Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 17:51:13 (3562)

     Frsm. 3. minni hluta utanrmn. (Ólafur Ragnar Grímsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tel það jákvætt að hæstv. forsrh. skuli nú þrátt fyrir allt átta sig á því hvað hann er á þunnum ís varðandi þetta stjórnarskrármál, að hann skuli ákveða að koma upp í andsvörum með þennan þátt. Það er staðreynd eins og ég hef sagt að enginn lögfræðingur, sem gegnir trúnaði í þeirri stétt, hefur treyst sér til þess að leggja fram við Alþingi greinargerð eftir að þessar tvær greinargerðir komu fram sem segir að þetta sé í lagi. Hæstv. forsrh., sá eini sem hefur farið fram á völlinn og gert tilraun til þess að ræða við dr. Guðmund Alfreðsson og Björn Þ. Guðmundsson úr hópi starfandi lögfræðinga er hæstaréttardómarinn Þór Vilhjálmsson. Hann mætti á sameiginlegan fund stjórnarskrárnefndar og utanrmn. þar sem þessar tvær nefndir ræddu málið. Þar sagði Þór Vilhjálmsson hæstaréttardómari að hann teldi þessar deilur vera smotterí. Í sínum huga væri enginn vafi á því að þetta væri í lagi. En, hæstv. forsrh., þessi sami dómari, Þór Vilhjálmsson, var einmitt í minni hluta Hæstaréttar í BHMR-dómnum. Hann var í minni hluta Hæstaréttar í BHMR-málinu. Meiri hluti Hæstaréttar var ósammála Þór Vilhjálmssyni um það hvort lögin um BHMR væru í lagi. Við settum þau í góðri trú, hæstv. forsrh., en við horfum á þá reynslu að Þór Vilhjálmsson reyndist bara hafa rangt fyrir sér. Hann var í minni hluta í Hæstarétti og þess vegna er ég nú að vara hæstv. forsrh. við að sá maður sem hann hefur aðallega lagt traust sitt á í þessu máli, ( ÓÞÞ: Þarna talar maður af reynslunni.) sá maður sem hann hefur aðallega lagt traust á í sínu máli, Hæstiréttur sjálfur hefur að meiri hluta lýst því yfir að hann fari með rangt mál. Þess vegna held ég að það ætti að verða reynsla hæstv. forsrh. til umhugsunar að mat hæstaréttardómarans Þórs Vilhjálmssonar á því hvað sé í lagi gagnvart stjórnarskránni reynist ekki hafa meirihlutastuðning í Hæstarétti Íslands.