Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 18:04:18 (3568)

     Ragnar Arnalds (um þingsköp) :

    Virðulegi forseti. Mér er kunnugt um það að mál það sem forseti var að enda við að úrskurða um á að vera til umfjöllunar á fundi utanrmn. sem senn verður haldinn. Ég hefði talið hyggilegra að forseti hefði beðið með úrskurð sinn þar til sá fundur hefur verið haldinn vegna þess að ég hygg að það sé mál flestra sem þetta hafa hugleitt að málið þurfi nánari skoðunar við og ég held að þessi úrskurður hafi ekki verið tímabær. Það er alveg rétt sem forseti sagði hér áðan að tiltekin skilyrði eru fest í lög um það hvaða ákvæði frumvörp þurfa að uppfylla. En eitt skilyrði er ekki nefnt vegna þess að það er svo sjálfsagt að það felst í eðli máls, þarf ekki að taka það fram. Það er einfaldlega það skilyrði að sá hlutur sem lög eru sett um sé til. Það er einmitt það sem á vantar í þessu tilviki að í frv. er vísað til samnings sem ekki er til. Það er talað í frv. um samning EFTA-ríkjanna en sá samningur er ekki til eftir að Sviss hefur fellt aðild sína að honum þannig að það sem á vantar er það að sá hlutur sem verið er að setja lög um sé til. Ég endurtek það, þetta er svo sjálfsagður hlutur að löggjafanum hefur ekki þótt ástæða til að taka það sérstaklega fram. Það liggur í eðli máls. Þetta er það skilyrði sem viðkomandi frv. uppfyllir ekki þannig að ég kemst ekki hjá því að benda hæstv. forseta á það að málið þarf nánari skoðunar við. Ég er ekki að segja að meginhlutinn í úrskurðinum sé ekki réttur út af fyrir sig þegar nefnd eru fjögur eða fimm skilyrði sem séu uppfyllt, en það vantar bara aðalatriðið sem liggur í eðli máls að sá hlutur sem frv. fjallar um er ekki til. Það er skilyrði sem hlýtur að verða að uppfylla.