Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 15:41:18 (3557)

     Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég hef orðið þess vör í þessari umræðu um hið Evrópska efnahagssvæði og reyndar svo sem fleiri málum að hv. þm. er mjög umhugað um Kvennalistann og að Kvennalistinn haldi einingu sinni í þingsölum. Það er ljóst að um þessi mál fjöllum við á vettvangi okkar og það er ljóst að í Kvennalistanum er ekki samstaða um þetta mál og ég hef nokkuð aðra skoðun á því máli en aðrar. Auðvitað hlýtur það að endurspeglast í nál. mínu. Ég vil minna á það að þetta endurspeglaðist líka í nál. hv. þm. sem var hér með andsvar við ræðu minni þegar hann var í Evrópustefnunefnd þingsins vegna þess að þá hafði hann ákveðna sérstöðu í Alþb. sem endurspeglaðist í því nál. og sem var nokkuð á skjön við þá stjórnarstefnu sem þáv. ráðherrar fylgdu a.m.k.
    Hann sagði að nál. mitt væri allt undir niðurstöðu ein áfellisdómur um EB. Ég lít ekki svo á. Ég lít svo á að ég sé þarna að velta vöngum yfir kostum og göllum. Ég er vissulega að gagnrýna EES, þetta lítur allt öðruvísi út en ég mundi vilja ef ég réði hvernig hlutirnir litu út, hvernig þeir væru. Ég bara ræð því ekki, hv. þm. Það má kannski segja að sá er vinur sem til vamms segir, en mér finnst ástæðulaust að menn gangi hér með bundið fyrir augum að þessum samningi. Þeir verða að gera sér grein fyrir þeim hættum sem í honum felast.
    Um stjórnarskrárþáttinn segi ég í mínu nál. að það sé efi í mínum huga en ég fullyrði ekkert um að stjórnarskráin sé brotin. Ég segi, það er efi og honum hefði auðvitað verið hægt að eyða en því hefur verið hafnað. Ég man ekki betur en hv. þm. hafi á sínum tíma setið hjá þegar sett voru bráðabirgðalög á BHMR sem m.a. var talið að um stjórnarskrárbrot væri að ræða og ég vænti þess að afstaða þingmannsins hafi þá verið tvíþætt. Hún hafi annars vegar verið efnisleg og hins vegar formleg. Samt sat hann hjá. Af hverju greiddi þingmaðurinn þá ekki atkvæði gegn þeirri aðgerð á Alþingi? Afstaða mín er að efnislega er ég ekki mótfallin samningnum. Hins vegar sé ég á hinum formlega þætti málsins þennan galla og ég óttast að þarna geti verið um stjórnarskrárbrot að ræða. Það er efi í mínum huga og honum hefur ekki verið útrýmt og þar af leiðandi sit ég hjá.