Umræða um EES og ummæli utanríkisráðherra

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 14:13:01 (3447)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Varðandi þessa síðustu spurningu hv. 3. þm. Norðurl. v. vill forseti taka undir það að samráð verði haft við stjórnarandstöðuna um þingstörfin fram að jólum, enda kom það fram í drögum að samkomulagi milli þingflokka um afgreiðslu þingmála fyrir jólahlé sem var gert miðvikudaginn 2. des. Þar stendur í upphafi: Stefnt verði að því að ljúka þingstörfum fyrir jól samkvæmt starfsáætlun laugardaginn 19. des. Samkomulag er um að störfum verði hagað með þessum hætti, og síðan er það tíundað, sem forseti skýrði frá áðan, að varðandi það mál sem hér er á dagskrá, þá þurfi að endurskoða það. Væntir forseti þess að formenn þingflokka eigi eftir að ræða það mál hvernig menn geta staðið við starfsáætlun þingsins.