Formleg afgreiðsla EES-samningsins

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 13:45:30 (3543)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Á fund utanrmn. í gær óskaði ég eftir því að utanrmn. leitaði álits Lagastofnunar Háskóla Íslands á því hvort formlegt væri að afgreiða EES-samninginn í þeim búningi sem hann er nú á Alþingi. Þessi beiðni mín var ekki afgreidd á fundi utanrmn. Mér barst í gærkvöldi bréf frá hv. formanni nefndarinnar þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Þorsteinn Magnússon, ritari utanrmn., hefur kynnt mér þá spurningu sem þú telur nauðsynlegt að utanrmn. leiti álits um frá Lagastofnun Háskóla Íslands. Að mínu mati er ástæðulaust að senda slíka spurningu út fyrir veggi Alþingis. Ég lít þannig á að skrifstofa Alþingis sé fullfær um að veita þá ráðgjöf sem hér er rætt um. Innan skrifstofunnar eru starfandi lögfræðingar sem hafa góða þekkingu á málefnum Evrópska efnahagssvæðinsins og sem þingmenn geta leitað lögfræðilegra ráða hjá. Með vísan til þessa ítreka ég að ég tel ástæðulaust að senda áðurgreinda fyrirspurn til Lagastofnunar en er að sjálfsögðu reiðubúinn að ræða málið frekar.``
    Ég svaraði þessu bréfi og ítrekaði ósk mína um fund með utanrmn. Formaður utanrmn. svaraði mér aftur og féllst ekki á að fundurinn yrði haldinn.
    Mér hefur borist afrit af bréfi sem Björn Þ. Guðmundsson hefur sent hæstv. forseta og ég tel óhjákvæmilegt að kynna fyrir þingheimi. Það er til forseta Alþingis, frú Salome Þorkelsdóttur, og dagsett í Reykjavík 15. des. 1992.
    ,,Fyrir Alþingi liggur frv. til laga um staðfestingu á samningnum um EES. Þetta frv. er formlega eins og hvert annað lagafrv., borið upp á Alþingi og lýtur aðeins íslenskum lögum. Fyrir alþingismönnum liggur því eins og endranær lagatexti, sem þeir samþykkja sem lög frá Alþingi eða synja, eins og hann liggur fyrir, nema honum sé breytt samkvæmt þeim reglum sem þar um gilda og þarf ekki að tíunda. Sé lagatextanum hins vegar breytt er hann svo breyttur borinn upp til samþykktar eða synjunar.
    Nú hefur eitt EFTA-landanna, Sviss, sem lagatextinn tekur til, fellt samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Lagatextinn samkvæmt því frv. sem nú liggur fyrir Alþingi er því ekki í samræmi við raunveruleikann. Af því leiðir, að mínu viti, að íslensk lög leyfa ekki að lagafrv. verði afgreitt frá Alþingi í óbreyttri mynd, hvorki með samþykki eða synjun.
    Því leyfi ég mér að skrifa yður þetta bréf, hæstv. forseti, að aldrei má það verða að Alþingi Íslendinga gleymi eigin lögum í hita leiksins.
    Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn að gera nánari grein fyrir máli mínu, verði þess óskað.
    Virðingarfyllst, Björn Þ. Guðmundsson.
    Afrit til formanna allra þingflokka.``

    Ég tel þetta þvílíkt innlegg í málið að ekki verði undan því vikist að utanrmn. komi saman og ræði stöðu málsins, kveðji til Björn Þ. Guðmundssn og leiti álits Lagastofnunar. Þetta taldi ég nauðsynlegt að kæmi fram, frú forseti.