Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 20:59:45 (3574)

     Halldór Ásgrímsson :
    Herra forseti. Nokkuð hefur borið á því í dag og í gær að bæði fjölmiðlar og ríkisstjórn kæmu því áleiðis til almennings í landinu að hér væri málþóf og hér væri verið að tefja fyrir framgangi mála. Ég vil taka fram að ég kem beint í þennan ræðustól af nefndarfundi sem enn stendur yfir um mjög mikilvæg mál sem eiga eftir að koma til kasta Alþingis og varða stöðu atvinnulífsins og hafa að sjálfsögðu bein áhrif á afstöðu manna til þess stóra máls sem hér er á ferðinni með óbeinum hætti.
    Ekki hafa farið fram miklar umræður á Alþingi um þau frv. sem hafa verið flutt í sambandi við hið Evrópska efnahagssvæði. Ég minni á það að einn daginn voru afgreidd til nefnda u.þ.b. 14 frumvörp til efh.- og viðskn. og við höfum í þeirri nefnd unnið sleitulaust undir ágætri forustu formanns nefndarinnar, hv. þm. Vilhjálms Egilssonar, að því að koma þessum frv. frá.
    Ég minni jafnframt á að ekki urðu mjög miklar umræður um þetta mál við 1. umr. Sannleikurinn er sá að þetta mál allt saman er seint á ferðinni. Með því er ég ekki að kenna hæstv. ríkisstjórn sérstaklega um það eða hv. þm. stjórnarmeirihlutans. Hér er um mjög umfangsmikið mál að ræða og okkar litla stjórnsýslukerfi hefur átt í erfiðleikum með að ljúka því af eðlilegum ástæðum. Þar af leiðandi hefur margt sem varðar þetta stóra mál verið seinna á ferðinni en í nágrannalöndum okkar sem hafa mun fleiri embættismenn til að vinna að því. Ég tel því að það sé mikil ósanngirni að halda því fram að málið hafi sérstaklega tafist vegna málalenginga á Alþingi. Það er rétt að því var frestað um sinn og

fyrir því voru ýmsar ástæður, ekki eingöngu fjarvera manna, en ég veit ekki betur en það hafi verið nóg að gera hér á Alþingi í öðrum málum sem bíða afgreiðslu, stórum málum sem við höfum verið að vinna í, í matartímum, á kvöldin og snemma á morgnana, eftir því sem við verður komið. Ég tel því að það sé mikil ósanngirni sem felst í því þegar verið er að senda þau skilaboð til þjóðarinnar að hér séu þingmenn með einhvern leikaraskap og hagi sér enn einu sinni með svipuðum hætti og tíðkast í gagnfræðaskólum. Að vísu man ég ekki eftir því að menn hafi látið neitt sérstaklega illa þegar ég var í gagnfræðaskóla. ( ÓRG: Þú varst ekki í Hagaskóla.) Ég er að vísu ekki kunnugur í þeim tiltekna skóla, en ég hef ekki haft neinar sérstakar spurnir af því að hann hafi verið frægur fyrir ólæti. Þannig að ég tek því ekki að við séum með málflutningi okkar að tefja fyrir þessu máli. Hitt er svo annað mál að framvinda þessa máls, sem á sér orðið langa sögu, hefur um margt verið athyglisverð og ég tel að það megi læra ýmislegt af þeirri reynslu.
    Þegar þetta mál bar fyrst á góma þá var önnur ríkisstjórn undir forustu þáv. forsrh. Steingríms Hermannssonar. Í þeirri ríkisstjórn sat ég m.a. og ýmsir aðrir þingmenn sem hér eru inni og jafnframt hæstv. utanrrh. Það kom fljótt í ljós að illa gekk að ná samstöðu um málið milli ríkisstjórnar og Alþingis. Sjálfstfl. gat ekki staðið að málum með þeim hætti sem þáv. ríkisstjórn vildi og ég man ekki betur en þáv. formaður Sjálfstfl. hafi lýst því yfir að þáv. utanrrh. og núv. utanrrh. hafi brotið samstöðuna í málinu. Með þessu er ég ekki að koma á framfæri neinum sérstökum ásökunum á hæstv. utanrrh. Þegar núv. ríkisstjórn tók við kom fljótt í ljós að illa gekk að halda uppi samstöðu milli Alþingis og ríkisstjórnar í þessu máli og við sem höfum starfað í stjórnarandstöðu höfum ýmsir talið og fundist að við hefðum í sjálfu sér lítið að segja í þessu máli og lítil afskipti af því til áhrifa og lítið getað haft áhrif á framvindu þess, enda ekki sérstaklega eftir því leitað og greinilegt að hæstv. utanrrh. hefur talið að þar væri oft og tíðum ekki að finna mikinn stuðning.
    Ég tel að þessi reynsla segi ákveðna sögu og ég tel að margt af því sem hæstv. utanrrh. hefur gert og sagt að undanförnu og á liðnum árum hafi orðið til þess að vekja upp úlfúð í málinu milli Alþingis og ríkisstjórnar og jafnframt að vekja upp óþarfa úlfúð í landinu. Ég er þeirrar skoðunar að í stórum málum sem þessum eigi að reyna að mynda sem breiðasta samstöðu. Það voru áreiðanlega mistök í fyrri ríkisstjórn að stjórnarandstaðan þá, bæði Sjálfstfl. og Kvennalistinn, sem voru nokkuð samstiga í málinu þá að mestu leyti, komu ekki að því í meira mæli og var vissulega slæmt að svo skyldi fara að Sjálfstfl. og Kvennalistinn sáu sig tilneydda til þess að flytja vantraust á þáv. ríkisstjórn til þess að lýsa yfir sérstöku vantrausti á allan málatilbúnað. Það hefur ekki gengið svo langt í samskiptum Alþingis og ríkisstjórnar í tíð þessarar ríkisstjórnar að núverandi stjórnarandstaða hafi flutt vantraust á núv. ríkisstjórn í sambandi við þetta mál þó mörg stór orð hafi fallið og margir rætt það og komið fram með hugmyndir um að ástæða væri til þess, sérstaklega í ljósi þess að ekki hefur verið fallist á kröfur um þjóðaratkvæðagreiðslu í málinu.
    Ég skal játa það að ég var ekkert sérstaklega hrifinn af hugmyndinni um þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál í upphafi, fyrst og fremst vegna þess að ég sá ekki alveg hvernig væri hægt að búa það í nægilega góðan búning. En eftir því sem á hefur liðið hefur mér orðið ljóst að það hefur ekki tekist að upplýsa almenning nægilega vel um þetta mál og við stjórnmálamenn berum vissulega á því verulega ábyrgð og þá náttúrlega fyrst og fremst þeir sem standa að ríkisstjórn á hverjum tíma en að sjálfsögðu jafnframt stjórnarandstaðan. Mér var alveg ljóst að ef efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál þá hefðum við þingmenn þær skyldur að fara út á meðal fólksins og halda fundi um það og taka þátt í þessari þjóðaratkvæðagreiðslu. Það hefur enginn látið sér detta það í hug að þingmenn ættu að fara í hlé á meðan sá málflutningur ætti sér stað. Með því hefði gefist tími til að fjalla um málið á þverpólitískum vettvangi því sannleikurinn er sá að það eru skiptar skoðanir um þetta mál í öllum stjórnmálaflokkum, meira eða minna. Ég hlustaði fyrir stuttu á formann Alþb. flytja ræðu sína um þetta mál og ég tel að það sé engin ósanngirni að halda því fram að það er nokkur blæbrigðamunur milli hans og hv. 4. þm. Austurl. í þessu máli. Kemur það ekkert á óvart og ekkert óeðlilegt við það í máli sem

þessu. Þetta er á engan hátt sagt til minnkunar þeim þingmönnum sem þar eiga í hlut eða þeim flokki sem þar á í hlut og það vita allir þingmenn sem hér eru inni að slík skoðanaskipti eiga sér að sjálfsögðu stað.
    Ríkisstjórnin vildi ekki grípa þetta tækifæri sem hefði áreiðanlega orðið henni frekar til ávinnings að mínu mati. En hvað um það, það var ekki gert og ég tel það vera mjög miður. Ég hef orðið var við það að eftir því sem á hefur liðið hefur komið upp meiri áhuga fyrir því að fá upplýsingar um þetta mál, áhugi sem var ekki fyrir hendi í nægilega ríkum mæli í síðustu kosningabaráttu.
    Það er alveg rétt sem m.a. hv. þm. Björn Bjarnason hefur lagt áherslu á að þetta mál var að sjálfsögðu rætt í síðustu kosningabaráttu. Ég var einn af þeim sem ræddu það á flestum kosningafundum, bæði með öðrum flokkum og í mínum eigin flokki. En ég var jafnframt var við það að það var ekki mjög mikill áhugi hjá almenningi að spyrja um málið og einhverra hluta vegna var það ekki nægilega þroskað og komið á það stig að fólk væri tilbúið að opna sig um það, a.m.k. ekki í nægilega ríkum mæli.
    En þetta er allt að baki og í sjálfu sér ekkert um það að segja.
    Það má einnig geta þess að í fyrrv. ríkisstjórn var þetta mál í mjög ríkum mæli í höndum utanrrn. Við sem vorum í öðrum ráðuneytum komum vissulega að málinu en ég vil ekkert neita því að mér fannst það vera í of miklum mæli í höndum utanrrn. þótt að fyrir það væri að nokkru bætt með því að sérstök ráðherranefnd fjallaði um málið með utanrrh. En það leiddi ekki til þess að fagráðherrar, eins og t.d. landbrh. og að nokkru leyti sjútvrh., kæmu í nægilega ríkum mæli að því að mínu mati. Þetta er mitt mat eftir á og ég hef sömu tilfinninguna nú og jafnvel enn frekar en áður því að hæstv. utanrrh. hefur verið falið þetta mál í núv. ríkisstjórn í enn meira mæli og mér er ekki kunnugt um að með honum hafi starfað sérstök ráðherranefnd, en væntanlega ríkisstjórnin í heild. Má skilja svo að hæstv. utanrrh. hafi oft og tíðum haft mjög frjálsar hendur í málinu.
    Staðreyndin er sú að umræða um þetta mál hefur mótast af svörtu og hvítu. Hæstv. utanrrh. hefur verið helsti talsmaður málsins út á við og talað afar fagurlega um það oftast og talið að á því væru fáir gallar. Það hafa í sjálfu sér ekki myndast mörg samtök hér á landinu í málinu en þó sérstaklega samtökin Samstaða. Mér finnst að málflutningur þeirra samtaka hafi oft á tíðum verið mjög neikvæður og nánast oft á tíðum öfgafullur og samtökin hafa málað þetta mál í mjög svörtum litum. Staðreyndin er sú að hér er um mjög umfangsmikið mál að ræða sem er flókið, hefur margar hliðar, hefur marga kosti og marga galla. Oft hefur ekki tekist að koma þessari réttu mynd til skila.
    Málið á sér langa sögu og það má kannski segja að það megi rekja það aftur til EFTA. Það kom fljótt í ljós að EFTA var ekki nægilegt viðskiptabandalag fyrir okkur Íslendinga því það reyndist nauðsynlegt að ná samningum við Efnahagsbandalagið og bókun 6 var sú niðurstaða sem fékkst á því máli og var talin góð lausn á þeim tíma. Sú lausn var sérstaklega góð vegna þess að þegar við gengum frá samningum var almennt gert ráð fyrir því að Noregur mundi ganga í Efnahagsbandalagið og því var niðurstaðan e.t.v. hagstæðari okkur Íslendingum en annars hefði orðið.
    Þessi bókun og þessi samningur hefur dugað okkur vel. Hins vegar er alveg ljóst að sá samningur er okkur ekki nægilegur í dag. Hann er 20 ára gamall og er gerður á tímum þar sem aðstæður voru aðrar og það var alveg ljóst að við þyrftum að fá viðbótarsamninga um okkar mál. Það var á þessum grundvelli sem var ákveðið að verða samstiga hinum EFTA-þjóðunum í sambandi við frekari samninga við Efnahagsbandalagið. Það var umdeild ákvörðun á sínum tíma og um það var deilt á Alþingi. Það var ákvörðun sem ég stóð að og taldi rétta og tel hafa verið rétta enn þann dag í dag. Það er nú svo með öll vandasöm mál að það þýðir lítið að útiloka ákveðnar leiðir nema maður geti gert sér nokkra grein fyrir því hvaða aðrir kostir séu að settu marki og við verðum líka að gera okkur grein fyrir því hvað það er sem við stefnum að. Við þurfum að skapa okkur viðunandi stöðu í Evrópu miðað við ástandið þar í dag, en við höfum þurft að svara því hvað við viljum ganga langt til þess að ná því markmiði sem við sækjumst eftir.
    Í fyrsta lagi er alveg augljóst að við verðum að sækjast eftir betri aðgangi fyrir vörur okkar á þessu stærsta markaðssvæði heimsins, eins og það mun trúlega líta út ef frá er skilið það markaðssvæði sem er verið að mynda milli Bandaríkjanna, Mexíkó og Kanada og mun e.t.v. stækka. Sá samningur sem nú liggur fyrir tryggir okkur vissulega mun betri markaðsaðgang en við höfðum. Það hefur verið upplýst að við munum fá tollfrelsi fyrir sjávarafurðir okkar sem nemur um 93% af útflutningsvörum okkar sem er mikil bót frá því sem áður var, en það er ekki aðalatriðið heldur líka hvaða þróunarmöguleika það gefur. Ég vil hins vegar leggja áherslu á að hér er ekki um neina fullnægjandi niðurstöðu að ræða og við hljótum að stefna að því að fá betri niðurstöðu í sambandi við það mál og stefna að tollfrelsi fyrir allar vörur okkar. Ég geri mér hins vegar vel grein fyrir því að það var ekki hægt að búast við því að það yrði algjört tollfrelsi miðað við það hvað hér var erfitt að sækja fram. Vandamál okkar er það að við erum fyrst og fremst matvælaframleiðendur og það er svo með matvæli á heimsmarkaði að það tíðkast mjög að niðurgreiða þau, styrkja framleiðsluna og halda uppi margvíslegum verndarstefnum. Það var einmitt í ljósi þess að menn töldu það verða betra og árangursríkara að sækja fram með hinum EFTA-þjóðunum. Ég tel jafnframt að við verðum að reyna að fá fram niðurfellingu á öðrum vörum sem ekki hefur tekist núna eins og ég sagði áðan, og legg á það áherslu við hæstv. ríkisstjórn, að áfram verði haldið á þeirri braut.
    Ég vil líka leggja áherslu á það að ég tel að við höfum verið að sækjast eftir aukinni samvinnu við þetta svæði, t.d. við atvinnurekstur og fyrirtæki í Evrópu og ég tel að þeir möguleikar hafi opnast og vonandi verður það til góðs. Þá skiptir miklu máli að atvinnurekstur okkar sé vel í stakk búinn til að taka þátt í þessari samvinnu en það er því miður ekki svo að hann sé sérstaklega vel undir það búinn um þessar mundir. Ástæðurnar eru margar og m.a. þær að við höfum lent í kreppu, aflabresti, sumt af mannavöldum og sumt af völdum náttúrunnar. En það er þá mikilvægt að núv. ríkisstjórn hafi skilning á þessum aðstæðum atvinnulífsins og komi til móts við þessar aðstæður.
    Það stendur yfir fundur niðri í þingflokksherbergi Sjálfstfl. með helstu forustumönnum atvinnulífsins í landinu. Þessir forustumenn atvinnulífsins hafa lagt á það áherslu að ljúka samningnum sem fyrst. En sömu forustumenn leggja líka áherslu á það að það verður að vera meiri skilningur á aðstæðum atvinnulífsins. Svo ég vitni nú í orð, sem féllu áðan, þá sagði einn af þessum forustumönnum: Það má ekki skerða samkeppnishæfni fyrirtækjanna eins og ferðamennskunnar og það má ekki gera hluti sem eru í bága við alla heilbrigða skynsemi.
    Þetta eru ekki mín orð, þetta eru orð eins helsta forustumanns atvinnulífsins þegar hann er að halda því fram að hér sé verið að gera hluti sem ganga í bága við alla heilbrigða skynsemi. Hann telur það ganga í bága við heilbrigða skynsemi að leggja sérstakan skatt á ferðaþjónustuna í landinu, atvinnugrein sem er einn helsti vaxtarbroddur landsmanna.
    Jafnframt kom fram að það mætti í skattlagningu ekki heldur ganga gegn meginatriðum stjórnarskrárinnar að því er varðaði jafnræðisregluna, og hæstv. forsrh. var einmitt að rifja upp nýgenginn dóm í því máli, en það lýsir sér m.a. í því að það stendur til að fella niður aðstöðugjald af fyrirtækjum en það stendur ekki til að fella niður landsútsvar. T.d. á fyrirtæki eins og Áburðarverksmiðjan að borga aðstöðugjald áfram. Fyrirtæki eins og Sementsverksmiðjan á að borga aðstöðugjald áfram. Fyrirtæki eins og Áburðarverksmiðjan er e.t.v. sérstaklega viðkvæmt í sambandi við opnun á markaðnum. Það eru margir sem óttast að það fyrirtæki muni ekki lifa það af. Það hefur lifað af ýmsar hörmungar og m.a. kom það fyrir að þar varð ákveðið slys og þá risu ýmsir upp og töldu rétt að loka strax og leggja niður vinnustað þar sem er starfa nálægt 200 manns. Ég hef þá trú að þetta fyrirtæki geti spjarað sig en það verður að búa við sambærilegar aðstæður og önnur fyrirtæki í Evrópu. Ef þessi skattur á að vera sérstaklega á Áburðarverksmiðjunni og jafnvel komi til önnur atriði sem skekkja samkeppnisstöðuna þá mun það að sjálfsögðu ekki lifa.
    Ég er með þessu að leggja áherslu á það að ekki er nóg að opna markaði öðruvísi en að hafa sambærilegar reglur um samkeppni fyrirtækjanna. Við höfum nýlega samþykkt og afgreitt ný samkeppnislög, sem er mikið framfaramál að mínu mati, en það er

ekki mikið framfaramál í sjálfu sér ef fyrirtækin búa ekki við bærilegar aðstæður. Til þess að þau geti tekið þátt í aukinni samvinnu í Evrópu verða þau að búa við sambærileg skilyrði.
    Ég vil leggja áherslu á að við erum með þessum samningi líka að sækjast eftir meiri þátttöku í rannsókna- og þróunarstarfsemi í Evrópu og ég tel að þessi samningur opni þar marga möguleika sem þarf að skipuleggja hvernig við getum tekið þátt í þótt ég geri mér ekki nægilega vel grein fyrir því hvernig það geti orðið, en þar er mikilvægt að hið opinbera stuðli að því með ýmsum hætti og samvinnu við atvinnulífið.
    Við erum jafnframt að sækjast eftir því að fólk okkar eigi möguleika á því að afla sér menntunar og reynslu í Evrópu og ég tel að þeir möguleikar hafi opnast. Ég tel það líka vera mikilvægt fyrir okkar fólk að eiga aðgang að vinnumarkaði Evrópu og ég er ekkert sérstaklega hræddur við það að aðrar þjóðir fái aðgang að vinnumarkaði okkar. Ég tel að reynslan af norræna samstarfinu sé ekki þannig að þar sé sérstök ástæða til mikillar hræðslu.
    Ég vil jafnframt leggja áherslu á það að við hljótum í þessu sambandi að vilja halda sterkum tengslum við Norðurlöndin og Evrópu, ekki síst í ljósi þeirrar lýðræðisþróunar sem við höfum verið með í að skapa innan Norðurlandasamstarfsins, innan Atlantshafsbandalagsins og þeirra öryggishagsmuna sem við höfum haft þar að leiðarljósi á síðustu áratugum. Þetta eru atriði sem skipta pólitísku máli þegar þetta mál er metið í heild sinni. Það er ekki síst af þessum ástæðum öllum að ég hef talið nauðsynlegt og rétt að taka þátt í þessum samningum og ég hef talið það vera versta kostinn af öllum að standa fyrir utan og eiga ekki þátt í að móta það mál sem hér er komið á lokastig. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að hægt sé að ná betri stöðu með samningum en að standa til hliðar og láta þróunina líða fram hjá sér eins og oft hefur gerst með mörg lönd í gegnum tíðina og það hefur ekki alltaf tekist vel.
    Í þessu máli höfum við gert ýmsa fyrirvara. Sumir hafa náðst fram, aðrir ekki. Það er sjálfsagt eins og gengur í samningum að maður getur ekki haft allt eins og maður helst vildi og verður þá að leggja á það heildarmat hvort þeir fyrirvarar sem ekki hafa náðst fram séu svo miklir að ekki sé rétt að vera með.
    Ég hef áður vikið að sameiginlegum vinnumarkaði. Það hafa líka verið gerðir fyrirvarar að því er varðar fjármagnsflutninga. Ég er þeirrar skoðunar að íslenskir atvinnuvegir þurfi að hafa möguleika á því að kaupa þjónustu sína á því verði sem gengur og gerist á alþjóðlegum mörkuðum til þess að geta staðist samkeppni. Ég er hins vegar viss um að það er nauðsynlegt fyrir íslenskar fjármálastofnanir að styrkja samkeppnisstöðu sína og ef þær hafa styrkt samkeppnisstöðu sína nægilega vel þá er ekkert því til fyrirstöðu að opna fyrir meiri samkeppni. Ég hef hins vegar miklar efasemdir um það að fjármálastofnanir okkar hafi mjög sterka samkeppnisstöðu í dag og því er ég þeirrar skoðunar að hér þurfi að fara varlega og meta sérhvert skref. Ég er ekki með því að segja að ég telji að við þurfum að fá einhverja varanlega vernd, heldur hæfilegan aðlögunartíma og þann aðlögunartíma eigum við að nota. Mér finnst það óðagot sem hefur verið að undanförnu um að það verði að breyta ríkisbönkunum sem fyrst í hlutafélög og selja þá í meira eða minna mæli og selja þá á lágu verði eins og hæstv. fjmrh. vildi, sérstaklega að því er varðaði Búnaðarbankann, sé atriði sem ekki liggur á heldur liggi meira á að styrkja samkeppnisstöðu og stöðu þessara mikilvægu fjármálastofnana. Ég hef ekki getað stutt þann hraða sem hæstv. ríkisstjórn virðist vilja hafa í því máli, þótt þar hafi nokkuð verið hægt á. Hins vegar er vont að eyða tímum og kröftum í mikla umræðu um slík mál sem ekki ná fram að ganga því það er skaðlegt fyrir viðkomandi stofnanir og ég tel að þessi umræða öll hafi heldur verið til skaða en hitt. Með því er ég á engan hátt að útiloka það að ekki megi breyta bönkum í hlutafélög og ég lít ekki á það sem neitt trúaratriði að ríkið þurfi að eiga stærstu bankana í landinu, en ég vil hins vegar minna á það að á Norðurlöndunum hefur þessi starfsemi að meira eða minna leyti lent á ríkinu, jafnvel þótt um einkabanka hafi verið að ræða.
    En mikilvægasti fyrirvarinn af öllum varðar náttúruauðlindir okkar og um það hefur verið full samstaða. Ég hef verið þeirrar skoðunar að það leyfisveitingakerfi sem hefur gilt að því er varðaði nýtingu orkulinda hér á landi sé nægilegt til að tryggja yfirráð okkar yfir þeim. En ég hef skilið hæstv. ríkisstjórn þannig að hún stefni að því að breyta eignarhaldi orkufyrirtækjanna og breyta þeim í hlutafélög og setja hlutabréfin á almennan markað. Ekki hafa komið fram nægilega mótaðar hugmyndir um það en ljóst er að ef þetta verður gert þá mun það ekki tryggja yfirráð okkar yfir orkulindunum. Það er eitt af því sem skapar nokkra óvissu í sambandi við það mál.
    Að því er varðar landið, sem er stórt og viðkvæmt mál, þá hafa komið fram hugmyndir hvernig það megi tryggja. Það er jafnframt sagt að ekki sé líklegt að það mál nái fram að ganga í óbreyttu formi en þar eru settir fyrirvarar sem eru gagnlegir að mínu mati. Ég viðurkenni það hins vegar að staðan er sú í dag að það er engin trygging fyrir því að erlendur aðili geti ekki eignast land á Íslandi hvað svo sem líður samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Ég læt mér ekki detta það í hug að margt af því sem við óttumst í sambandi við þetta mál komi ekki til framkvæmda með einum eða öðrum hætti, hvað sem líður samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Lífið er ekki með þeim hætti að hægt sé að standa alveg utan við allt það sem þar stendur til bóta og taka engan þátt í því og að við þurfum á engan hátt að aðlaga okkur að því stóra markaðssvæði og öllum þeim fjölda sem þarna býr. Samskipti okkar eru það mikil við þessar þjóðir að við höfum alltaf orðið fyrir verulegum áhrifum frá þeim með einum eða öðrum hætti. Löggjöf okkar hefur mótast undir áhrifum frá norrænni löggjöf og evrópskri löggjöf svo dæmi sé tekið.
    Eitt vandmeðfarnasta málið í sambandi við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði er yfirráð okkar yfir fiskveiðiauðlindinni og trygging fyrir því að við sjálfir stjórnum veiðum og stjórnum því hvert hráefnið fer. Um þetta eru engar deilur og eru allir sammála því að við verðum að hafa þjóðbundið forræði yfir fiskveiðiauðlindinni sem er í andstöðu við Evrópusáttmálann, en EB byggir fiskveiðistjórnun sína á kvótum til einstakra ríkja en úthlutar þeim með miðstýrðum hætti. Þetta er ein af þeim stóru ástæðum fyrir því að það er útilokað fyrir Íslendinga að gerast aðilar að Evrópubandalaginu. En vandamálið verður hins vegar meira þegar rætt er um fiskvinnsluna. Það eru mikil tengsl á milli veiða og vinnslu og hefur verið reynt að koma upp fyrirvörum í þessu sambandi þannig að frumvinnsla sé á okkar hendi en erlendir aðilar megi eiga í í framhaldsvinnslu. Í því sambandi verður maður að viðurkenna að íslenskur fiskur er ekki eingöngu unninn á Íslandi heldur jafnframt erlendis. Því getur valið stundum staðið á milli þess hvort eigi að vinna hann hér heima eða erlendis. Í þessu skyni höfum við komið upp verksmiðjum erlendis til þess að komast inn á markaði.
    Þótt við búum yfir mikilli tækniþekkingu þá er tækniþekking annarra þjóða mikil, þjóða sem hafa náð langt á sviði iðnaðarmála og á sviði markaðsmála, og það hefur verið nauðsynlegt fyrir okkur og er enn nauðsynlegt að hafa möguleika til nánari samstarfs við þessar þjóðir. Það er líka ljóst að mikið af þeim fiskafurðum sem héðan eru fluttar fara til áframhaldandi vinnslu erlendis. Það á við um marga markaði í Evrópu en það á ekkert síður við markaði okkar í Austurlöndum. Þegar því er haldið fram að þar séu gífurlegir möguleikar fyrir fullunnar íslenskar sjávarafurðir þá er það að mínu mati ekki rétt. Það eru vissulega miklir möguleikar en t.d. fer mikið af þeim fiski sem við flytjum til Japans til áframhaldandi vinnslu í Japan. Það á við um grálúðuna, það á við um karfann, það á við um rækjuna og síldina. Þegar ég hef spurt Japani um það hvort þeir geti ekki komið til samstarfs hér á landi um fullvinnslu hér, þá hafa þeir stundum svarað því að það sé út af fyrir sig hægt en það sé of dýrt. Þeir mæli frekar með því að fara út í slíkt samstarf í Kína vegna þess að þar sé ódýrt vinnuafl og þegar laun hækki í Kína í framtíðinni þá sé kominn þar stærsti markaður heimsins.
    Oft er erfitt að eiga við slíka röksemdafærslu en það eru ekkert annað en staðreyndir sem minna okkur á það að við erum komnir inn í alþjóðlega samvinnu, inn í alþjóðlega hringiðu og markaðir sem við höfum í Austurlöndum og í Bandaríkjunum eru að mínu mati ekki þess eðlis að þeir taki við mörkuðunum í Evrópu. Við þurfum á öllum þessum mörkuðum að halda og þurfum að tryggja stöðu okkar á öllum mörkuðum þar sem

hagstætt er að selja. Það er mikill misskilningur þegar því er haldið fram að íslenskur fiskur sé svo eftirsóttur að það þurfi lítið að hafa fyrir því að selja hann. Við getum nokkurn veginn verið hér og beðið eftir því að menn nái í hann. Það er ekki rétt og það minnir e.t.v. á þær hugmyndir sem voru einu sinni uppi um lambakjötið þegar margir héldu því fram að það væri ekkert mál að selja íslenskt lambakjöt erlendis, það þyrfti bara að gera eitthvað í því. Það gekk svo langt að menn héldu því fram að það væri rétt að byrja að framleiða mun meira til þess að hafa nægilegt kjöt á væntanlega markaði. ( Gripið fram í: Það er eins með álið.) Já, það er eins með álið og það er eins með allar vörur. Það þarf að hafa fyrir að selja allar vörur en til þess að það sé hægt þarf að vera frjáls aðgangur að mörkuðum.
    Eitt af því sem hefur verið mjög erfitt í sambandi við þetta mál er krafa Evrópubandalagsins um aðgang að íslenskri landhelgi gegn því að við fáum aðgang að markaði EB. Við höfum verið sammála um það að þessum kröfum bæri að hafna. Mér hefur hins vegar verið það alveg ljóst lengi að það yrði erfitt að komast hjá því að gera samning á sjávarútvegssviðinu sem jafnframt fæli í sér að gerður yrði samningur um takmarkaðar veiðiheimildir og þá jafngildar veiðiheimildir. Vegna þess að okkur var þetta ljóst þá var unnið að því og sá undirbúningur var hafinn meðan ég sat í ríkisstjórn.
    Ég vil minna á það hversu erfitt þetta mál var að ég sem sjútvrh. fór aðeins einu sinni til Brussel til að tala við þarlend stjórnvöld. Ég get alveg fullvissað menn um það að það sýndist mér ekkert sérstaklega auðvelt og ég get því vel haft vissa samúð með hæstv. utanrrh. að hafa þurft að umgangast það bírókratí allt saman í jafnmörg ár og alla þessa daga og allar þessar nætur sem hann hefur þurft að taka þátt í því.
    En þegar áttu sér stað samtöl um þetta mál á árinu 1989 voru viðbrögðin margvísleg og ætla ég að vitna í nokkur ummæli. Ég vil t.d. minna á það að þáv. formaður Sjálfstfl., núv. sjútvrh., sagði, með leyfi forseta:
    ,,Við eigum að hefja viðræður við Evrópubandalagið til þess að styrkja íslenska hagsmuni en ekki til þess að gefa eftir af rétti Íslendinga.``
    Morgunblaðið sagði leiðara um þetta leyti, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin á að víkja til hliðar hugmyndum sem hafa því miður kviknað hjá henni um að veita öðrum þjóðum veiðiheimildir innan okkar fiskveiðilögsögu. Slíkt kemur ekki til greina og þjóðir munu ekki þola nokkurri ríkisstjórn eða nokkrum stjórnmálaflokki slíkar tilslakanir. Það verður að láta á það reyna hvort við getum náð samningum við EB-ríkin um gagnkvæma viðskiptahagsmuni án þess að hleypa fiskiskipum þeirra á ný inn í okkar fiskveiðilögsögu. Það hefur ekkert komið fram um að það sé ekki hægt. Þess vegna eiga stjórnmálamenn og aðrir að hætta að tala um veiðiheimildir erlendra þjóða í fiskveiðilögsögu okkar. Við getum talað við aðrar þjóðir um öll mál og samið við þær til að tryggja hagsmuni okkar en það semur enginn um fjöreggið sitt.``
    Þetta var skoðun þessa víðlesna dagblaðs á þeim tíma og mér er nær að halda að þeir ritstjórar sem stýrðu pennanum þá stýri honum enn í dag en það kveður við nokkuð annan tón því á þeim merka degi 1. des. 1992 endaði leiðari Morgunblaðsins með þessum hætti, með leyfi forseta:
    ,,Samningurinn um fiskveiðimál er síðasta óvissuatriðið í tengslum við aðild Íslands að hinu Evrópska efnahagssvæði. Nú þegar þessari hindrun hefur verið rutt úr vegi ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að Alþingi samþykki loks samninginn um EES og fylgifrumvörp hans.``
    Blaðið hafði áður vitnað beint í fréttatilkynningu utanrrn. og segir:
    ,,Er hlutur Íslands metinn sem 20% verðmætari en hlutur Evrópubandalagsins.``
    Má segja að þessi leiðari sé eiginlega endursögn á fréttatilkynningu utanrrn.
    Ég man ekki til þess að 8. mars 1989 hafi verið gefin út fréttatilkynning frá utanrrn. um þær viðræður sem áttu sér stað í Brussel. Þessum fréttatilkynningum frá utanrrn. hefur heldur fjölgað og ég skal játa það að ég næ ekki að lesa þær allar, enda eru þær sumar hverjar um það sem kalla má smámuni en hitt er svo annað mál að það er ágætt að gefa út fréttatilkynningar um það sem um er að vera.

    Því er haldið fram af hæstv. ríkisstjórn að hér sé um jafngildar veiðiheimildir að ræða sem hefur verið grundvallaratriði í þessu máli. Ég er þeirrar skoðunar að það sé langt frá því og það er enn þá fjær að það sé rétt að við höfum fengið 20% verðmætari veiðiheimildir en Evrópubandalagið. Hins vegar ef það hefur verið hugarfarið, sem hefur ríkt við samningaborðið, þá er kannski von að árangurinn sé ekki betri. Ég man eftir því í umræðum fyrir stuttu að hæstv. utanrrh. talaði um karfatitti. Og eitt sinn sagði hann: Þetta er svona á við afla tveggja vertíðarbáta.
    Hann hefur viðhaft þann tón að hér sé um lítið mál að ræða sem skiptir litlu máli og auðvitað hefur sá tónn borist til Brussel. Það merkilegasta er að það hafi verið gripnir stuðlar sem notaðir eru í kvótakerfinu og þeir hafðir til brúks sem heilagur sannleikur í þessu máli og er það alveg nýtt fyrir mér að hæstv. utanrrh. skuli hafa slíka oftrú á kvótakerfinu og þeim gögnum sem á bak við það eru. En það er náttúrlega alveg fráleitt að nota slíka hluti í samningaviðræðum. Þegar menn semja þá reyna menn að sjálfsögðu að gera sér grein fyrir því hvers virði hluturinn eða heimildin er fyrir gagnaðilann og heimildin sem við eigum að fá fyrir okkur. Hvers virði eru svo þessi 3.000 tonn af karfa fyrir Efnahagsbandalagið? Upphaflega átti þetta að vera 70% langhali og að mínu mati gat þá verið um ásættanlegan samning að ræða vegna þess að þetta er vannýttur stofn, en það stóðst ekki. Evrópubandalagið metur 3.000 tonn af karfa sem 2.600 þorskígildi og hæstv. utanrrh. skaut á það vorið 1991 og hafði það eftir útvegsmönnum eða fulltrúum sjávarútvegsins að hér gæti verið um 200 millj. að ræða.
    Þjóðhagsstofnun reiknaði út á sl. vori stuðla fyrir helstu fisktegundir, annars vegar byggt á innlendum löndunum og hins vegar byggt á löndunum í heild sinni. Ef þorskur er metinn 1, þá er karfi þar metinn 0,7 og loðna 0,04. Ef litið er á meðalverð alls afla á Íslandsmiðum á árinu 1991 þá er verðið á þorski 70,88 kr. af óslægðum þorski þannig að þegar miðað er við slægðan þorsk þá hækkar það. Af karfa 62,36 kr. og af loðnu 3,96 kr.
    Það má öllum vera ljóst að sú loðna sem á að koma í okkar hlut veiðist væntanlega í lok vertíðar og er þess vegna verðminni en meðaltalið og það er mitt mat að það sem við fáum í okkar hlut sé ekki meira en helmingur af því sem Evrópubandalagið fær í sinn hlut. Að vísu getur enginn fullyrt alveg um þetta nema í ljósi reynslunnar og það má best finna út úr því með því að spyrja þá sem nú stunda útgerð hvort einhver sé tilbúinn að skipta á karfaheimildum og loðnuheimildum til veiða á þessari vertíð þegar kemur fram á vertíðina. Ég held enginn maður finnist sem er tilbúinn til þeirra skipta og þar af leiðandi er alveg ljóst að hér er ekki um jafngildar veiðiheimildir að ræða og það þýðir ekkert fyrir hæstv. ríkisstjórn að koma og kynna það mál með þeim hætti. Er alveg ótrúlegt að hæstv. utanrrh. skyldi leyfa sér að kynna það þannig að við hefðum fengið meira í okkar hlut, ekki síst með tilliti til þeirrar óvissu sem er að því er varðar loðnustofninn.
    Það hefur því verið brugðið út af því að halda sig við jafngildar veiðiheimildir. Nú má vel vera að hæstv. utanrrh. vilji halda því fram að það hafi ekki verið hjá því komist en þá er miklu nær að viðurkenna það og segja það í stað þess að halda því fram að hér sé um jafngildar veiðiheimildir að ræða. En það er alveg ljóst að ég get ekki stutt samning á þessu sviði sem byggir á því. Ég tel að þetta mál eigi að taka upp við Evrópubandalagið nú þegar vegna þess að eftir því sem ég best skil þá mun sjávarútvegssamningurinn væntanlega frestast um eitt ár þar sem hið Evrópska efnahagssvæði tekur ekki gildi fyrr en hugsanlega á miðju næsta ári en þá var gert ráð fyrir því að sjávarútvegssamningurinn tæki gildi um leið og samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, nú í upphafi árs. En mér finnst ekki koma til greina að hann taki gildi um mitt næsta ár því að gert hefur verið ráð fyrir því að við veiddum fyrst þessa loðnu áður en þeir veiddu karfann.
    Karfi er eftirsóttur um þessar mundir og ástæðan sú að karfaveiðin er betri en önnur veiði og þar af leiðandi er meiri eftirspurn eftir slíkum veiðiheimildum en því miður er lítill áhugi fyrir loðnuveiðum um þessar mundir.
    Vissulega væri ástæða til að rekja margt fleira í þessu máli, en tímans vegna ætla ég ekki að eyða miklu lengri tíma í það. Margir fleiri þurfa að komast að og tjá hug sinn

um þetta stóra og mikilvæga mál. Ég vil að lokum segja það að ég hef verið samþykkur því frá upphafi að ganga þessa götu og tel að lítið annað hafi verið að gera en að ganga hana til enda. Ég tel mig hins vegar ekki geta tekið pólitíska ábyrgð á þessu máli og vil því lýsa því yfir að ég mun sitja hjá við atkvæðagreiðslu um það. Ég vil hins vegar ítreka að ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að við ættum að taka þátt í myndun hins Evrópska efnahagssvæðis. Ég er þeirrar skoðunar að sjávarútvegssamningurinn er ófullnægjandi og get ekki staðið að honum. Ég tel jafnframt að of mikil óvissa sé um framtíðina og vil minna á þá tillögu sem ég og hv. þm. Steingrímur Hermannsson höfum flutt um framtíðarstöðu Íslands í samskiptum við Evrópubandalagið og hefði viljað heyra frá hæstv. ríkisstjórn um það mál þegar allar hinar þjóðirnar hafa nú beðið um viðræður um aðild að Efnahagsbandalaginu, hvort ríkisstjórnin sé ekki tilbúin til að fara formlega fram á það að hefja slíkar viðræður með svipuðum hætti og nágrannar okkar ætla að gera en þó með ólíkum hætti. Við hljótum að þurfa að ræða um framtíðarstöðu okkar alveg eins og aðrir og ég tel nauðsynlegt að Alþingi marki stefnu um það og marki þá stefnu að ekki komi til álita að Ísland gangi í Evrópubandalagið.
    Ég hef skilið það svo að um það væri samstaða og vænti þess að slík samstaða geti myndast á Alþingi, en ég veit ekki hug hæstv. ríkisstjórnar þótt ég hafi vissulega fundið að hún væri að nokkru leyti jákvæði í þessu máli, en það verður að koma fram með skýrum hætti.
    Ég vil jafnframt nefna að ég er þeirrar skoðunar að það hefði verið til mikilla bóta að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um þetta mál og það hefði getað orðið til þess að meiri friður hefði skapast um það, en það er að sjálfsögðu mjög mikilvægt í svo stóru máli að sem bestur skilningur ríki meðal landsmanna. Hins vegar er auðvitað svo að það hefðu aldrei allir á það sæst en mikilvægt hefði verið að fleiri hefðu fengið á því betri skilning.
    Ég er jafnframt þeirrar skoðunar að það sé rétt að stjórnarskráratriði málsins séu ekki nægilega örugg án þess að ég treysti mér til að kveða upp dóm í því efni. En í þeim málum eigum við að gæta fyllsta öryggis og kemur þá ekkert við hvað hefur gerst í öðrum málum þótt ég viti það vissulega að ekki getum við alltaf vitað nákvæmlega hvenær við göngum gegn anda stjórnarskrárinnar þótt við viljum leggja okkur öll fram um að halda hana í heiðri. Ég er jafnframt þeirrar skoðunar að ekki hafi verið nægilega vel að því staðið að styrkja stöðu atvinnulífsins í sambandi við undirbúning þessa máls sem ég tel mjög mikilvægt.
    Ég vil hins vegar að lokum, herra forseti, láta í ljós þá ósk að þótt ekki hafi náðst nægilega góð samstaða um afgreiðslu þessa máls á Alþingi og ég geri mér grein fyrir því að það er komið að lokum í þessu máli, hvort sem það verður næstu daga á þessu ári eða í byrjun næsta árs, þá vænti ég þess að það geti myndast gott samstarf um framhalds málsins. Það er mikilvægt fyrir alla stjórnmálaflokkana að standa sem best að því til frambúðar því málinu er ekki lokið með þessu skrefi. Ég vildi vonast eftir því að það gæti orðið betra samstarf meðal stjórnmálaflokkanna í þeim efnum og menn byggi þá nokkuð á þeirri reynslu sem við höfum við umfjöllun þessa máls. Ég minni á þá reynslu sem Danir hafa fengið og þá miklu samvinnu sem hefur verið meðal stjórnmálaflokkanna í sambandi við þeirra mál þótt ólík séu og óska eftir því að við gætum náð um það góðu samstarfi að tryggja sem best framtíðarhagsmuni okkar gagnvart Evrópumörkuðunum, Evrópubandalaginu og þeirri þróun sem á sér stað í Evrópu um þessar mundir.