Framkvæmd yfirlýsingar um ríkisfjármál

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 16:03:02 (3480)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Mér finnst rétt að benda á það hvort fjárlögin, sem við erum að ræða í frumvarpsformi enn þá, séu raunhæf eða ekki með 6,1 milljarða halla hvernig farið hefur með yfirstandandi fjárlög. Þau voru afgreidd með rúmlega 4 milljarða halla í fyrra. Við stöndum núna frammi fyrir því í fjáraukalagafrv. að þar stefnir hallinn í allt að 12 milljarða. Erum við e.t.v. núna að ræða jafnraunhæf fjárlög og á síðasta ári? Ef við erum núna að stefna að því að afgreiða fjárlög, eins og hæstv. fjmrh. segir, með ekki meiri halla en lagt var fram í haust, þ.e. rúmlega 6 milljarða, getum við þá með sama áframhaldi og verið hefur á þessu ári, þar sem ríkisstjórnin hefur fullyrt að hún beiti mestu aðhaldsaðgerðum sem hægt er, átt von á því að á sama tíma að ári stöndum við frammi fyrir 18 milljarða halla? Ég held að það sé rétt að menn reyni að gera sér ljóst hversu raunhæf þau frumvörp eru sem við erum að ræða og bítumst um dag eftir dag og ár eftir ár.