Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 00:37:11 (3608)

     Svavar Gestsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það var upplýst fyrr í kvöld að umræður um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði hafa til þessa staðið talsvert skemur en umræður um ráðstafanir í ríkisfjármálum á síðasta þingi. Það er því ekki hægt að segja annað en umræður um þetta stærsta mál lýðveldissögunnar hafi í raun og veru tekið tiltölulega stuttan tíma til þessa og engin ástæða til fjargviðrast yfir því þó að þar sé bætt við nokkrum klukkutímum. Spurningin er bara hvenær sólarhringsins það er gert og með hvaða hætti er að því staðið.
    Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að taka undir þau sjónarmið sem fram komu hjá hv. 2. þm. Vestf. í fyrsta lagi varðandi ræðu hv. þm. Eggerts Haukdals en í öðru lagi þau sjónarmið að ég teldi eðlilegt að forseti kannaði nú meðan fundi heldur fram hvort unnt væri að setja niður tíma þegar þessum fundi lyki í nótt. Hvort það er kl. 1.30 eða 1.45 þá held ég að það væri skynsamlegt með hliðsjón af því að það eru boðaðir nokkrir nefndafundir kl. 8.15 í fyrramálið að menn reyndu að ákveða fljótlega hversu lengi á að halda áfram á þessari nóttu. Ég mælist til þess við hæstv. forseta að hann af tillitssemi við þingheim beiti sér fyrir því að ná samráði og samkomulagi um það hvenær menn vilja ljúka umræðunni á þessari nóttu. Þeim mun frískari verða menn til nefndastarfa í fyrramálið því að það er margt að vinna eins og kunnugt er því að mörg mál liggja fyrir af hálfu hæstv.

ríkisstjórnar sem varða hag lands og þjóðar í mörgum nefndum og stjórnarandstaðan er, eins og kunnugt er, öll af vilja gerð til þess að greiða fyrir því að nefndastörf geti gengið fyrir sig með sem eðlilegustum hætti.