Umræða um EES og ummæli utanríkisráðherra

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 14:20:00 (3452)

     Jón Kristjánsson :
    Frú forseti. Það hefur komið fram í þessum þingskapaumræðum af hálfu hæstv. forseta að hann vill hafa samráð við stjórnarandstöðuna um framkvæmd þinghaldsins. Það er alveg ljóst að sá fyrirvari í drögum að samkomulagi um þinghaldið til jóla um EES-umræðuna var ekki þess efnis að það ætti að fresta umræðunni frá laugardegi til mánudags. Það er alveg ljóst. Þess vegna hefði ég sagt að það væri skynsamlegast fyrir hæstv. forseta að fresta fundi nú þegar ef hann vill hafa eitthvert samráð við stjórnarandstöðuna og kalla saman formenn þingflokka til að við óbreyttir þingmenn grynnum eitthvað á því sem við eigum að vinna til jóla. Ég er einn af fulltrúum í fjárln. og við höfum ærin verkefni. Við erum að glíma við fjárlagafrv. til 3. umr. og síðustu fréttir sem berast eru að ríkisstjórnin hafi enn á prjónunum niðurskurðaráform sem við erum ekki búnir að sjá. Við erum boðaðir á fund kl. 7 í kvöld og eigum að vera á fundi í allt kvöld í fjárln.
    Ég legg til að forusta þingsins setjist nú þegar niður og reyni að ná einhverju samkomulagi um framgang mála hér svo að maður viti hvað snýr upp og niður á þessari samkomu.
    Mér er alveg ljóst hvernig línan er lögð núna. Nú er búið að segja stjórnarliðinu að þegja. Nú tekur enginn til máls, ekki einu sinni þingflokksformaður Alþfl. Eitt frammíkall og er þá langt gengið þegar hann kallar ekki einu sinni fram í. Ég geri þessa tillögu og vona að menn hlusti á hana, hæstv. forseti og aðrir þeir sem stjórna þinghaldinu.