Evrópskt efnahagssvæði

82. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 01:29:29 (3522)

     Jóhann Ársælsson (um þingsköp) :
    Virðulegur forseti. Eins og þessi dagur hefur sýnt okkur eru öll mál í upplausn sem þurfa að komast í gegnum þingið fyrir áramót. Ef menn ætla að halda þessa braut munu líklega engin önnur mál komast í gegn fyrir jól. Það hlýtur því að vera mikið umhugsunarefni fyrir hæstv. forseta hvað eigi að gera í þessu. Ég hvet forseta eindregið til þess að reyna að bera klæði á vopnin og reyna að hafa þau áhrif að þessari umræðu verði frestað fram yfir áramót. Það er eina leiðin til þess að önnur mál komist áfram. Það er alveg auðséð á því hvernig þetta gengur allt saman fyrir sig. Þessu máli var líkt við það að ætla sér að gifta dauðan mann. Ég held að frekar sé hægt að líkja þessu hreinlega við jarðarför og minni á kvæðið þar sem var kveðið um einhvern Jón, ,,eftir japl og jaml og fuður, Jón var grafinn út og suður``. Þ.e. að þannig endi þetta mál að við gröfum þennan Jón út og suður. ( ÓÞÞ: Er átt við hæstv. utanrrh.?) Akkúrat.
    Ég vil sem sagt leggja það til að gert verði það sama og Vestfirðingar gerðu áður og þetta lík verði staursett, a.m.k. vel fram yfir áramótin.