Evrópskt efnahagssvæði

82. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 00:05:56 (3504)

     Kristín Ástgeirsdóttir (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hv. 8. þm. Reykv. sé að æsa sig í pontu. Ég hef skilið það sem fram hefur komið í umræðunni þannig að það væri nógur tími og allt í góðu gengi. Það sem ég meina með þessum orðum er m.a. það sem hæstv. utanrrh. sagði á blaðamannfundi í dag að staða annarra mála sem væru til umræðu í þinginu væri viðunandi svo að greinilegt er að hér er nógur tími til að tala um Evrópska efnahagssvæðið. Mér kemur þetta sjónarmið nú satt að segja nokkuð spánskt fyrir sjónir því að hér var dreift til okkar í kvöld lista með forgangsmálum ríkisstjórnarinnar og þegar ég lít yfir þennan lista fæ ég ekki betur séð en það séu a.m.k. sjö mál sem eðlilegt hlýtur að teljast og nauðsynlegt að verði afgreidd fyrir jól. Því hlýt ég að spyrja, herra forseti, er forseti sammála þessu mati utanrrh. að staða annarra mála í þinginu sé viðunandi? Hvað meinar hæstv. utanrrh. með þessar yfirlýsingu? Ég vil bara spyrja. ( Gripið fram í: Hvaða mál eru þetta?) Ja, þetta er langur listi, virðulegi þingmaður. Ég hef ekki talið málin en ég tel þó ekki með fjáraukalög og lánsfjárlög sem ég reikna með að ríkisstjórnin treysti sér til að fresta fram á næsta ár. En það er alveg greinilegt að hér er nógur tími og við tökum okkur þá auðvitað þann tíma sem við þurfum. En ég vil fá að taka undir það að auðvitað er algerlega óviðunandi að ætla fólki að mæla fyrir nefndarálitum upp úr miðnætti og langt fram á nótt þegar fólk er búið að leggja mikla vinnu í það verk þó að ég sé reyndar ekki sammála öllu sem kemur fram í þessu nefndaráliti en það er annað mál. En það er auðvitað óviðunandi að fólki skuli boðið upp á þessi vinnuskilyrði.