Framkvæmd yfirlýsingar um ríkisfjármál

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 15:58:17 (3478)

     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. 2. umr. fjárlaga er nú nýlokið. Önnur umræða fjárlaga á að gefa vísbendingu um hvernig gjaldahlið fjárlaga muni líta út og hún er upp á um 6,1 milljarð kr. eða svipuð og fjárlagafrv. í haust gerði ráð fyrir. Það var, eins og hefur komið hér fram, 2 milljarðar auk þeirra 4 sem fjárlagafrv. var kynnt fyrst með.
    Nú bregður svo við þegar við erum farnir að vinna að undirbúningi 3. umr. --- en venjan er að aðeins tekjuhliðin, B-hluti fjárlaga og 6. gr., sé tekin til meðferðar við 3. umr. --- að mikið viðtal birtist við hæstv. fjmrh. í Morgunblaðinu þar sem hann segir að þessum niðurskurði sé hvergi nærri lokið og beinir greinilega skeytum til ráðherra Alþfl. varðandi húsnæðiskerfið og heilbrigðismálin þar sem hann segir að þurfi að ná betri árangri. Manni er því spurn: Á hverju eigum við von? Eigum við von á einhverju í kvöld, að farið verði að brjóta upp það sem fjárln. hefur verið að gera? Eigum við von á viðbótarniðurskurði? Mér er fullkunnugt um að hæstv. ríkisstjórn sat á löngum fundum í gær og fundi fjárln. var frestað og ekki boðaður fundur í morgun. Það er því greinilegt að nú á þessum síðustu dögum er verið að undirbúa einhverjar verulegar breytingar og væri fróðlegt að heyra hvað er í aðsigi.