Umræða um EES og ummæli utanríkisráðherra

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 14:25:33 (3454)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég hef ekki setið lengi á þingi en mér finnst þessi mál í miklu óefni og satt að segja líta þau þannig út fyrir mér að ekkert mál komist áfram í þinginu fyrir áramót. Ef menn ætla sér að ræða um EES-málið, eins og hljóðið er í þeim þingmönnum sem ég hef talað við, þá sé ég ekki að menn afgreiði neitt annað mál. Ætla menn virkilega að hafa það þannig að ekki verði tekið á neinum málum og þeim stefnt í þvílíkt óefni að hér verði kannski langar ræður haldnar um EES-málið og öll önnur mál látin bíða og setjast kannski niður þegar komið er alveg fram undir jól til þess að ná einhverju samkomulagi um það að koma einhverjum neyðarúrræðum í gegn? Þannig lítur málið út fyrir mér.
    Ég verð að lýsa því yfir að ég er mjög ósammála forseta í því að málið sé þingtækt. Ég efast um að nokkurt annað mál sem lægi fyrir hér og væri í slíku uppnámi yrði talið þingtækt. Ef slíkar breytingar, sem hér hafa gerst, hefðu orðið í einhverjum öðrum málum frá því að málið var undirbúið og lagt fyrir yrði þeim örugglega vísað til föðurhúsanna til að skoða þau upp á nýtt. Það efast ég ekki um.
    Ég hef saknað þess í þessari þingskapaumræðu að menn svöruðu einhverju af því sem um hefur verið spurt. Ég tel t.d. að það muni valda verulegum erfiðleikum í samskiptum stjórnarandstöðunnar og stjórnarliða að það skuli vera haft eftir stjórnarliðum í Ríkisútvarpinu að allir samningar sem gerðir hafa verið við stjórnarandstöðuna hafi verið brotnir. Hverjir eru að segja svona hluti? Hvað er til í þeim? Eigum við ekki rétt á því að fá rökstuðning fyrir því? Ég geri ráð fyrir því að þeir fréttamenn Ríkisútvarpsins sem hafa sagt þetta hafi verið að tala við einhverja stjórnarliða. Þeir hafa ekki spunnið þetta upp hjá sjálfum sér. Ég sé fulla ástæðu til þess að menn útskýri fyrir okkur hvað átt er við. Ég kannast ekki við að menn hafi verið að brjóta neitt samkomulag hér við stjórnarliða eða um stjórn þingsins.
    Og um fleira sem er hér að gerast. Okkur er ætlað að vera hér á fundum. Ég er í samgn. og mér er ætlað að mæta á fund í samgn. og á að vera mættur á þann fund núna. Ég sat fund í samgn. í morgun. Þar var einungis einn stjórnarliði mættur, formaður nefndarinnar. ( Gripið fram í: Hann er marggildur.) Já, hann er það. Ég ætla ekki að draga úr mikilvægi hans, enda virðast stjórnarliðar aðrir í þeirri nefnd telja hann það gildan að hann geti staðið þar einn fyrir alla stjórnarliða. En það segir sína sögu um það í hvers konar fari vinnubrögðin eru hérna. Ég segi það eins og fleiri sem hér hafa talað að ég á mjög erfitt með að sætta mig við það að víkja af fundum í Alþingi til þess að taka þátt í nefndastörfum á meðan hér er umræða í gangi eins og sú sem er núna.