Formleg afgreiðsla EES-samningsins

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 13:53:39 (3547)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil upplýsa það hér að þetta bréf lá í pósthólfi mínu áðan þegar ég kom inn í húsið og ég vil fara þess á leit að forseti láti kanna sinn póst og athugi hvort bréfið sé ekki þar að finna. Mér þótti þetta bréf svo athyglisvert að ég ljósritaði það í allmörgum eintökum og dreifði til þingmanna stjórnarandstöðunnar. Ég hefði svo sem getað dreift því til allra en til þess vannst ekki tími. Í tilefni þessa bréfs vil ég rifja það upp að á fundi þingflokksformanna með forseta þingsins sl. föstudag fór ég þess á leit að Alþingi leitaði eftir lagalegu áliti á því hvort EES-frv. sé hæft til að ræðast á Alþingi. Slík úttekt hefur ekki borist mér í hendur né öðrum þingflokksformönnum svo ég viti. Ég vil enn og aftur ítreka þessa beiðni mína. Þetta bréf gefur tilefni til þess að draga mjög í efa að hér sé staðið að málum eins og vera ber. Í það minnsta er ljóst að það er ekki hægt að greiða atkvæði um þetta frv. fyrr en það liggur ljóst fyrir hvort það er lögum samkvæmt hægt að halda málinu áfram með þessum hætti. Því vil ég ítreka enn þá beiðni, virðulegi forseti, að forsætisnefnd beiti sér fyrir því að fram komi lagalegt álit á þessu máli frá öðrum en lögfræðingum utanrrn.