Framkvæmd yfirlýsingar um ríkisfjármál

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 15:47:16 (3475)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. 23. nóv. sl., fyrir um það bil þremur vikum síðan, flutti hæstv. forsrh. Alþingi tilkynningu frá ríkisstjórn Íslands um aðgerðir í efnahagsmálum. Í ræðu hæstv. forsrh. kom það fram að hans eigin dómi að áhrif aðgerðanna fælust einkum í þrennu. Það fyrsta snerti atvinnulífið, annað varðandi þjóðarútgjöldin og þriðja atriðið af þessum höfuðatriðum var, eins og segir í ræðu hæstv. forsrh., með leyfi forseta: ,,Í þriðja lagi batnar afkoma ríkissjóðs sérstaklega þegar horft er til næstu tveggja ára.``
    Fyrr í ræðunni hafði hæstv. forsrh. skýrt þetta höfuðmarkmið aðgerðanna á þann veg eins og segir í ræðunni, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Með efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar er afkoma ríkissjóðs styrkt um rúmlega 2 milljarða á næstu tveimur árum eða sem nemur um það bil þriðjungi rekstrarhallans. Þetta er nauðsynlegt til þess að skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta.``
    Í málsgrein á undan er vikið að því að sá rekstrarhalli sem þarna á að minnka um þriðjung er sá halli sem er á fjárlagafrv. þegar það er lagt fram. Hæstv. utanrrh. áréttaði síðan þetta stefnumið sérstaklega í þeirri ræðu sem hann flutti í þessari umræðu þar sem nú hefði náðst sá árangur að eyða ýmsum veikleikamerkjum í fjárlagafrv. en hæstv. utanrrh. hafði vikurnar á undan rætt mjög rækilega um að sá 6 milljarða halli sem væri á fjárlagafrv. væri of mikill og nauðsynlegt að styrkja frv.
    Síðan hæstv. forsrh. tilkynnti þjóðinni þessa meginstefnu efnahagsaðgerðanna hefur bæði þjóðin og þingið staðið í þeirri meiningu að það væri staðfastur ásetningur ríkisstjórnarinnar að minnka þann 6 milljarða halla sem var á fjárlagafrv. þegar það var lagt fram. Eins og kemur fram í ræðu hæstv. forsrh. telur hann þetta vera eitt af þremur höfuðatriðum efnahagsaðgerðanna.
    Nú gerist það í gær að Morgunblaðið birtir ítarlegt viðtal við hæstv. fjmrh. þar sem hann lýsir allt annarri stefnu. Hæstv. fjmrh. segir í viðtali við Morgunblaðið, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin og meiri hluta fjárln. vinnur nú að því að ná hallanum niður í það sem hann var þegar fjárlagafrv. var kynnt í haust.`` Hann segir einnig, með leyfi forseta: ,,Ég er staðráðinn í því þegar fjárlagafrv. verður afgreitt nú fyrir jól að það verði ekki afgreitt með meiri halla en við gerðum ráð fyrir í haust, og þá er ég ekki að segja að ekki geti skakkað 200--300 millj., en ekkert umfram það.``
    Eða með öðrum orðum þremur vikum eftir að hæstv. forsrh. tilkynnir Alþingi og þjóðinni að það sé eitt af þremur höfuðatriðum í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar að minnka hallann á fjárlagafrv. við afgreiðslu fjárlaga og markmiðið sé um þriðjungsminnkun að verðgildi á árinu 1993 og 1994 lýsir hæstv. fjmrh. því yfir að horfið hafi verið frá þessari stefnu og nú sé glímt við það á þessum dögum að ná hallanum niður í það sem fjárlagafrv. sýndi þegar það var lagt fram.
    Hæstv. forsrh. rakti svo í sinni ræðu að það markmið að ná hallanum á ríkissjóði niður fyrir það sem var í fjárlagafrv. væri ein meginforsenda þeirrar vaxtalækkunar sem ríkisstjórnin stefndi síðan að. Hæstv. fjmrh. endurtók svo þessi ummæli sín við Ríkissjónvarpið í gærkvöldi.
    Vegna þess að þetta atriði með hallann á fjárlögum var eitt af þremur höfuðatriðunum í formlegri tilkynningu forsrh. til Alþingis fyrir þremur vikum taldi ég nauðsynlegt nú þegar að spyrja hæstv. forsrh. hvort ríkisstjórnin hafi horfið frá þessu stefnumiði sínu. Það er ekki hægt að skilja yfirlýsingar hæstv. fjmrh. um helgina á annan veg en þann að ríkisstjórnin hafi horfið frá þessu markmiði og ætli nú að sætta sig við það að ná hallanum niður í það sem hann var þegar fjárlagafrv. var lagt fram. Vegna þess að efnahagsaðgerðir ríkisstjórnairnnar eru ákveðinn kjarni í vinnubrögðum þingsins þá daga sem fram undan eru og þjóðin hefur verið mjög upptekin við að átta sig á þessum aðgerðum hef ég óskað eftir því að hæstv. forsrh. greini frá því hér hvort ríkisstjórnin hefur fallið frá þessu markmiði.