Evrópskt efnahagssvæði

82. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 01:36:09 (3527)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég hafði óskað eftir því að forseti svaraði spurningu minni áðan en ég heyri að forseti ætlar ekki að virða mig svars. Ég spurði: Hvað er það sem knýr forsetann til að halda þannig á málum að 2. og 3. minni hluti utanrmn. verða eftir fjögurra mánaða samfellda vinnu að gera grein fyrir ítarlegum nefndarálitum sínum um hánótt? Ég vil minna virðulegan forseta á að hún kallaði mig í forsetaherbergið í dag og greindi mér frá því að henni fyndist ekki við hæfi að hv. þm. Björn Bjarnason þyrfti að slíta í sundur ræðu sína og þess vegna var ég spurður hvort ég vildi ekki fallast á að bíða með að utandagskrárumræðan hæfist svo að tillit væri tekið til hv. þm. Björns Bjarnasonar. Ég féllst á það. Þá lá svo mikið við að taka tillit til framsögumanna utanrmn. að hv. þm. Björn Bjarnason mátti ekki slíta í sundur sína ræðu og ég varð að breyta mínum áætlunum og samkomulagi. Er mönnum mismunað hér, virðulegur forseti? Er þingstörfum breytt og áætlunum og tilkynningum úr forsetastól til að verða við óskum hv. þm. Björns Bjarnasonar? En þegar ég bið um skýringu af forsetastóli um það hvers vegna forseti sér sig knúinn til að pína okkur í þessa stöðu fæ ég ekki einu sinni svar.
    Mér er alveg ljóst að Alþfl. leggur á þetta höfuðkapp. Það vita allir. Það þurfti ekki ræðu hv. þm. Össurs Skarphéðinssonar til þess. En í stöðu sem þessari verður forsetinn að hafa sjálfstæðan vilja. Hann verður að gæta hagsmuna þingmanna en má ekki bara líta á sig sem fulltrúa ríkisstjórnarinnar eða ráðherranna í þessari stöðu. Fyrir utan það að ég tel að sú leið sem hér er valin sé verst fyrir ríkisstjórnina. Þetta er svo mikil óbilgirni, þetta er svo mikil ókurteisi og svo mikil óhæfa í þingstörfum að setja fulltrúa minni hluta í utanrmn. eftir margra mánaða vinnu í þessa stöðu að það getur ekki gert neitt annað en illt verra. Þess vegna vil ég minna hæstv. forseta á það hvernig hún kallaði mig til fundar í dag og bað mig að taka tillit til hv. þm. Björns Bjarnasonar. Það var gert. Ég bið um að sama sé gert við okkur og gert var við hv. þm. Björn Bjarnason. Það var tekið tillit til hans óskar. Ég fer fram á að við njótum sama réttar.