Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 17:50:11 (3561)

     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Flest af því sem kom fram í hinni löngu ræðu hv. þm. var þess eðlis að flestir hljóta að furða sig á því að þessi maður skuli hafa barist fyrir því og unnið að því í ríkisstjórn í á þriðja ár að koma Íslandi inn í Evrópska efnahagssvæðið. Hann hlýtur að skýra það einhvern veginn fyrir sínu fólki. En hv. þm. fjallaði um það núna og gerði það reyndar líka þegar samkeppnislögin voru til umræðu að enginn vafi væri á því að menn væru að brjóta stjórnarskrána eins og hann sagði þá og ítrekaði nú. Hann sagði núna: Hvernig mun mönnum líða þegar Hæstiréttur mun úrskurða hugsanlega að þeir hafi verið að brjóta stjórnarskrána núna? Hann þarf ekki að spyrja okkur slíkrar spurningar því það gerðust þau sögulegu tímamót, svo maður noti orðalag þingmannsins, að þegar hann var í ræðustólnum í þinginu að ræða um samkeppnislögin þá var Hæstiréttur að lýsa því yfir að hann sjálfur og ríkisstjórnin, sem hann sat í, hefðu brotið stjórnarskrána. Það væri enginn vafi á því að undirréttardóminum var breytt vegna þess að lögin stönguðust á við stjórnarskrána, lögin sem hann og hv. þm. 7. þm. Reykn., sem mjög talar um stjórnarskrána stóðu að. Hv. þm. veit því, sem við vitum ekki, hvernig mönnum líður þegar Hæstiréttur tilkynnir að þeir hafi brotið stjórnarskrána.