Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 00:23:23 (3603)

     Eggert Haukdal :
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki farið dult með það að í grundvallaratriðum er ég andvígur EES-aðild enda þótt sjálfsagt sé að treysta viðskipti okkar við EB-löndin með tvíhliða samningi, þó þannig að við höldum fullu sjálfstæði okkar og sjálfsákvörðunarrétti. Ástæður fyrir þessari afstöðu minni eru margar. Á sl. tæplega 50 árum hefur íslenska þjóðin unnið tvo stærstu sigrana í sögu sinni. Hún öðlaðist fullt sjálfstæði 1944 eftir aldalanga baráttu við Dani og hún hlaut óskoruð yfirráð yfir 200 mílna landhelgi 1975 eftir mikil átök í aldarfjórðung, ekki síst við Breta. Með EES-aðild fórnum við hvoru tveggja að nokkru, sjálfstæðinu og landhelginni.
    Önnur ástæða fyrir afstöðu minni er sú að við eigum ekki að öllu leyti heima í ríkjasambandi EB sem byggt er á svokölluðum Rómarsáttmála. Fyrsta af sjö skilyrðum fyrir þeirri aðild er á þá lund að ríkin tilheyri Evrópu landfræðilega. Það gildir naumast um Ísland sem er miðja vegu milli Evrópu og Ameríku.
    Annað skilyrðanna er að iðnaður sé á háu stigi. Hann er hins vegar lítt þróaður hérlendis.
    Í þriðja lagi ræður það afstöðu minni að ríkjasambandið stefnir gegn frjálsri verslun í heiminum. Meginhugsun eftirstríðsáranna var einmitt sú að fjarlægja í þágu friðar hvers konar hömlur og tollmúra þjóða á milli. Aðferðin sem þessi Evrópuríki beita er ekki heldur að öllu leyti viðkunnanleg. Hún ber keim af viðskiptastríði þar sem efnahagsþvingunum er beitt. Boðskapurinn er á þessa leið: Veitið okkur aðgang að og afnot af auðlindum ykkar ella setjum við refsitolla á afurðir ykkar.
    Á fyrstu árum svonefndrar viðreisnarstjórnar kom mjög til álita að við sæktum um beina EB-aðild. Þáv. viðskrh., Gylfi Þ. Gíslason, var því eindregið fylgjandi. Engan þarf að undra það því að kratar eru almennt bæði hér heima og ytra haldnir eins konar alþjóðahyggju. Þannig beitti Alþfl. sér gegn fullum sambandsslitum við Dani og stofnun lýðveldis 1944. Aðrir menn réðu þó ferðinni bæði það ár og árin 1961--1963 þegar EB-aðildin var til umræðu. Dr. Bjarni Benediktsson forsrh. benti á það í útvarpsræðu 1. des. 1961 að forsendur væru aðrar í efnahagsmálum en varnarmálum. Lega lands okkar væri slík að máli skipti fyrir nágranna okkar í heimsátökum en framleiðsla okkar hins vegar svo smá að einu gilti fyrir þá. Væri því eðlilegt, eins og ráðherrann komst að orði, að við hikuðum við að láta þeim í té úrslitaráð yfir nokkrum þáttum efnahagsins. Þetta er kjarni málsins.
    Ákveðin lausn þessara mála var síðan fundin með fríverslunarsamningnum við EFTA og síðar með bókun 6 við EB. Hvorugur þessara samninga fól í sér nokkra heimild útlendinga til að veiða innan lögsögu okkar. Í EES-samningnum er gert ráð fyrir að takmarka möguleika erlendra aðila til fjárfestinga í sjávarútvegi og til jarðakaupa. Valt er að treysta því að slíkar undanþágur haldi til lengdar. Gert er ráð fyrir frelsi til þjónustustarfsemi og til fjármagnsflutninga. Enn fremur til frjálsra fólksflutninga milli landa og atvinnuréttindi útlendinga. Leyfð er í samningnum fiskveiði EB-ríkja innan landhelginnar. Við vitum hvað það þýðir ef litið er til reynslunnar við Nýfundnaland og Írland. Enn fremur verða erlendar stofnanir til eftirlits og dómsúrskurðar.
    Augljóst má vera af öllu þessu að gjörbyltingar eru fyrirsjáanlegar í lífsháttum þjóðarinnar sem orðið gætu örlagaríkar og ákvörðunarvald er í verulegum mæli flutt úr landi. Ég legg áherslu á að þessar breytingar verða svo örlagaríkar að full ástæða er til að fara hér fram með fullri gát, horfa ekki aðeins á peningalegan hagnað augnabliksins heldur og ekki síður að gaumgæfa örlög íslensku þjóðarinnar í framtíðinni, örlög íslenskrar tungu og annarra menningarverðmæta. Inni í ölduróti þeirra þjóðasamninga sem hér er unnið að er öryggi smáþjóðar á þessu sviði engan veginn tryggt til framtíðar.
    Skoðanir bæði lærðra og leikra eru skiptar um það hvort þessi samningur sé eða sé ekki brot á stjórnarskránni ef hann nær fram að ganga á Alþingi. Það mál er óleyst enn og meðan svo er má telja ógerlegt að samþykkja hann.
    Sumir telja óþingræðislegt að láta þjóðina kjósa um samninginn. Það er hins vegar lýðræðislegt og það skiptir meira máli. Þingið starfar í umboði kjósenda. En verst af öllu varðandi EES-aðild er þó að við vitum ekki hvert við erum að fara. Svonefnt Maastricht-samkomulag kveður á um mjög nána samvinnu ríkjanna, nánast einingu þeirra. Danir hafa hafnað því og Sviss hefur hafnað EES. Enginn veit á þessu augnabliki hvert stefnt er.
    Að öllu þessu athuguðu er lítt eftirsóknarvert að tengjast þessu ríkjasambandi markaðslögmálanna þar sem óstöðugleiki og geigvænlegt atvinnuleysi ríkir. Ef við vinnum bug á atvinnuleysinu mun fólk úr þessum löndum flykkjast hingað tugþúsundum saman og setja allt úr skorðum. Þjóðaratkvæðagreiðslur sem fram hafa farið í Danmörku og Sviss benda til þess að fólkið í þessum löndum vilji ekki EB og EES. Aðild er hins vegar kappsmál stjórnmálamanna sem e.t.v. sjá hylla undir tyllistöðu hjá hinu tröllaukna ríkjasambandi í Brussel og vilja semja jafnvel í andstöðu við þjóð sína og þjóðarvilja.
    Í öllum flokkum hér á landi skortir einingu í málinu. Framsókn hefur verið tvístígandi og tvíklofin í þessu máli sem öðrum og sinnaskipti hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur eru dularfull.
    Virðulegur forseti. Niðurstaða mín er þessi: Höfnum aðild en freistum tvíhliða samnings með fullu sjálfstæði okkar í orði og á borði.
    Sjálfstfl. var stofnaður með samruna íhaldsmanna og frjálslyndra 1929 til þess að framfylgja sjálfstæðisbaráttunni við Dani til lokasigurs. Hann á enn að standa vörð um sjálfstæðið svo að hann kafni ekki undir nafni. Að ríkisstjórninni standa ungir menn sem ekki voru þátttakendur í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og landhelgisdeilu. Þeir og við öll Íslendingar höfum fengið sjálfstæði landsins og 200 mílna lögsögu í arf.
    Virðulegi forseti. Því fylgir mikil ábyrgð að gæta þess fjöreggs.