Framkvæmd yfirlýsingar um ríkisfjármál

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 16:07:08 (3482)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Virðulegi forseti. Ég geri ekkert með það þó að hv. 8. þm. Reykn. segi að ríkisstjórnin fari með blekkingar og skrök eins og hann orðaði það. Það eru bara tíu dagar síðan eða svo að hann hélt því fram á tveimur blaðamannafundum að ríkisstjórnin hefði farið með blekkingar vegna gengisfellingar því að norska krónan væri að styrkjast og ástæður gengisbreytingar hefðu verið hreinar blekkingar og skrípaleikur af hálfu ríkisstjórnar. Menn vita hvernig það allt saman hefur verið og hvernig sá málatilbúnaður og upphrópanir enduðu. Er sú framkoma öll þingmanninum ekki til sóma.
    Á hinn bóginn vek ég athygli á því líka að hv. þm. nefndi og blandaði saman því sem sagt var um fjárlagahallann á næstu tveimur árum. Það er enginn vafi á því að ríkisstjórnin hefur með aðgerðum sínum verið að leggja grunn að því, bæði aðgerðum í fyrra og aðgerðum núna, að þegar fram í sækir skapast meiri festa um fjármál ríkisins og það er afskaplega mikilvægt.
    Í þriðja lagi er líka mikilvægt að menn átti sig á því, sem ég nefndi, að skatttekjur ríkisins fara minnkandi í ár á föstu verðlagi og munu enn dragast saman á næsta ári. Hins vegar eiga sér stað miklar

tilfærslur á fjármunum af neyslu yfir á atvinnulíf. Ég vek athygli á því að allir voru sammála um eða gáfu það a.m.k. til kynna á því þriggja vikna skeiði sem þeir höfðu ábyrgðartilfinningu í þjóðfélaginu sumir hverjir hér að þeir hefðu á því fullan skilning að óhjákvæmilegt væri að styrkja stöðu atvinnulífsins á kostnað neyslu og einstaklinga.