Evrópskt efnahagssvæði

82. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 00:03:47 (3503)

     Geir H. Haarde (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er venja að verða við því að gera stutt hlé á fundum þegar um það er beðið og ég sé enga ástæðu til annars en forseti verði við þeirri ósk hv. 8. þm. Reykn. Hins vegar hlýt ég að benda á að af þeim tíma sem hefur verið til ráðstöfunar fyrir fundi í þinginu í dag hefur tveimur klukkustundum verið varið í umræður um þingsköp, einum og hálfum tíma í eftirmiðdag og hálftíma hér í kvöld og enn er verið að bæta í þann sarp. Ég hlýt líka að benda á að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson fékk til ráðstöfunar hálftíma í eftirmiðdag vegna utandagskrárumræðu þannig að ekki er um það að ræða að einhverjar sérstakar tafir hafi verið að ræða af hálfu forsetadæmisins eða stjórnarliðsins í þessu máli í dag. Ég held að menn ættu nú að líta í eigin barm í þessu máli. ( ÓÞÞ: Hvað með friðarhöfðingjann ...?) Hvað með friðarhöfðingjann, hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson? ( ÓÞÞ: Hvað með friðarhöfðingjann, Ólaf Baldvin, Jón Baldvin? Hefur hann verið til friðs í þessu máli?) Hvað með friðarhöfðingjann Ólaf Baldvin? Ég veit ekki hvernig er með hann. En ég hlýt að vekja athygli á þessu og ef ég veit rétt og þekki vini mína í stjórnarandstöðunni rétt þá hafa þeir hugsað sér að leggja töluvert í viðbót í þessa þingskapaumræðu núna og eflaust byrja þeir þingfundinn á morgun með drjúgum umræðum um þingsköp. Ég vildi vekja athygli á þessum staðreyndum um þinghaldið í dag auk þess sem frsm. 1. minni hluta talaði í tvo og hálfan tíma og auðvitað er ekkert við því að segja að menn flytji ítarlegar ræður um þetta mikla mál. En ég vildi koma þessu að, virðulegi forseti, um þinghaldið í dag en að öðru leyti geri ég ekki athugasemd við það að gert verði stutt hlé á fundinum.