Afgreiðsla fjárlagafrumvarps

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 13:43:52 (3541)


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Hæstv. forseti. Það er að sjálfsögðu alfarið á ábyrgð forseta verði sú ákvörðun tekin að fresta umræðunni um fjárlögin. Hafi formaður fjárln. andað svo rólega að undanförnu að hann hafi orðið á eftir tímanum er það að sjálfsögðu á hans ábyrgð. Fyrir þinginu liggur frv. til fjárlaga og ekkert vandamál að taka það til umræðu hvenær sem er og afgreiða það. Það er þess vegna alfarið á ábyrgð forseta ef þessari umræðu verður frestað. Ég vil undirstrika það alveg sérstaklega að það kemur úr hörðustu átt þegar það gerist við efnisumræðu sem hér á að fara fram að formaður fjárln. tekur sig til og talar um þingsköp. Þ.e. hann flytur ekki þá ræðu sem hann á að flytja heldur gerir grein fyrir því að hann vilji fá frestun á þeim hlutum.