Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 23:09:29 (3581)

     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. utanrrh. verður tíðrætt um meðferð EES-málsins á Alþingi Íslendinga og flutti hér nokkuð langa tölu um það hvernig að máli væri staðið í öðrum löndum. En hann gleymir því alltaf í ræðum sínum og hneykslan sinni að það ríkja aðrar hefðir í íslenska þinginu en í öðrum þjóðþingum. Ég átti þess kost fyrir skömmu að ræða við formann utanríkismálanefndar norska þingsins og þá kom fram að þeirra reglur eru einfaldlega allt öðruvísi en þær sem við búum við. Hæstv. utanrrh., sem ég veit að leiðist á þinginu þó að hann segist annars staðar elska pólitík, verður nú að gera svo vel og sætta sig við þær vinnureglur og þau þingsköp sem hér ríkja.
    En það hefði mátt spara mikinn tíma ef við hefðum fengið betur undirbúin frumvörp frá hæstv. ríkisstjórn. Þá hefði verkið kannski gengið hraðar en raun ber vitni.