Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 22:08:10 (3578)

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vænti þess að forseti virði mér það til vorkunnar að hafa verið ófús til að taka þátt í þeim leik að tefja þingstörf með því að brjóta þingsköp. Með þessum orðum vísa ég til þess að forseti, annar en sá sem nú situr á forsetastóli, áréttaði fyrr í umræðunum að undir þingskapalið ræða menn ekki efnislega um málið. Hins vegar þykir mér tilhlýðilegt þegar við höfum hlýtt á málflutning talsmanna allra stjórnmálaflokka á þinginu, framsöguræður fyrir nefndarálitum, að drepa á nokkur meginmál sem upp hafa komið í umræðunni.
    Fyrst, virðulegi forseti, örfá orð um vinnubrögð og starfshætti. Einstakir talsmenn stjórnarandstöðunnar hafa látið að því liggja í fjölmiðlum að af hálfu stjórnarliða væri upp vilji til þess að hefta málfrelsi manna, takmarka rétt manna til þess að tjá sig, sem væri auðvitað hin mesta ósvinna um svona þýðingarmikið mál. Í ljósi slíkra fullyrðinga er fróðlegt fyrir okkur að hafa til hliðsjónar upplýsingar um hvernig um þetta hið mikla mál hefur verið fjallað á ýmsum þjóðþingum samstarfsþjóða okkar vegna þess að þetta er eitt og sama málið. Það er jafnviðamikið fyrir þau öll, jafnþýðingarmikið, krefst jafnmikillar skoðunar könnunar þó hins vegar megi halda því fram út af fyrir sig að niðurstaða í málinu sé þýðingarmeiri fyrir Íslendinga en hinar EFTA-þjóðirnar vegna þess að þær hafa valið sér annan kost í framtíðinni en við og því eigum við meira í húfi en hinar þjóðirnar að málið nái fram að ganga.
    Ef við lítum til annarra þjóða nefni ég fyrst Austurríki. EES-samningurinn kom þrisvar sinnum til umfjöllunar í utanríkismálanefnd þingsins þar og stóð hver fundur í tvo tíma. Í þjóðþinginu, Nationalrat, var samningurinn tekinn fyrir einu sinni og stóð sú umfjöllun í átta klukkustundir. Loks var hann lagður fyrir sambandsráð og ræddur þar hluta úr degi. Þetta er fróðlegt fyrir hv. þm., og reyndar þá sem hlýða á þessa umræðu, að hafa til hliðsjónar við þær upplýsingar, sem hafa komið fram áður, að utanrmn. Íslendinga hefur haldið yfir 90 fundi um þetta hið sama mál. Tölur hef ég að vísu ekki um hversu mörgum dögum eða klukkustundum við höfum varið til þess að ræða málið við 1. umr. og 2. umr. þar sem hingað til er komið eða hversu miklum tíma hefur verið varið af hálfu hv. þm. sumra hverra, tiltölulega fámenns hóps, til þess að ræða málið ekki, þ.e. í utandagskrár- eða þingskapaumræðum.
    Ef við lítum til Noregs þá var EES-samningurinn lagður fyrir þingið þar í maí og afgreiddur umræðulaust til utanríkismálanefndar. Utanríkismálnefnd kom saman sex sinnum fyrir þinghlé en eftir að þing kom saman 24. ágúst voru haldnir 24 fundir í nefndinni. Alls var því 31 fundur haldinn í nefndinni um EES-samninginn. Auk þess voru haldnir fundir með 14 helstu samtökum hagsmunaaðila, en umfjöllun lauk síðan með tveggja daga umræðu í norska Stórþinginu í október. Öll meðferð var í samræmi við samkomulag sem þingflokkarnir gerðu með sér í maí sem stóðst upp á punkt og prik.
    Ef við lítum til Finnlands þá var málið rætt þar í tvo daga, 22. og 23. okt., en einn dag í þingi til lokaafgreiðslu 27. okt.
    Ef við lítum til Svíþjóðar þá voru álit hagsmunaaðila fyrst tekin fyrir á þingi en sú umfjöllun tók einn og hálfan tíma á tveimur fundum. Umræða um sjálfa staðfestingu samningsins og atkvæðagreiðsla um hana tók samtals tæpa 13 tíma. Sérstök Evrópustefnunefnd fjallaði um samninginn á níu fundum en auk þess tóku sérnefndir þingsins, 15 talsins, einstaka þætti hans fyrir á tveimur fundum hver.
    Í Sviss var samningurinn tekinn fyrir á aukaþingi og hann sjálfur ásamt öllum fylgifrumvörpum afgreiddur á þremur vikum í haust.
    Virðulegi forseti. Ég held að þetta séu fróðlegar upplýsingar til hliðsjónar vegna þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram um það að hér skorti eitthvað á vegna einhvers offors eða meinbægni í stjórnarmeirihlutanum að leyfa mönnum á hinu háa Alþingi, eins og stjórnarmeirihlutinn ráði því nú, að tjá sig um málið. Þetta eru auðvitað ekki réttar fullyrðingar. Þær eru einfaldlega ósannar og læt ég mönnum að öðru leyti eftir að álykta það sem þeir vilja um starfshætti og vinnubrögð. Menn geta alla vega ekki sagt að þetta mál sé svo sérstakt og mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að það sé ósambærilegt við það sem gerist hjá öðrum þjóðum. Við erum hér að tala um nákvæmlega sama málið.
    Virðulegi forseti. Miklar og ástríðuheitar umræður hafa farið fram um það hvort þetta mál sé lifandi eða dautt. Ef hv. stjórnarandstæðingar tryðu sjálfir sínum eigin málflutningi um að málið væri steindautt er vant að sjá hvers vegna þeim er svo óskaplega mikið í mun að koma í veg fyrir að það nái afgreiðslu. Það skiptir engu máli að afgreiða dautt mál. Það mun þá auðvitað aldrei ná fram að ganga og verður ekki neitt eða munu dauðir rísa upp frá dauðum eða hvað?
    Það er talað um það hvort málið sé þingtækt og mörg orð uppi höfð um það. Í utanrmn. á laugardagsmorgni, eftir að gerð hafði verið grein fyrir niðurstöðum lagasérfræðinga EFTA og ráðherraráðs EFTA um stöðu málsins og framhald, komu fram óskir um það að leitað væri álits lagasérfræðinga. Það var sérstaklega af hálfu formanns utanrmn. leitað eftir því hvort menn vildu nefna einhverja sérstaklega til þess. Engar ábendingar komu fram um það. Því næst voru kvaddir til þrír lögfræðingar til þess að fjalla um þessa spurningu, einn frá utanrmn., einn frá viðskrn. og einn frá dómsmrn. Áður en þeir luku sinni athugun höfðu þeir samráð við Stefan Má Stefánsson, sérfræðing í Evrópurétti, og Lilju Ólafsdóttur, sem er meðlimur í laganefnd EFTA. Þessi lögfræðilega greinargerð var send öllum meðlimum hv. utanrmn. með góðum fyrirvara á sunnudegi um leið og verki var lokið þannig að mönnum gafst tóm til þess að kynna sér þetta fyrir nefndarfund á mánudag. Þá brá svo við að í umræðunni á mánudegi sagði einn talsmaður stjórnarandstöðunnar að það væri ekki marktækt. Stjórnarandstaðan gerði ekkert með þetta lagaálit. Þá var, eins og fyrr hefur borið við í þessum umræðum, reynt að koma einhverjum handbendisstimpli á þá lögfræðinga sem starfa í opinberri þjónustu og því síðan lýst yfir að ekkert sé með slíkt að gera. Þá er ekki mikið verið að tala um starfsheiður manna, jafnvel þeirra sem að bestu manna yfirsýn þekkja þetta mál í þaula og hafa unnið að því langan tíma.
    Þegar hins vegar kemur bréf, eitt lettersbréf, frá prófessor við Háskóla Íslands, þar sem hann lýsir skoðun sinni en rökstyður að engu leyti, eru höfð uppi hástemmd orð um að hér sé komið hið merkasta álit og var þó ekki fyrirfinnanlegur í bréfinu, sem er fáeinar línur, nokkur einasti rökstuðningur fyrir þessari skoðun hans.
    Af þessu tilefni held ég að það sé óhjákvæmilegt að það komi fram um hvað þetta mál snýst. Sú skoðun að með því að greiða atkvæði á hinu háa Alþingi um tillögugreinar staðfestingarfrv., þá sé EES-samningurinn kominn í gildi er auðvitað alröng. Það eina sem gerist er það að 1. gr. hefur tekið gildi og hún er heimildarákvæði til ríkisstjórnar um það að geta fullgilt hið endanlega lagafrv. þegar það hefur hlotið fullnaðarafgreiðslu. Alþingi afsalar sér engu og fullgildingin á sér ekki stað fyrr en Alþingi hefur fjallað um

þessa viðbótarbókun. Viðbótarbókunin snýst aðeins um eftirfarandi tæknileg atriði: að EES-samningurinn gildi milli undirritunaraðila, að tilvísanir vegna Sviss skuli ekki gilda, að breyta þurfi tilvísunum í dagsetningar í samningnum og setja þurfi ákvæði um gildistöku samningsins. Þetta eru tæknileg atriði. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Það er spurning um það hver hefur orðið hérna. ( Forseti: Hæstv. ráðherra hefur orðið.) Þetta eru hrein og klár tæknileg atriði og um það er út af fyrir sig ekki deilt. Upphaflega voru þetta tillögur EFTA-ríkjanna um hvernig með skuli fara. Þær hafa þegar verið ræddar við sérfræðinga EB. Það er rétt að niðurstaða er ekki fengin en hins vegar eru allar horfur á því að þetta verði niðurstaðan.
    Hvert yrði þá framhald málsins? Framhaldið yrði það að sérfræðingahópur EFTA og EB gerir tillögur um bókun við EES-samninginn. Í annan stað mun væntanlega ráðherraráð Evrópubandalagsins þegar það kemur saman 21. des. taka afstöðu til þess fyrir sitt leyti. Þá getur ráðstefna stjórnarerindreka verið kölluð saman snemma í janúar og þessi bókun undirrituð.
    Í fjórða lagi yrði þessi bókun lögð fyrir þjóðþing EFTA-ríkja, þar sem þess er þörf, í samræmi við stjórnskipun hvers lands. Bókunin yrði síðan væntanlega fullgilt af 18 aðildarríkjum og Evrópubandalaginu og þar með gæti EES-samningurinn öðlast gildi þegar öll þessi ríki hafa afhent sín fullgildingarskjöl og þinglegri meðferð yrði lokið.
    Í ljósi þessa er niðurstaðan einfaldlega sú að hvort heldur er frá þjóðréttarlegu eða lagatæknilegu sjónarmiði er ekkert því til fyrirstöðu að fullgilda EES-samninginn. Þetta styðst við fordæmi innan lands og erlendis.
    Hvers vegna er það að Finnlandsforseti hefur staðfest EES-samninginn óbreyttan sem hann gerði eftir að Sviss hafði helst úr lestinni? Hvers vegna halda menn að Liechtenstein hafi haldið sína þjóðaratkvæðagreiðslu eins og ekkert hefði í skorist eftir að Sviss hefði helst úr lestinni? Það styður einfaldlega þau sjónarmið sem lagasérfræðingar hafa hér komist að niðurstöðu um. Kjarni málsins er sá að ekkert meginmál samningsins tekur lagagildi fyrr en þessu fullgildingarferli er lokið. Þess vegna er sú skoðun að þetta mál sé ekki þingtækt hér röng.
    Það styðst reyndar líka við fordæmi innan lands. Hv. framsóknarmenn hafa gjarnan þann hátt á að vitna í Ólaf Jóhannesson, þann mæta mann, fyrrv. forsrh. og stjórnlagaprófessor, þegar þeir þykjast eiga úr vöndu að ráða varðandi stjórnskipuleg efni. Fordæmið um það hvern hátt Alþingi hafði á við staðfestingu tvíhliða samnings, fríverslunarsamnings við Evrópubandalagið árið 1973, staðfestir þetta. Þar var ekki einu sinni haft við að leggja fram neina viðbótarbókun til útskýringar á því að Noregur var ekki Evrópubandalagsríki. Þar duga ekki þau rök hv. þm. Steingríms Hermannssonar að sá sé munurinn á að þarna hafi verið um að ræða staðfestingu á þjóðréttarsamningi en nú séum við að láta lög öðlast lagagildi. Við erum ekkert að láta lög öðlast lagagildi. Þau taka ekkert gildi að lögum fyrr en það hefur gerst með afhendingu fullgildingarskjala og Alþingi staðfest viðbótarbókun.
    Því hefur verið haldið fram að EFTA sé einhver samningsaðili í þessum samningum. Enginn hefur tekið það til baka þótt það sé rangt. Hvert einstakt EFTA-ríki er sjálfstæður samningsaðili. Þetta er öðruvísi EFTA megin en EB megin vegna þess að það þarf samhljóða samþykki allra EB-ríkja fyrir fullgildingu. EFTA megin er spurningin um það hversu mörg EFTA-ríkin munu fullgilda samninginn. Það er efni þeirrar ríkjaráðstefnu sem væntanlega verður kölluð saman í janúar. Fjöldi þeirra ríkja verður að liggja fyrir á þeirri ráðstefnu stjórnarerindreka sem fyrirhuguð er til þess að unnt sé að ganga frá þessari bókun. Svo einfalt er nú það. Það er ástæðan fyrir því að það er nauðsyn að við höfum lokið þinglegri afgreiðslu þessa máls fyrir áramót til þess að vera við því búin ef þessi ríkjaráðstefna verður haldin snemma í janúar.
    Með öðrum orðum er hvorki þingtæknileg né þjóðréttarleg ástæða fyrir töfum og það er allt rangt sem hér hefur verið talað um dauðan samning, óþingtækan samning, og ég veit ekki hvað og hvað. Oft hef ég mátt þola það að menn hér hafa borið mér á brýn að hafa farið rangt með einhverja hluti. Mér finnst komin ástæða til að þeir sem hafa verið með þennan málflutning undanfarna daga líti í eigin barm og spyrji sjálfa sig að því hvort ekki sé komin ástæða til og tími til að þeir biðjist velvirðingar á eða leiðrétti a.m.k. rangfærslur sínar.
    Niðurstaðan í málinu er þess vegna þessi:
    1. Það er engin ástæða til að því er varðar þjóðarétt né lagatækni sem kallar á breytingar nú.
    2. Það er sjálfgefið að að lokinni þessari viðbótarbókun, ef samkomulag verður um hana á ríkjaráðstefnunni, að gera tæknilegar breytingar. Fullgilding samningsins fyrir áramót er auðvitað til þess fallin, eins og ég áður sagði, að fullvissa aðra samningsaðila að Ísland ætli sér að vera aðili að hinu Evrópska efnahagssvæði, eyða óvissu og eyða tortryggni, ekki síst í ljósi þeirra íslensku hagsmuna að ef hin ríkin eru þegar líða tekur á árið byrjuð og komin á fullt í samningsferli um inngöngu í EB, þá kemur að því fyrr eða síðar ef Alþingi Íslendinga reynist ekki geta tekið afstöðu til þessa samnings að áhugi þessara samstarfsaðila okkar og samningsaðila fari þverrandi.
    Eins og ég sagði áður á engin EFTA-þjóð meira í húfi en við að svo fari ekki. Það er árétting á því hvers vegna og það er í samræmi við íslenska hagsmuni að draga þetta mál ekki á langinn. Það er þess vegna sem ábyrgir aðilar í þjóðfélaginu, hver á fætur öðrum, nánast allir talsmenn atvinnulífsins á Íslandi, þar með talinn t.d. hagfræðilegur ráðunautur Alþýðusambands Íslands, hvetja nú Alþingi Íslendinga til þess að taka ábyrgða afstöðu og draga ekki á langinn þannig að það valdi áhættu að lúka þessu máli. Með þessu móti fylgjum við fordæmi annarra EFTA-ríkja sem hafa þegar staðfest, einnig eftir að Sviss heltist úr lestinni. Þetta er sú leið sem lagasérfræðingar EFTA mæltu með, sem ráðherrar EFTA-ríkjanna mæltu með og sem íslenskir lagasérfræðingar, sem hafa haft fyrir því að rökstyðja sitt álit, mæla með.
    Það er eitt óvissuatriði í þessu máli sem væntanlega fæst ekki svar við fyrr en 21. des. í fyrsta lagi. Það er spurningin um hvort það sjónarmið framkvæmdastjórnar EB, að taka ekki upp spurninguna um þróunarsjóðinn, verði ofan á eða hvort þar muni ráða fjárkröfur einstakra aðildarríkja eins og Spánar. Ég er ekki í nokkrum vafa um að það mun styrkja stöðu Íslendinga sérstaklega og EFTA-hópsins sem heildar ef við höfum öll, og Ísland er nú eini aðilinn sem hefur ekki gert það, lokið formlegri afgreiðslu málsins. Þá verður síður hægt að beita þeim rökum að æskilegt sé eða gerlegt að taka upp einstök efnisatriði. Þetta er fjárhagslegt hagsmunamál. Það varðar þess vegna íslenska hagsmuni að hafa svör á reiðum höndum.
    Virðulegi forseti. Í þessum umræðum hefur nokkuð verið spurt í framhaldi af þessu sjóðsmáli um það, ef brottfall Sviss leiddi til endurskoðunar á fjárhæðum einstakra landa, hvaða kostnaðarauka það hefði í för með sér fyrir Ísland. Ég vil fyrst taka fram að á sl. vori tókst okkur að semja um breytt hlutfall á framlagi Íslands. Það gerðist á ráðherrafundi í Reykjavík sl. vor en þá var almennt hlutfall Íslands í kostnaði við rekstur EFTA lækkað úr 1,7% í 1,2% og enn fremur ákveðið að Ísland skyldi aðeins bera 0,7% af kostnaði við einstök verkefni. Kostnaðurinn við rekstur EFTA snýst um EFTA-skrifstofuna, eftirlitsstofnun, EFTA-dómstól og framlög í þróunarsjóð. Að því er varðar EFTA-skrifstofuna var heildarkostnaður fyrir árið 1993 áætlaður 53 millj. svissneskra franka en framlag Íslands hefði þá verið um 30 millj. íslenskra króna. Í lokagerð fjárhagsáætlunar EFTA er hins vegar heildarkostnaðurinn lækkaður verulega og framlag Íslands lækkað niður í 22 millj. kr. Þessi lækkun gefur svigrúm innan ramma fjárlagafrv. til þess að mæta kostnaðarauka, ef af verður, vegna fráhvarfs Sviss því hækkun framlags til eftirlitsstofnunar og dómstóls er álíka há fjárhæð og lækkun áætlaðs framlags EFTA.
    Um eftirlitsstofnunina er það að segja að kostnaðarhlutfall Íslands mundi hækka nokkuð. Þar á móti kæmi að umsvif eftirlitsstofnunarinnar mundi minnka allverulega við fráhvarf Sviss. Það er vitað mál bæði vegna samkeppnislöggjafar í Sviss og eins þeirrar staðreyndar að þar er mestur fjöldi fjölþjóðlegra auðhringja með bækistöðvar að þar hefði mest reynt á eftirlitsstofnunina samkvæmt samkeppnisreglum. Verksvið eftirlitsstofnunarinnar dregst þess vegna saman við fráhvarf Sviss. Einnig má búast við því að hún verði

ódýrari í rekstri við það að hún er ekki lengur tvískipt heldur flyst alfarið til Brussel. Eftirlitskostnaðurinn var áætlaður að því er varðar framlag Íslands 15 millj. íslenskra króna.
    Að því er varðar EFTA-dómstólinn þá mundi framlagið einnig hækka. Það mundi hækka úr 5 millj. í um 7 millj. kr. ef Svissaðgöngumiðinn yrði að greiðast í okkar hlutfalli.
    Að því er varðar þróunarsjóðinn er rétt að taka fram að hann var vissulega partur af aðgöngumiðanum að Evrópska efnahagssvæðinu fyrir hönd EFTA-ríkjanna. Samkomulag er um að greiða í fimm ár framlög í slíkan sjóð til hinna fátækari ríkja EB. Fjár til sjóðsins er aflað á almennum lánamarkaði en framlag EFTA-ríkjanna felst í því að niðurgreiða vexti af lánum og veita styrki. Áætlað heildarframlag EFTA var áætlað 125 millj. ECU á ári en þar af var Íslandi ætlað að greiða 0,7% eða 68 millj. íslenskra króna. Þetta framlag gæti orðið hæst við breytinguna 95 millj. eða hækkað um 27 millj. kr.
    Heildarkostnaðaraukinn er þess vegna þannig: Hann gæti í hæsta lagi orðið 35 millj. kr. og skiptist í viðbótarframlag til eftirlitsstofnunarinnar 6 millj., viðbótarframlag í dómstól 2 millj. og hugsanlegt viðbótarframlag við þróunarsjóð 27 millj.
    Hins vegar skal skýrt tekið fram að það liggur alls ekki fyrir að þessar kröfur verði gerðar eða þetta verði samningsniðurstaða ef út í samninga verður farið. Þvert á móti eru verulegar líkur á því, ef þessum samningum er fulllokið af hálfu allra EFTA-landanna, að sjónarmið framkvæmdastjórnar verði ofan á um það að hrófla ekki við efnisatriðum samningsins.
    Virðulegi forseti. Ég vil þá víkja að nokkrum atriðum að því varðar málflutning einstakra talsmanna stjórnarandstöðunnar. Það er nú ljóst þegar hér er komið umræðum að Alþb. er eini flokkurinn sem virðist vera óskiptur í andstöðu sinni við þennan samning þótt ekki fari það fram hjá mönnum að forsendur þeirrar andstöðu eru mjög ólíkar hjá einstökum talsmönnum flokksins. Þarna hafa orðið umtalsverð skoðanaskipti frá því að Alþb. átti góðan hlut að máli við undirbúning málsins í tíð fyrri ríkisstjórnar.
    Að því er varðar forustuflokk stjórnarandstöðunnar, Framsfl., er einnig ljóst að hann gengur ekki heill til þessa skógar. Formaður flokksins ber einkum við efasemdum sínum ættuðum frá nokkrum íslenskum lögfræðingum um stjórnarskrármálið og lýsir því yfir að enginn framsóknarmaður muni greiða atkvæði með samningnum og sjálfur muni hann greiða atkvæði gegn. Varaformaður flokksins var að lýsa því yfir að hann muni sitja hjá og þeir sem hlustuðu grannt á málflutning hans heyrðu glöggt að mat hans á mikilvægi og þýðingu þessa samnings fyrir íslenskt atvinnulíf er allt annað en fram kom hjá formanni flokksins.
    Að því er varðar Kvennalistann, sem lengi vel var eini flokkurinn sem var heill og óskiptur í andstöðu við þetta mál, hefur heldur betur kvarnast úr því vegna þess að sá talsmaður flokksins sem er fulltrúi hans í utanrmn. og þekkir þetta mál best af talsmönnum flokksins hefur lýst því yfir að hún muni sitja hjá við afgreiðslu málsins.
    Þetta kemur að vísu ekkert á óvart. Þetta hafði svona nokkurn veginn legið í loftinu eða verið meira eða minna opinbert leyndarmál. Það ætti því að vera orðið ljóst að mönnum hér ætti ekki að vera orðið mikið að vanbúnaði að ganga til atkvæða um þetta mál. En áður en við gerum það vil ég víkja að nokkrum atriðum sem fram komu í máli manna.
    Hv. þm. Steingrímur Hermannsson vék að og gerði mikið veður úr skýrslu sem hefur verið eftirlætislesning þeirra framsóknarmanna og kennd er Van der Pas, deildarstjóra í framkvæmdastjórn EB. Sá ágæti maður gaf Evrópuþinginu skýrslu um samningaviðræðurnar við EFTA á sínum tíma. Honum var fullkunnugt um það að í Evrópuþinginu hafði verið beint mikilli gagnrýni að þessum samningum á þeirri forsendu að framkvæmdastjórnin hefði samið af sér því EFTA-ríkin mundu hafa bein áhrif á ákvarðanatöku á Evrópska efnahagssvæðinu án þess að þurfa að axla kvaðir og skyldur aðildarríkja. Í ljósi þess reyndi þessi ágæti maður að gera sem minnst úr áhrifum EFTA-ríkjanna einmitt til þess að reyna að vega upp þessa gagnrýni.
    Vissulega er það rétt að EFTA-ríkin lögðu upp í þessar samningaviðræður með kröfur um fullkomna jafnstöðu við EB-ríkin í undirbúningsferli ákvarðana en vildu jafnframt hafa rétt til þess að hafna löggjöf þótt hún yrði samþykkt en þann rétt hafa Evrópubandalagsaðildarríkin ekki. Þessar ýtrustu kröfur náðu ekki fram að ganga í samningunum og lá ljóst fyrir í tíð fyrri ríkisstjórnar sem kunnugt er. Við höldum rétti til að hafna löggjöf en fylgjumst ekki með öllu ferlinu á sama hátt og aðildarríkin. Sú málamiðlun sem náðist fram eykur þó mjög verulega áhrif okkar á viðskiptalöggjöf innan Evrópu frá því sem nú er og eykur hana stórlega í tilfelli Íslands því að hún var engin fyrir. Í framhaldi af því sem ég áður sagði um vaxandi áhrif EFTA-ríkjanna, þá má það heita kátbroslegt að einn þeirra talsmanna svissnesku ríkisstjórnarinnar sem einna mest lét að sér kveða í málflutningi fyrir samningnum, fór þar á 194 fundi og þurfti að flytja mál sitt á tveimur tungumálum, sagði að hann hefði ekki mætt neinni einni gagnrýnisrödd eins oft á þessum fundum og þeirri að það væri til marks um það hversu óaðgengilegur þessi samningur væri að dvergríkið Ísland norður í ballarhafi hefði með þessum samningum öðlast neitunarvald um meiri háttar atriði löggjafar sem varðaði Evrópska efnahagssvæðið og þar með málefni Sviss. Menn klappa því þennan steininn nokkuð hver eftir sínum behag og smag, eins og það heitir.
    Á þeim sviðum þar sem tæknikunnátta og hagsmunir okkar eru miklir, t.d. á sjávarútvegssviðinu, gerir þessi aðstaða okkur kleift að hafa mótandi áhrif á þann ramma sem settur verður og settur er viðskiptum með sjávarafurðir á Evrópska efnahagssvæðinu. Reyndar kemur það allt of sjaldan fram í þessum umræðum en er kannski eitt allra mikilvægasta atriðið að því er varðar sjavarútvegsmálin að hafa með þessu tryggt það að heilbrigðisvottorð og gæðavottun íslenskra stofnana skuli sjálfkrafa viðurkennd með þessum samningum. Ég býð ekki í samkeppnisstöðu okkar á þeim markaði sem tekur við 3 / 4 af afurðum okkar ef hvert fiskvinnsluhús á Íslandi hefði átt að eiga það undir stimplun og uppáskrift sérfræðinga í Brussel hvort viðkomandi hús væri viðurkennt til útflutnings á þann markað.
    Reyndur samningamaður og góðgjarn stjórnmálamaður eins og Steingrímur Hermannsson veit að sjálfsögðu af reynslu sinni að í upphafi eru stundum settar fram kröfur sem ekki er líklegt að nái allar fram að ganga en samt skynsamlegt að setja þær fram til þess að tryggja betur þá málamiðlun sem menn vænta. Þetta veit hann að átti sér stað þegar við settum fram kröfuna um fríverslun um fisk, sem við gerðum innan EFTA með góðum árangri, sem við settum að sjálfsögðu fram í upphafi samningaviðræðnanna þótt okkur væri öllum ljóst að ólíklegt væri að við næðum þeirri kröfu fram. Engu að síður var sjálfsagt að setja hana fram og kom engum okkar á óvart þegar henni var hafnað snemma á árinu 1990 í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og enginn ágreiningur um að næsta krafa, sem var okkar eiginlega krafa, skyldi vera tollfrjáls markaðsaðgangur sem reyndar síðan náðist 96%. Reyndur samningamaður, eins og Steingrímur Hermannsson, veit að í alþjóðlegum samningaviðræðum dugar ekki að skrifa samning við hné sér eins og t.d. hv. þm. formaður Alþb. lék sér að í sumar að búa til tvíhliða samning á hné sér sem hann ætlaði að gera milli Alþb. og Evrópubandalagins að mér skildist.
    Árangurinn liggur nú fyrir og í fyllsta máta eðlilegt að menn hafi skiptar skoðanir eða mat á árangrinum. Ég legg mest upp úr því að þeir sem ekki hafa pólitískra sjónarmiða að gæta en meta þetta út frá heildarsýn yfir samninginn, slíkum mönnum ber saman um það að samningsárangur Íslands hafi verið býsna góður. Sérstaklega heyrum við þær raddir og þær stundum býsna háværar hjá félögum okkar Norðmönnum sem þykir sem hlutur Íslands á sjávarútvegssviðinu hafi verið ólíkt betri.
    Hv. 7. þm. Reykn. spurði enn fremur hvaða samráð hefði verið haft við EFTA-ríkin um þær gerðir sem samþykktar hafa verið innan EB eftir 1. ágúst 1991 og búist er við að bætist við samninginn. Nú er það svo að hv. 7. þm. Reykn. er það að sjálfsögðu kunnugt, sem meðlimur í utanrmn. og maður sem fylgdist gerla með þessum samningi og samningsframvindunni fyrstu tvö árin og rúmlega það, að ákvæði EES-samningsins um samráð og samstarf ganga ekki í gildi fyrr en samningurinn gengur í gildi sem er ein af ástæðunum fyrir því að nauðsynlegt er að hraða en draga ekki staðfestingu samningsins. Aðdragandi og undirbúningur gerða sem þessarar innan EB er oft tvö ár eða jafnvel lengri tími. Án EES-samningsins höfum við engan aðgang að því ferli en þurfum samt þegar upp er staðið að laga okkur að þeim niðurstöðum sem þar fást. Þetta er þess vegna enn eitt dæmið þótt í litlu sé um það að okkur er nauðsyn á því að hraða gildistökunni.
    Hv. 7. þm. Reykn. gerði því skóna að Ísland hefði ánetjast sameiginlegri tollastefnu EB við framkvæmd tollalaga, þ.e. þegar fjáröflunartollar gagnvart Evrópubandalaginu voru afnumdir en vörugjöld sett í staðinn. Ég trúi því satt að segja ekki að hv. þm. viti ekki betur. Þá voru fjáröflunartollar lækkaðir gagnvart öllum öðrum ríkjum sem við höfum ekki samið við um fríverslun en þeir voru af ásettu ráði ekki afnumdir með öllu. Við höfum lýst því yfir að við höfum fullan hug á að semja um fríverslun við Bandaríkin, Kanada, Japan og fjölmörg önnur ríki. Við erum með kröfur uppi á borðinu í GATT-samningunum um hið sama en þar er kjarni málsins sá að til að ná því fram viljum við fá gagnkvæmni í tollalækkunum. Við verðum þess vegna að hafa eitthvað upp í erminni til að semja um. Þessir tollar, svo lágir sem þeir eru, boða enga tollmúra og breyta auðvitað engu um þá grundvallarstaðreynd að við erum ekki í tollabandalagi við EB. Við erum alfrjálsir að því að gera samninga, fríverslunarsamninga við hvaða ríki og hvaða markaðssvæði sem við kjósum og við höfum verið að því í stórum stíl. Við höfum verið að ganga frá fríverslunarsamningum við Tyrkland, Tékkneska og slóvakíska sambandslýðveldið, Ísrael, Pólland, Færeyjar og Rúmeníu. Ungverjaland, Albanía, Búlgaría og Eystrasaltsríki eru að koma í kjölfarið. Það sem er mikilvægt fyrir okkur í þessum samningum er að í öllum þessum samningum, sem hingað til hafa verið gerðir, hefur grundvallarreglan um fríverslun með fisk, verið staðfest þannig að við erum smám saman að brjóta niður þá múra í framhaldi af því að hafa fengið það fram innan EFTA-svæðisins sjálfs. Það er ástæða til þess að minna á að innan GATT hefur auðlindapólitík Evrópubandalagsins, þ.e. krafan um aðgang að auðlindum fyrir niðurfellingu tolla aldrei fengist staðfest þannig að þegar við lítum til heimsviðskipta þá er það mikill meiri hluti þjóða heims og þeirra á meðal mörg öflugustu ríki heims sem eru í andstöðu við þessa vanhugsuðu og ranglátu auðlindapólitík Evrópubandalagsins.
    Hv. þm. skemmti sér nokkuð við að taka dæmi af amerískum bílum og ljósabúnaði og fjallaði þá um fjölda gerða sem væru væntanlegar að yfirgnæfandi meiri hluta til tæknilegs eðlis og ekki líklegar til þess að raska ró nokkurs þingmanns. Sú tilskipun sem helst virtist valda honum áhyggjum varðaði ljósabúnað ökutækja. Hún setur Íslendingum þær skyldur á herðar í sambandi við bifreiðaframleiðslu Íslendinga --- sem er víst ekki mjög mikil eða hvað? --- að bílakostur framleiddur á Íslandi skuli vera með útbúnaði með tilteknu móti til þess að standast upprunareglurnar og aðgang að Evrópumarkaðnum. ( ÓÞÞ: Stendur til útflutningur á bílum?) Ja, það er nefnilega það, hv. þm. Það væri kannski rétt að hv. þm. Steingrímur Hermannsson svaraði því. En reglurnar eru um framleiðslu á bílum og ökutækjum, garðsláttuvélum og öðru slíku dóti. (Gripið fram í.) Það er hins vegar rangt, virðulegi þingmaður, sem haldið var fram að ekki væri hægt að flytja inn bandarískar bifreiðar hingað sem fullnægðu ekki þessum stöðlum. Það er misskilningur. Auðvitað er þetta lítilvægt mál og gamanmál, ég tek undir það með hv. þm., en þetta var nú samt sem áður eitt af þeim málum sem fyrrv. forsrh., formaður Framsfl., leiðtogi stjórnarandstöðunnar og 7. þm. Reykn., gerði að verulegu máli í málflutningi sínum og ætlaðist til þess að almenningur, sem er kannski hugsanlega að einhverju leyti að hlusta á þessa umræðu, taki mark á en auðvitað vissi hann betur.
    Svo er það báknið í Brussel sem virðist vera honum mikið áhyggjuefni. Hv. þm. vitnaði með mikilli velþóknun í ummæli sem með réttu eru höfð eftir mér þegar ég hef gagnrýnt það bákn sem þríhöfða þurs og vísa til samningareynslu okkar. Ég veit að þetta fór líka fyrir brjóstið á hv. varaformanni Framsfl. á sínum tíma. Þeir eru a.m.k. sammála um það þó að við séum ekki sammála um EES-samninginn.
    Nú stend ég vissulega við þau orð sem ég hef viðhaft, gagnrýnina á Evrópubandalagið, en þau voru einmitt út frá samningsreynslunni þessi: Það er erfitt að semja við aðila þar sem samningsaðilinn með samningsumboðið, framkvæmdastjórnin, reynist ekki hafa

vald á hlutunum vegna þess að aðildarríki og einstakar stofnanir í bandalaginu eru alltaf að blanda sér í samningana. Þannig gerðist það hvað eftir annað að búið var að ná hagstæðum niðurstöðum í samningum við framkvæmdastjórnina en þá komu til sérhagsmunir einstakra landa, sérhagsmunir einstakra atvinnuvega eða einstakir stofnanahagsmunir hvort heldur það var í Evrópuþinginu eða Evrópudómstólnum og torvelduðu samningana. Ég er með öðrum orðum að gagnrýna að þetta mikla bákn líður fyrir skort á miðstýringu, líður fyrir skort á skipulagi. Sennilega er það rétt sem Andriessen, utanrrh. bandalagsins, hefur sagt að það hafi varla nægum mannafla á að skipa til að sinna öllum þeim viðamiklu verkefnum sem bandalagið fæst við og lenda því mörg í útideyfu og fara jafnvel forgörðum. Sem dæmi má nefna að sérfræðingar í fullu starfi í aðalstöðvum bandalagsins voru, þegar ég seinast vissi, 3.600 talsins en sérfræðingar á sambærilegum grundvelli í franska menntamálaráðuneytinu 11.000 og í breska innanríkisráðuneytinu 10.000. Það er nefnilega svo, þó að þetta varði okkur ekki hinu minnsta máli en er engu að síður notað, að það er ekki alls kostar rétt þegar menn eru að tala um þetta mikla bákn í samanburði við völd þjóðríkja. Og hafa menn nokkuð hugleitt það núna í ljósi atburða sem gerst hafa í Evrópu undanfarna daga, hvenær halda hv. þm. að litla konungsríkið Danmörk hafi verið jafnáhrifamikið um þróun mála í Evrópu og þeir reyndust vera með því að fá fram kröfum sínum sem aðildarríki að Evrópubandalaginu á Edinborgarfundinum? Hvenær í sögu sinni, hv. þm. Ólafur Þórðarson, --- ég bið hann nú að rifja upp annála sína og skólabækur frá Jónasi frá Hriflu, hvenær í sögu sinni halda menn að Danmörk hafi haft slík áhrif? ( ÓÞÞ: Þegar Heiðaborg var hluti af Danaveldi.) Nei, aldrei hv. þm., aldrei. ( Gripið fram í: Um síðustu aldamót.)
    Virðulegi forseti. Í umræðum um fullveldi og stjórnarskrá hér á þessu hinu háa Alþingi hafa menn látið sem svo að EES-samningurinn feli í sér framsal fullveldis í stórum stíl, það er þá framsal á löggjafarvaldi, dómsvaldi og framkvæmdarvaldi og allt hvað eina. Nú geta menn haft hvaða skoðun sem þeim sýnist á þessu og menn geta teflt fram lögfræðilegum álitsgerðum og komist að þverólíkum niðurstöðum. En það er helst á þessum sömu mönnum að heyra að við höfum algerlega framselt allt okkar fullveldi í hendurnar á Sviss. Ef það fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla í Sviss sem þýðir það að Sviss heltist úr lestinni þá á af sjálfu að leiða að Sviss sé þar með búið að taka ákvörðun fyrir Ísland. Þetta virðist nú ekki alveg vera í fullu samræmi. En sannleikurinn er sá að allt þetta tal um fullveldi, jafnvel innan Evrópubandalagsins --- þar sem enginn neitar að Evrópubandalagið byggir á framsali á hluta af valdi þjóðríkja, bæði löggjafarvaldi og framkvæmdarvaldi og dómsvaldi til samþjóðlegra stofnana --- er þá ljóst að einstök aðildarríki hafa eftir svo mikið fullveldi að þau beygja miðstjórnina, framkvæmdastjórnina hvað eftir annað í samningum. Þar nægir að nefna dæmið af Danmörku, þar nægir að nefna dæmið af Spáni sem neytti svo samningsstöðu sinnar á Evrópuleiðtogafundinum til þess að knýja fram digur framlög í þróunarsjóði sína og miðstjórnarvaldið varð einfaldlega að láta undan síga.
    Við skulum hafa það í huga þegar við ræðum þessa hluti og að gefnu tilefni, og þá vísa ég til þess sem bæði hv. þm. Steingrímur Hermannsson og hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sögðu um GATT og ekki síður hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson sem talaði nú mjög fjálglega um GATT, taldi það vera gott GATT, að það er framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins með samningsumboðið í GATT sem er að reyna að leysa málið, reyna að höggva á þann hnút, reyna að beygja þá ýtrustu sérhagsmuni einstakra þjóðþinga sem eru að reyna að sprengja þetta samkomulag í loft upp og hafa af heimshagkerfinu, í þeirri lægð sem það er, samkomulag sem gefur von um u.þ.b. 200 milljarða Bandaríkjadollara í aukinn hagvöxt á ári. Það er með öðrum orðum ekki báknið í Brussel sem er að reyna að eyðileggja þetta. Það eru þrengstu sérhagsmunir þess hluta Evrópubandalagsins í þjóðríkjunum sem tilheyrir hinni liðnu tíð, verndarstefnunni sem ríkir í Evrópubandalaginu í landbúnaði og sjávarútvegi sem við erum ekki að tengjast vegna þess að þetta tvennt, verndarstefnan í landbúnaði, verndarstefnan í sjávarútvegi, ,,próteksjónisminn``, er það sem við erum að hafna, þetta er það sem við ekki viljum. Við erum hins vegar að tengjast því sem er framsækið og horfir til framfara sem er hinn frjálslyndi þáttur þeirrar stefnu sem Evrópubandalagið hefur verið að reyna að móta og hefur verið að beygja sérhagsmuni einstakra aðildarríkja í hverju máli á fætur öðru. Þetta nægir til þess að sýna að sú líking sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson tók þegar hann spurði hvort báknið í Brussel væri ekki farið að nálgast það að líkjast Kremlarkerfinu, með allri virðingu. Hv. þm. veit nú talsvert betur en það. Slík líking er alveg augljóslega, hverjum þeim sem um málið hugsar, gersamlega fráleit.
    Þá kemst ég ekki hjá því að leiðrétta einn hlut en hann var þessi: Hv. þm. virtist standa í þeirri trú að Ísland mundi sitja uppi með greiðsluskuldbindingar í þróunarsjóð til Evrópubandalagsríkjanna og þurfa að halda uppi öllum stóru stofnunum, dómstóli og eftirlitsstofnun, ef og þegar önnur EFTA-ríki eru gengin í Evrópubandalagið. Þetta er auðvitað alger grundvallarmisskilningur. Það er tryggilega um hnútana búið þannig að ef ríki yfirgefur EFTA til þess að ganga í EB, þá minnkar þróunarsjóðurinn sem því svarar, enda tekur viðkomandi ríki þá á sig mun umfangsmeiri skuldbindingar innan EB. Þau EFTA-ríki, sem nú eru að reyna að semja sig inn í EB, munu, ef þeim tekst það, taka á sig a.m.k. þrefaldar, og sennilega eftir Edinborgarfundinn miklu meira en þrefaldar fjárhagsskuldbindingar í jöfnunarsjóði bandalagsins. Stofnanir EFTA minnka með öðrum orðum, bæði að starfsemi og fjárhagsskuldbindingum eftir því sem aðildarríkjum fækkar, samanber það að nú þegar er verið að fækka starfsmönnum eftirlitsstofnunar eftir að ljóst varð að Sviss er ekki með.
    Ég hygg að hv. 7. þm. Reykn. og fyrrv. forsrh. hafi komist býsna nærri kjarna málsins að því er varðar það hvað stýrir afstöðu hans í þessu máli þegar hann sagði að allt væri í góðu lagi með þennan samning aðeins ef önnur ríkisstjórn sæti nú að völdum og þá væntanlega undir forustu hans sjálfs. Ég er þeirrar sannfæringar að fenginni reynslu að þá væri afstaða hans líka öll önnur.
    Eitt atriði enn. Hv. þm. nefndi niðurgreiðslur í skipasmíðaiðnaði og ríkisstyrki í skipasmíðaiðnaði sem dæmi um hve þessi samningur væri vondur. Staðreyndin er sú að því er það mál varðar breytir EES-samningurinn engu. Ríkin í Evrópubandalaginu greiða niður skipasmíðaiðnað sinn. EFTA-ríkin gerðu það líka og ein meginástæðan fyrir því að EFTA-ríkjunum tókst auðvitað ekki að brjóta það mál upp var að það var auðvelt fyrir Evrópubandalagið að segja: Einstök EFTA-ríki hafa meiri niðurgreiðslur í sumum tilvikum en Evrópubandalagið. Samt sem áður var því lýst yfir að þessar niðurgreiðslur yrðu að hverfa, þessum ríkisstyrkjum yrði að hætta og það er samkomulag um það að samráð skuli um þetta eftir einhvern tiltekinn tíma þegar núverandi tilskipun Evrópubandalagsins er úr gildi. Og sá kommissar Evrópubandalagsins, sem um fjallar um ríkisstyrki og samkeppnisreglur, Leon Brittan, hefur lýst yfir að það sé eitt meginmarkmið sitt ( PP: Eru kommissarar þarna?) Þeir hafa það alveg eins og Framsókn forðum í Framkvæmdastofnun.
    Hv. 7. þm. Reykn. sagðist sakna þess að EFTAreglur hafi ekki verið lagðar til grundvallar í samningaviðræðunum, en ég vil leyfa mér að benda á að það eru ekki til neinar samræmdar EFTA-reglur. Það er ekkert til sem heitir samræmdar EFTA-reglur. Það hefur engin samræming reglna átt sér stað innan EFTA. Einstök EFTA-ríki hins vegar hömpuðu því að lög þeirra og reglur, t.d. varðandi umhverfismál og neytendamál væru á hærri stöðlum eða gerðu strangari kröfur en EB. En í samningaviðræðunum kom í ljós að það hafi verið gert of mikið úr þessu í mörgum tilvikum. Í sumum tilvikum á félagsmálaviðinu reyndust staðlar og reglur Evrópubandalagsins mun hærri en ýmissa EFTA-ríkja en alla vega að því er varðar neytendamál og umhverfismál, þá lá það fyrir að Evrópubandalagið hefur þegar mótað reglur sem eru að öðlast gildi sem eru a.m.k. jafnharðar og EFTA-ríkin hafa.
    Virðulegi forseti. Sumir hv. stjórnarandstæðingar eyddu meginmáli í sínum ræðum til að ræða um stjórnarskrármál og þjóðaratkvæði. Ég tek það fram að ég sé enga ástæðu til að ræða þau mál frekar og ástæðan er mjög einföld. Það hafa farið fram mjög ítarlegar umræður um þau mál, bæði í viðkomandi nefndum og hér á hinu háa Alþingi að gefnum tilefnum, flutningi tillagna um breytingu á stjórnarskrá og flutningi tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu. Alþingi hefur afgreitt þessi mál og það er þess vegna óþarfi að tefja þau

lengur. Því næst bæti ég því við að allar upplýsingar um þetta mál, þ.e. allar sérfræðilegar greinargerðir liggja fyrir og sjónarmið af hálfu ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðu liggja fyrir. Engu hefur verið bætt við, ekki einu einasta smáatriði hefur verið bætt við í þeim umræðum sem hér hafa farið fram um þau mál. Þau eru afgreidd af hálfu Alþingis og þess vegna ekki mikið meira um það að segja að svo stöddu.
    Virðulegi forseti. Ég viðurkenni að ég hef stundum í aðra röndina lúmskt gaman af að heyra hv. 8. þm. Reykn., formann Alþb. og fyrrum prófessor í stjórnmálafræði, leika listir sínar þegar honum er mikið í mun að reikna sig til pólitískt réttrar niðurstöðu þvert á sannfæringu sína. Þetta eru stundum miklar kúnstir í pólitískri algebru og enginn hefur lýst því, virðulegi forseti, betur en fyrrum nánasti ráðgjafi hans og aðstoðarmaður í fjmrn., íslenskufræðingur góður og málsnjall maður, Mörður Árnason, sem skrifaði um þessa tilraun um pólitískra algebru litla perlu þegar formaðurinn var að leita að lausn sem gæti orðið eins konar amen og hallelúja til þess að halda saman hans sundraða flokki sem auðvitað var á tvist og bast í þessu máli. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Þegar leiðtogar og þingmenn Alþb. fóru að búa sér til stefnu í Evrópumálum varð þeim fljótt ljóst að flokkslínan um EES varð að þræða fjóra punkta. Í fyrsta lagi þurfti hún að vera þannig að þeir gætu allir greitt atkvæði eins á þinginu í haust. Hún mátti ekki raska að ráði viðkvæmu valdajafnvægi innan flokksins.`` Þar er átt við formanninn og fyrrum formann og hinn nýja þingflokksformann o.fl.
    ,,Í öðru lagi þurfti hún að vera þannig að tilkostnaður yrði sem minnstur í stuðning á meðal kjósenda`` --- þar á meðal þeirra sem eru á jaðrinum við hinn Framsfl.
    ,,Í þriðja lagi þurfti hún að vera þannig að flokkurinn yrði ekki hleginn strax út úr alvörupólitík og þar með frá stjórnarþátttöku hvort heldur væri á þessu kjörtímabili eða næsta.`` Þetta er nú einn vandasamasti punkturinn, hv. þm.
    ,,Í fjórða lagi. Síðast en ekki síst þurfti lína flokksins að stangast greinilega á við stefnu ríkisstjórnarinnar í málinu, einkum stefnu Jóns Baldvins.`` Mikið rétt. Þetta hlaut að verða flókin formúla en sem betur fer nýtur flokkurinn góðrar fagmenntunar og verkþjálfunar í forustusveit. Bæði fyrsta skilyrði og það fjórða útilokuðu það að hægt væri að samþykkja EES hvað sem líður stjórnarskrá og þjóðaratkvæði.
    Það var augljóst að þingflokkur og forusta hefðu aldrei sameinast um beint eða óbeint samþykki við sjálfan EES-samninginn. Þetta var auðvitað dálítið vandamál vegna þess að í stjórnarmyndunarviðræðum lagði formaður Alþb. sig mjög fram um það að sannfæra þann sem hér stendur að þetta yrði ekkert vandamál og auðvelt yrði fyrir hann að koma járnum á hv. 4. þm. Austurl., Hjörleif Guttormsson, í því máli og ekkert mál að mynda ríkisstjórn um þetta EES-mál og leiða það til lykta í mesta bróðerni.
    Ég hafði vissar efasemdir um það að pólitíska algebran gengi þá upp hjá hv. þm. að fenginni reynslu. Síðan segir áfram, virðulegi forseti:
    ,,Til þess var efnisleg andstaða allt of megn í forustuhópnum og hefur styrkst verulega við raunverulega eða ímyndaða kjördæmahagsmuni landsbyggðarinnar sem hefur traustan meiri hluta í þingflokknum.`` Þá fer maður nú t.d. að skilja hvernig formaður þingflokksins, hv. þm. Ragnar Arnalds, hefur vaknað til lífsins. Var ekki eitthvað verið að tala um að hér væri verið að ræða dauða samninga sem gætu lifnað. Fyrst ríkisstjórnin vill samþykkja samninginn, þá verður Alþb. auðvitað að vera á móti honum. Annað skilyrðið og það þriðja kom hins vegar í veg fyrir að flokkurinn gæti í heild sinni hafnað EES að efninu til. Þrátt fyrir allt, því miður mundi margur allaballinn segja, er höfuðborgarsvæðið uppspretta fylgis á landsmælikvarða og ekki vel gott að líta út eins og viðundur frammi fyrir neytendum og ungu fólki í Reykjavík og nágrenni. Að auki hefði þvert nei á efnisatriði EES-samningsins lokað öllum samvinnuleiðum nema til Framsóknar og hreinlífisarmsins í Kvennalistanum.
    Niðurstaða Alþb. í málinu verðskuldar sinn sess í stjórnmálaskólum framtíðarinnar og verður sjálfsagt skoðað vandlega í dæmatímum í pólitískri algebru. Hún er í stuttu máli sú að segja bæði nei og já. Nei við EES-samningnum en já við megininnihaldi hans öllu. Við eigum ekki að gera EES-samninginn með EFTA-ríkjunum. Nei, hins vegar eigum við að gera EES-samninginn einir og sér. Það er stefna Alþb. Á þennan hátt geta þingmennirnir greitt atkvæði allir saman í guðs friði og góðum félagsanda. Hver um sig hefur svo sitt leyfi til að vera á móti hvernig sem hann vill bara ef hann er á móti. Sumir eru á móti fríverslun. Aðrir telja fullveldið í hættu. Aðrir að útlendingar kaupi jarðir í sveitunum þeirra. Aðrir eru á móti Jóni Baldvini og enn aðrir telja tryggast að vera á móti því sem maður skilur ekki og það mun vera stærsti hópurinn.
    Á þennan hátt á líka að forða flokknum frá því að standa með allt niður um sig gagnvart þeim kynslóðum kjósenda sem telja að náið alþjóðasamstarf sé Íslendingum hagfelldastur kostur og eðlilegur. Um það var nefnilega samið að um stund fallist þeir sem eru á móti frjálsum viðskiptum á að flokkurinn sé með frjálsum viðskiptum bara ef þau fara fram annars staðar en á Evrópska efnhagssvæðinu. Niðurstöðunni núna fylgir líka lítið en elskulegt brot til landsbyggðararmsins í Sjálfstfl. enda í grundvellinum svipuð og stefna þess flokks í síðustu stjórnarandstöðu.
    Þá er bara eftir að skýra það fyrir þjóðinni hvers vegna flokkurinn sat í ríkisstjórn í þrjú ár meðan EES-viðræðurnar fóru fram án þess að stöðva þær viðræður en það var víst bara til þess að athuga hvort það kæmi virkilega eitthvað út úr viðræðunum. Þannig fæddist sú málamiðlun alþýðbandalagsforustunnar að fella fyrst EES-samninginn en neyða síðan Evrópubandalagið í tvíhliða viðræður um miklu betri samning. Þetta var svo tilkynnt í miðstjórn flokksins þar sem samstaðan ríkti ein öllu æðri af ánægju út að eyrum hver einasta kerling hló o.s.frv.
    ,,En aðeins eitt gleymdist og það var sjálft viðfangsefnið. EES-samningurinn eins og hann liggur fyrir með kostum og göllum. Ávinningur Íslendinga af þeim samningi, áhættan sem honum fylgir og ekki síður áhættan við það að hafna honum og samningsstaðan í framhaldinu. Það gerðist eins og oft áður í pólitískri umfjöllun á Íslandi að dæmið reiknaði sig sjálft, byssurnar skutu sjálfar, eins og áður var sagt, en málið sem átti að véla um varð út undan vegna þess að hugrekki skorti til þess að ræðast við í hreinskilni og takast á um málefni án bellibragða. Það er leiðinlegt fyrir Alþb. og færir andstæðingum þess óvænt vopn upp í verkfúsar hendur.`` Og svo kemur rúsínan í pylsuendanum: ,,En við skulum rétt einu sinni vona að Eyjólfur Konráð hressist.``
    Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja þessar umræður frekar.