Evrópskt efnahagssvæði

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 14:41:54 (3464)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í þessari umræðu en það var óskað eftir að formenn þingflokka Sjálfstfl. og Alþfl. mundu víkja að því hvort þeir eru ekki reiðubúnir að bera til baka þær ásakanir sem Ríkisútvarpið hefur flutt eftir nafnlausum þingmönnum stjórnarflokkanna um að stjórnarandstaðan hafi svikið samkomulag um meðferð EES-málsins á Alþingi. (Gripið fram í.) Meira að segja öll. Við ýmsir hér í salnum höfum nokkra reynslu af því að vera formenn þingflokka og í þeim samskiptum hefur verið reynt að hafa þau á þann veg að orð skuli standa og menn geti treyst hver öðrum. Ef þingmenn bera fram ósannar ásakanir er yfirleitt leitað til formanna þingflokkanna um að bera þær til baka. Ef formenn þingflokka Sjálfstfl. og Alþfl. bera þessi ummæli ekki til baka eða lýsa sínum viðhorfum í þessari umræðu þá standa þau, því miður. Það er auðvitað mjög ljótur leikur ef nafnlausir þingmenn stjórnarliðsins í skjóli nafnleyndar eru að láta fjölmiðlamenn flytja rangar frásagnir af samskiptum í þinginu og formenn þingflokka stjórnarliðsins hafa síðan ekki manndóm í sér til þess að bera það til baka í áheyrn alþjóðar. Hvernig eigum við að geta starfað í þinginu ef það er ekki gert? Við gerðum t.d. samkomulag á laugardaginn um umræðu í tengslum við skýrslu utanrrh. þar sem hver flokkur fengi 24 mínútur og það samkomulag stóð fullkomlega, svo ég víki bara að því nýjasta samkomulagi sem gert var varðandi umræður. Ég vona að þessir tveir ágætu þingmenn, hv. þm. Geir Haarde og hv. þm. Össur Skarphéðinsson, átti sig á því að þetta mál er nokkuð alvarlegt.
    Síðan vil ég bara endurtaka það sem ég sagði hér á laugardaginn. Þá þegar var ljóst að utanrrh. ætti af skynsemi að biðjast afsökunar á ummælum sínum erlendis um Alþingi Íslendinga. Þau voru auðvitað á þann veg að ráðherrann getur ekki látið þau standa. Við værum tilbúin að fyrirgefa honum ef þau væru sögð í ógáti. En ef þau standa áfram, að utanrrh. Íslands sé að hæðast að Alþingi Íslendinga á alþjóðavettvangi, þá er málið þannig vaxið að virðulegur forseti verður að láta það til sín taka. Ég vona þess vegna að forseti ræði við utanrrh. utan þingfundar um skynsemi þess að ráðherrann biðjist afsökunar á ummælum sínum í þingsalnum.