Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 23:07:45 (3580)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það eru tvö atriði sem ég þarf að koma að. --- Viljið þið þegja. Ég vona að þetta ónæði verði ekki tekið af mínum tíma hæstv. forseti og klukkan verði sett á ný. --- Hæstv. utanrrh. kaus að taka til máls til svara áður en hann hafði hlýtt á fulltrúa yfirlýstrar stefnu Kvennalistans gegn aðild að EES og eftir að hafa hlýtt á þá einu sem komst að annarri niðurstöðu. Ég hef hins vegar efnislega athugasemdir við ræðu hans og þær raunar margar og kem að þeim í ræðu minni á eftir, en ég kemst ekki hjá því að geta þess vegna fyrsta efnisatriðis að hér eru aðstæður á margan hátt ólíkar því sem eru í öðrum löndum. Umræðan í Sviss var mikil. Hún fór bara fram annars staðar en hér vegna lýðræðislegrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Aðrar EFTA-þjóðir eru á leið inn í Evrópubandalagið og svo eru önnur og lýðræðislegri vinnubrögð í þjóðþingum víða annars staðar en hér. Hér höfum við því þann möguleika að ræða málið og við gerum það og það er okkar lýðræðislegi réttur. Annars staðar hafa menn möguleika á að fá samþykkta þjóðaratkvæðagreiðslu og það hefði flýtt fyrir málsmeðferð á Íslandi, svo og ef krafist væri hér aukins meiri hluta.