Afgreiðsla fjárlagafrumvarps

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 13:41:48 (3540)

     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Ég mun að sjálfsögðu taka þessa ráðleggingu hv. formanns fjárln. mjög alvarlega og anda rólega. Enda er svo jafnan hjá mér að ég er ekki mjög æstur hvorki í þessari þingskapaumræðu eða umræðum yfirleitt og mun auðvitað halda mig við það og taka þetta til geina.
    Ég vil hins vegar ítreka það, hæstv. forseti, að enn þá er mikið eftir af fjárlagavinnunni svo sem fram kom í þeirri tilvitnun sem ég las úr blaðaviðtölum við hæstv. fjmrh. annars vegar og úr frétt í því ágæta blaði, Alþýðublaðinu, hins vegar í dag þar sem gerð er grein fyrir að enn þá sé eftir að fjalla um mikinn niðurskurð á útgjaldatillögum frv. eins og það liggur fyrir. Það er auðvitað gott ef hv. formaður nefndarinnar telur að hægt sé að klára það allt saman á morgun. Það var það sem ég benti á. Mér sýnist að ef umræðan á að fara fram á föstudag, eins og einhvern tímann var gert ráð fyrir, þá þurfi öll þessi vinna að fara fram á morgun, þ.e. ákvarðanir um þennan niðurskurð. Jafnframt þarf að gera grein fyrir tekjuhlið frv., fara yfir þau mál og fá upplýsingar um það hvernig þau standa, allar skattahugmyndir ríkisstjórnarinnar, sem eru ekki neitt smáræði, margir milljarðar króna sem á að ná núna fram með fjárlögum og frv. um skattamál tengdum þeim, breytingum á almannatryggingalöggjöf o.s.frv., o.s.frv. Morgunstundin mun því verða að reynast æðidrjúg því væntanlega verður það bara fram undir venjulegan þingtíma á morgun sem við höfum tíma til að fara yfir öll þessi mál sem mér sýnast enn vera eftir í vinnu hv. fjárln.