Ummæli utanríkisráðherra um Alþingi

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 21:11:39 (3489)

     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Mér eru það vissulega vonbrigði hvernig hæstv. forseti og hæstv. aðalforseti þingsins hafa brugðist við þeirri ósk okkar að hvetja hæstv. utanrrh. til að koma upp og endurtaka ummæli sín um þingið og þingmenn. Það virðist ekki vera hægt að fá hæstv. utanrrh. til að koma hér upp. Hann velur sér hins vegar annan vettvang þar sem þingmenn eru víðs fjarri til að geta átt við hann orðastað og boðar til blaðamannafundar sem utanrrh. okkar. Nú er það beiðni mín enn --- og það skal hæstv. utanrrh. vita að við erum ekki alveg hættir í þessu máli og munum sjá til hvort við getum ekki dregið eitthvað upp úr hæstv. utanrrh. í þessu máli þó síðar verði --- en ég vil reyna að gera tilraun til þess að fá svar við því hvort hæstv. utanrrh. vill koma hér upp á eftir mér í þennan stól og segja þingmönnum og öðrum frá því hvort sú yfirlýsing, sem hann gaf í kvöld, að hann stæði við hvert orð sem hann hefði sagt, hafi þá átt við það viðtal sem birt var í sjónvarpinu eða það viðtal sem birtist við hann í DV. Er hæstv. utanrrh. tilbúinn til þess að gera það, segja okkur frá því við hvort viðtalið hæstv. ráðherra átti þegar hann sagðist vera tilbúinn til að standa við hvert orð sem hann sagði? Var það viðtalið við Dagblaðið þar sem svigurmælin voru lögð að forseta og þingi ásamt þingmönnum eða var það hið fyrra?
    Nú getur hæstv. utanrrh. ekki borið við minnisleysi. Það er alveg vitavonlaust fyrir hæstv. ráðherra vegna þess að ég hef lagt fyrir hann þetta viðtal og hann hefur það fyrir framan sig þannig að minnisleysi er ekki hægt að bera við, virðulegi ráðherra. En nú læt ég þér stólinn eftir.