Evrópskt efnahagssvæði

82. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 01:20:10 (3518)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Hæstv. forseti. Mér finnst að það sé margt í störfum Alþingis sem hafi mjög farið aftur eftir að deildaskipting var aflögð. Það eru kannski ekki stór formsatriði en þó eru það formsatriði þegar tilkynnt er að fresta eigi fundi um tíu mínútur og við venjulegir þingmenn teljum að það séu þessar venjulegu tíu mínútur sem verið er að tala um. En þetta er orðið eins og annað og ekki haft fyrir því að senda forseta í stólinn til að tilkynna framhaldsfrestun eins og alltaf hefur verið gert undir slíkum kringumstæðum þannig að menn vissu þá hvort það ætti að vera 20 mínútur, 30 mínútur eða klukkutími. Ég mat það aftur á móti við starfandi forseta að hann ákvað að fresta, það var virðingarvert, og að menn ræddu saman.
    Annað er það að ég man eftir því að Lúðvík Jósepsson setti fram kröfur um hvað væri eðlilegur vinnudagur á Alþingi. Ég man eftir því að Matthías Bjarnason setti fram kröfur um hvað væri eðlilegur vinnudagur. Og ég hygg að ekki sé hallað á neinn af hinum ungu fulltrúum Sjálfstfl. eða Alþfl. í salnum þó ég segi það hreint út að sá sem best situr þingfundi er aldursforsetinn í salnum í dag, hv. 4. þm. Reykv. Það er einfalt að samþykkja það niðri í flokksherbergjum að hér skuli haldið uppi fundum og fara svo heim að sofa. Það er einfalt. Það eru stórar hetjur sem þannig starfa og tefla svo fram hinum sem ætla að hlusta og ætla þeim að vaka.
    Ég verð að segja eins og er að mér finnst ekki mikið tillit tekið til þeirra manna sem eru komnir yfir miðjan aldur þegar menn standa svona að verkum. Það hefði verið eðlilegt að haga málum þannig nú að gera hlé, en byrja fundinn á morgun á því að hæstv. iðnrh. eða utanrrh. segði okkur fréttir af olíufundinum sem íslenska sjónvarpið var að segja frá og upplýsti hvort þessi olíufundur er á því svæði sem Íslendingar hafa gert tilkall til. ( Gripið fram í: Og hver hefur talað mest fyrir því?) Hver skyldi hafa talað einna mest fyrir þeim málum?
    Herra forseti, ég ætla ekki að þreyta hæstv. forseta eða þingheim með lengri umræðu um þetta.