Formleg afgreiðsla EES-samningsins

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 13:49:56 (3545)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil greina frá því hér að í framhaldi af fundi utanrmn. sl. laugardag greindi ég formanni nefndarinnar frá því að til þess að geta leitað álits lögfræðinga á því hvort frv. um Evrópskt efnahagssvæði væri þingtækt í ljósi síðustu atburða þá þyrfti að liggja fyrir þýðing á þeim prótókollum sem ráðherrar EFTA höfðu rætt um á fundi í Genf. Ég fékk þá þýðingu í hendur seint á sunnudag og greindi frá því á fundi utanrmn. í gærmorgun að ég hefði reynt að ná í Björn Þ. Guðmundsson, prófessor í lögum við Háskóla Íslands, til að leita álits hans á því hvort hann teldi að Alþingi gæti afgreitt málið. Fundur utanrmn. var kl. 10 í gærmorgun og mér hafði ekki tekist að ná í prófessor Björn Þ. Guðmundsson fyrir þann tíma. Því var hins vegar lýst yfir af hálfu formanns nefndarinnar á fundinum að utanrmn. mundi taka til íhugunar í framhaldi af fundinum hvað gert

yrði í þessu máli og einstakir nefndarmenn hefðu rétt til þess að hugleiða hvort þeir mundu óska eftir formlegri umsögn annarra lögfræðinga.
    Tilefnið var m.a. að utanrrn. hafði lagt fram álit lögfræðinga í ráðuneytinu og það sem meira er að hæstv. utanrrh. fór á blaðamannafund og kynnti það álit. Nú hefur forseta Alþingis og formönnum þingflokka borist bréf frá prófessor Birni Þ. Guðmundssyni við Háskóla Íslands. Í þessu bréfi, eins og það var lesið hér áðan, kemur alveg skýrt fram að prófessorinn telur orðrétt, með leyfi forseta: ,,að íslensk lög leyfa ekki að lagafrv. verði afgreitt frá Alþingi í óbreyttri mynd, hvorki með samþykki eða synjun.``
    Hér talar maður sem er með embættisbréf frá forseta lýðveldisins til að kenna lög við Háskóla Íslands og ákveða með prófúrskurðum sínum hverjir teljast hæfir til að gegna lögfræðistörfum í okkar landi. Og hann talar enga tæpitungu. Hann segir alveg skýrt að íslensk lög leyfi ekki að málið sé afgreitt frá Alþingi í óbreyttri mynd.
    Vegna aðdraganda málsins, virðulegi forseti, og vegna þess að ég hafði greint frá því á fundi utanrmn., að ég teldi nauðsynlegt að leita álits Björns Þ. Guðmundssonar, þá vil ég óska eftir því að utanrmn. komi nú þegar saman til að ræða stöðu málsins í ljósi þessa bréfs. Ég tel það miklu heppilegra en að fara að hefja umræðuna hér og við fáum tækifæri á vettvangi utanrmn. til að meta stöðuna, kalla prófessorinn til okkar og heyra hans rök og athuga hvort við leitum til annarra lögfræðinga. Ég vil þess vegna formlega fara fram á það, virðulegur forseti, að fundur í utanrmn. verði haldinn nú þegar og gert verði þinghlé á meðan.