
Ástæðan var ekki sú að það stæði eitthvað á hv. þm. að taka málið hér til meðferðar, heldur einfaldlega hitt að sjávarútvegssamningurinn var ekki kominn og því hafði ævinlega verið lýst yfir að ekki yrði hægt að taka þetta mál til framhaldsmeðferðar í þinginu án þess að sá samningur lægi fyrir. Hvenær kom sá samningur til þingsins? Það var ekki fyrr en í byrjun desembermánaðar. Hann var tekinn til 1. umr. í þinginu 3. des. sl. Það var ástæðan til þess að 2. umr. dróst á langinn og ekki var hægt að afgreiða málið út úr nefnd. Síðan koma úrslitin í þjóðaratkvæðagreiðslunni í Sviss aðeins þremur dögum seinna, sunnudaginn 6. des. Þá þurfti að sjálfsögðu, og var allra manna mál að þyrfti, að fá lögfræðilega úttekt á því hvernig mál stæðu að lokinni þessari atkvæðagreiðslu. Ég vek á því athygli að þeirri úttekt er alls ekki lokið. Það hafa verið lögð fram gögn í utanrmn. um það hvernig hugsanlegt væri að breyta þeim samningi sem hér er til umræðu en þeirri lögfræðilegu úttekt á því máli sem beðið hefur verið um er alls ekki lokið og þannig stendur málið í dag.
    Ég verð hins vegar að segja að það merkilegasta við þá umræðu sem hér hefur farið fram er að sjálfsögðu þögn hæstv. utanrrh. Þess hefur verið krafist að hann gerði grein fyrir ummælum sínum á blaðamannafundi erlendis fyrir helgina, en hann kýs að þegja. Þess hefur verið krafist að hann bæðist afsökunar á ummælum sínum. Hann kýs að þegja. Er viðunandi að utanrrh. þegi? Er það viðunandi?
    Ég vil svo að lokum spyrja hæstv. forseta hvort ekki sé fyrirhugað að samráð verði við þingflokka stjórnarandstöðunnar um þingstörfin fram að jólaleyfi og hvernig þau verða yfirleitt skipulögð. Okkur er það alveg óskiljanlegt hvernig fyrirhugað er að halda á málum og vildum gjarnan að forseti svaraði þessari spurningu: Verða höfð samráð við stjórnarandstöðuna og hvernig er fyrirhugað þinghald fram að jólaleyfi?