Evrópskt efnahagssvæði

82. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 00:10:20 (3507)


     Ragnar Arnalds (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég vil upplýsa að á fundi þingflokksformanna með hæstv. forseta sem haldinn var kl. 8.30 í kvöld bar það mjög á góma hversu lengi ætti að halda fundi áfram í kvöld. Við talsmenn stjórnarandstöðunnar lögðum þunga áherslu á það að fundur stæði ekki fram yfir miðnætti. Ég vil láta það koma fram að mér fannst að það væru nokkuð góðar undirtektir undir það að verða við því að fundurinn stæði ekki mikið fram yfir miðnætti. Að vísu vildum við líka fá alveg á hreint hvenær þau tímatakmörk yrðu en því var ekki alveg slegið föstu. En í ljósi þess að gera má ráð fyrir því að hv. þm. Ingibjörg Sólrún þurfi töluverðan tíma til þess að gera grein fyrir nál. sínu og ekki er eðlilegt að slíta ræðu hennar í sundur frekar en gert var í dag, þá sýnist manni að við ættum að slá botninn í þetta hér og nú og ég mundi eindregið mælast til þess að svo yrði.