Framkvæmd yfirlýsingar um ríkisfjármál

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 16:09:01 (3484)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Þessi hálftíma utandagskrárumræða var ætluð fyrir ákveðið mál: yfirlýsingar ríkisstjórnar um halla á fjárlögum ríkisins og yfirlýsingar fjmrh. Hæstv. forsrh. kaus að verja mestum hluta af báðum ræðum sínum til að tala um allt önnur mál. Ég er alveg ræðubúinn að ræða þau við hæstv. forsrh. síðar undir öðrum dagskrárliðum þegar maður hefur lengri tíma en tvær mínútur til þess að fjalla um það sem fram kemur í umræðunni. En það er auðvitað tilgangur þess að vera með hið knappa form, hálftíma utandagskrárumræðu þar sem málshefjandi hefur aðeins tvær mínútur í seinna skipti, að halda sig við mjög afmarkað mál. Hefði hæstv. forsrh. viljað ræða efnahagsmálin vítt og breitt, þá hefðum við auðvitað beðið um lengri umræðutíma varðandi utandagskrárumræðu. Ég mun því áskilja mér allan rétt til að svara ásökunum hæstv. forsrh. hvað þetta snertir undir öðrum dagskrárlið.
    Það er svo staðreynd eftir þessa umræðu að forsrh. hefur ekki treyst sér í umræðu um yfirlýsingu hans fyrir þremur vikum síðan varðandi ríkisfjármálin. Ef hann er núna að reyna að teygja þetta inn á það að þetta 2 milljarða fyrirheit um lækkun fjarlagahallans hefði átt við árið 1994, þá væri fróðlegt að vita hvaða samhengi er í því að næsta setning í ræðu ráðherrans sjálfs 23. nóv. á eftir þessari 2 milljarða yfirlýsingu varðandi lækkun fjárlagahallans er að þetta skapaði skilyrði fyrir lækkun vaxta. Og með fjölmörgum öðrum tilvikum var það útskýrt að sú lækkun mundi fara fram á árinu 1993. Nú er það hins vegar allt fokið út í veður og vind, þetta hafi e.t.v. átt við árið 1994. Ja, hvílík uppgjöf. Hvílík uppgjöf. --- [Fundarhlé.]