Evrópskt efnahagssvæði

82. fundur
Mánudaginn 14. desember 1992, kl. 23:58:43 (3500)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Nú hefur verið mælt fyrir tveimur af þeim fjórum nál. sem eru í þessu stóra og mikla máli. Næst á mælendaskrá er hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sem mælir fyrir áliti 2. minni hluta utanrmn. Ég vil segja við virðulegan forseta að mér finnst það í raun og veru vanvirða við hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og þá miklu vinnu sem hún og aðrir í utanrmn. hafa lagt í þetta mál að haga störfum hér þannig að eftir fjögurra mánaða vinnu í utanrmn. sé þingmanninum ætlað að mæla fyrir nál. sínu um hánótt og hefja þá ræðu kl. 12 á miðnætti. Ég hef spurt forustumenn í starfsliði þingsins hvort fordæmi sé fyrir því að í meiri háttar máli sé þingstörfum hagað þannig að mælt sé fyrir nál. um hánótt ef um ágreiningsmál er að ræða. Forustumennirnir í starfsliði þingsins hafa ekki treyst sér til þess að nefna neitt slíkt fordæmi.
    Nú er vitað að t.d. hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur lagt mikla vinnu í þetta mál, það mikla vinnu að hún hefur t.d. komist að annarri niðurstöðu en aðrir í þingflokki hennar. Þess vegna er eðlilegt að ræða hennar krefjist þess að hún fjalli nokkuð ítarlega um málið og ég vona að allir þingmenn hér hafi pólitískan skilning á því. Ég verð að segja það við virðulegan forseta að mér finnst ekki ná nokkurri átt að forsetadæmið ætli að skipuleggja þannig störfin hér að þessum hv. þm. sé gert það að eiga að hefja framsöguræðu sína kl. 12 á miðnætti. Ég vil biðja þann forseta sem hér situr, sem ég veit að vísu að er ekki aðalforseti þingsins, að gera smáhlé á fundinum og hafa samráð við aðalforseta og formenn þingflokka um það hvort virkilega er ætlunin að þingmaður eftir fjögurra mánaða vinnu og yfir 80 fundi í utanrmn. að mæla fyrir nál. sínu hér um hánótt. Það getur ekki verið að stjórn þingsins sé með þeim hætti að það eigi að fara að innleiða þau vinnubrögð sem eru án nokkurs fordæmis. Við eigum að sýna hvort öðru lágmarkskurteisi í umgengni og ekki nær nokkurri átt að ætla fólki að mæla fyrir nefndarálitum við þessar aðstæður, virðulegi forseti. Þess vegna er ósk mín að gert verði nokkurra mínútna hlé á fundinum þannig að menn geti ráðskast um þetta mál áður en forsetdæmið heldur úti þá vanvirðu að ætla að gera

þetta með þessum hætti.