Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 15:46:03 (3559)

     Frsm. 2. minni hluta utanrmn. (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. 4. þm. Austurl. heldur því fram að það sé ekki nokkuð önnur skoðun sem ég hafi á þessum samningum en Kvennalistinn heldur sé það þveröfug skoðun. Það verður auðvitað að vera mat Hjörleifs Guttormssonar og ekkert við því að segja. Svo er margt sinnið sem skinnið.
    Hann heldur því jafnframt fram að það hafi komið skýrt fram í mínu nál. að höfnin sé EB, að ég vilji fara með íslenskt þjóðfélag og með Ísland inn í EB. Það kemur ekkert slíkt fram í mínu nál. Ég segi hins vegar að þetta sé eitthvað sem verði að skoða ef sú staða komi upp. Ég veit að miðað við samsæriskenningar hv. þm. lítur hann auðvitað svo á að þangað vilji ég alveg sjálfkrafa stefna af því að ég orðaði þetta með þessum hætti, af því að ég loka ekki á þann kost í þessu nál. Hann sagðist auðvitað vonast til þess að ég færi ekki með Kvennalistann og allt þingið þangað inn en ég verð að segja það að ég mætti vera meiri eimreiðin ef mér tækist að draga allt þingið þangað inn miðað við þá stefnu sem uppi er hér núna.