Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 00:20:02 (3600)

     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Herra forseti. Hæstv. utanrrh. hefur greinilega ekki hlýtt nægilega vel á ræðu mína. Ég tók einmitt sérstaklega til varðandi einhliða veiðiheimildir. Það er akkúrat það sem gert er í þessum samningi. Það eru einhliða veiðiheimildir. Það er auðvitað bara hrein blekking að vera að tala um gagnkvæmar veiðiheimildir og það tók ég fyrir í ræðu minni.
    Varðandi kaup á landi liggur fyrir Alþingi frv., eins og ég minntist á áðan, sem er allsendis óviðunandi því að það skerðir rétt Íslendinga á þann hátt að það er nánast útilokað að samþykkja það frv. eins og það liggur fyrir.
    Varðandi ótakmarkað innstreymi á erlendu vinnuafli --- ég gerði það reyndar ekki að umtalsefni en ráðherra taldi að þar væru fyrirvarar vegna öryggisákvæða. Auðvitað eru það ákvæði sem ekki er hægt að grípa til nema í algerum neyðartilvikum og ákaflega haldlítil ákvæði þó ég hafi raunar ekki trú á því að hingað muni streyma ótakmarkað af fólki og tel svo sem ekki neinar líkur á að það sé aðalvandamálið sem í þessum samningi felst.