Umræða um EES og ummæli utanríkisráðherra

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 14:22:26 (3453)

     Kristinn H. Gunnarsson :

    Virðulegi forseti. Forseti hefur nú þegar vikið að 1. mgr. 72. gr. þingskapalaga og réttilega bent á samráðsskyldu forseta við formenn þingflokka um skipulag þingstarfa. Mig langar til að halda áfram þar sem forseti hætti og minna á 2. mgr. greinarinnar, en hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Enn fremur skal forseti hafa samráð við formenn þingflokka um fyrirkomulag umræðna um mikilvæg mál ef ætla má að umræður verði miklar.``
    Ég vildi spyrja hæstv. forseta hvert samráð forseta við þingflokksformenn hafi verið um dagskrá fundarins í dag og næstu daga um þetta mál skv. 2. mgr. 72. gr. þingskapalaga.
    Ég vil enn fremur, virðulegi forseti, af því að það kom fram áðan af forsetastóli að fyrirhugaður væri kvöldfundur, inna forseta eftir því hvort gert sé ráð fyrir kvöldfundi í starfsáætlun þingsins. Ég hef hana ekki við höndina þannig að ég vil ekki um það fullyrða en þó minnir mig að ekki sé gert ráð fyrir kvöldfundi samkvæmt starfsáætlun.
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, taka undir það sem fram kom hjá hv. 18. þm. Reykv. um skörun þingfunda og nefndafunda og minna hæstv. forseta á að skv. 53. gr. þingskapalaga er þingmönnum skylt að sækja þingfundi nema nauðsyn banni. Og skv. 17. gr. þingskapalaga er þingmönnum sem sitja í þingnefndum skylt að sækja nefndarfundi samanber almennar reglur um fundarsókn þingmanna skv. 53. gr. Það er því óhjákvæmilegt að vekja athygli á því, virðulegi forseti, að ef þingfundir standa yfir samtímis fundi í þingnefnd, þá komast þingmenn í þeirri nefnd ekki hjá því að brjóta lög. Annaðhvort verða þeir að brjóta lög með því að mæta ekki á þingfund eða með því að mæta ekki á nefndarfund.