Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Þriðjudaginn 15. desember 1992, kl. 23:10:57 (3583)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mál mitt er í eilítið líkum farvegi og síðasta ræðumanns. Ég vil benda hæstv. utanrrh. á að hv. efh.- og viðskn. hefur unnið við það í allt haust og vetur að búa mál ríkisstjórnarinnar sem tengjast EES í það horf að nokkur möguleiki sé að samþykkja þau. Ég vil benda hæstv. ráðherra á að það hafa komið frumvörp sem við höfum þurft að senda í tvígang aftur upp í ráðuneyti til þess að fara fram á að þau séu unnin algerlega upp á nýtt. Nú er ég ekki að sakast við starfsfólk ráðuneytisins sem hefur einfaldlega ekki komist yfir það sem þurfti að gera. Ég bendi hæstv. ráðherra á það að efh.- og viðskn. beið í allt sumar eftir því að geta unnið eftir samkomulagi stjórnarflokkanna um framkvæmd málsins en málin komu ekki frá hæstv. ríkisstjórn.
    Ég vil að lokum spyrja hæstv. utanrrh. um álit hans á störfum nefnda þingsins að framgangi þessa máls. Ég vænti þess að hann komi upp og svari því hér og nú.