Framkvæmd yfirlýsingar um ríkisfjármál

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 16:04:38 (3481)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það er von að hér sé spurt stórra spurninga. Þriðja umræða fjárlaga átti að fara fram á morgun en það er ljóst að beðið verður um frest á henni og ekki að ófyrirsynju vegna þess að að mínu viti og okkar sem í fjárln. vinnum er það starf allt í óvissu. Við höfum ekki fengið svör við spurningum sem við höfum spurt, svo sem þeim að það er ljóst að þegar um áramót eru samningar fjölmargra stéttarfélaga lausir. Sannleikurinn er sá að engir hafa verið sviknir eins og þeir sem í þessu stéttarfélögum eru. Launum hefur verið haldið niðri um árabil gegn félagslegum úrbótum og menn hafa sætt sig við lægri laun gegn ýmsum úrbótum í heilbrigðiskerfi, menntakerfi o.s.frv.
    Nú hefur það verið upp tekið að skera niður einmitt þessa félagslegu þætti: skólakerfi, heilbrigðiskerfi, mennta- og menningarmál og launin auðvitað ekkert hækkuð þar á móti. Það er því alveg ljóst að stéttarfélögin munu ekki una óbreyttu ástandi.
    Við höfum ekki fengið ákveðin svör um hvernig skal uppfylla búvörusamning. Þar vantar 278 millj. Af þeim eru 175 millj. hreint lögbrot ef ekki verða greiddar. Þá má minna á að í forsendum Þjóðhagsstofnunar var gert ráð fyrir 550--750 millj., eins og það hét að mig minnir, þjóðhagsbata vegna samninganna um Evrópskt efnahagssvæði sem tækju gildi um áramót. Nú er ljóst að ekkert verður af því og ég spyr þess vegna: Er búið að endurreikna þjóðhagsbatann? Ég hef því miður ekki meiri tíma en ég held að hér sé mörgum spurningum ósvarað sem nauðsyn er að fá skýrar línur í.