Umræða um EES og ummæli utanríkisráðherra

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 14:18:01 (3450)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir:
    Virðulegi forseti. Í svari hæstv. forseta áðan kom það fram að frá því í haust hafi legið fyrir að samningurinn um EES þyrfti að afgreiðast fyrir áramót. Þegar þinghald hófst í sumar, þann 17. ágúst sl., lá það fyrir að EFTA-þjóðirnar stefndu að gildistöku samningsins 1. jan. 1993. Það liggur ekki lengur fyrir eftir atkvæðagreiðsluna í Sviss. Ég tel því að þær forsendur séu ekki lengur fyrir hendi að taka frv. um EES til 2. umr. fyrir áramót, hvað þá ljúka málinu. Ég bendi á að það væri betra að snúa sér að því að ræða efnahagsmálin. Svo sem hefur komið fram líka í þessari þingskapaumræðu er margt órætt þar: fjárlögin, fjáraukalögin og skattafrumvörpin svo nokkuð sé nefnt. Allt þetta verður að vera frágengið fyrir áramót. Og vegna þess að hæstv. forseti nefndi starfsáætlun þingsins, þá vil ég einnig minna á að samkvæmt starfsáætlun þingsins er þingmönnum heimilt að fara í jólafrí 19. des.