Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 00:43:00 (3612)

     Ólafur Þ. Þórðarson (um þingsköp) :
    Forseti. Ég þakka forseta fyrir þá yfirlýsingu að hann er staðráðinn í að virða málfrelsi þingmanna. Það er mjög virðingarvert. Engu að síður er sú bón enn uppi af því að við höfum nú fengið að sjá dagskrár þingsins, stundum mánuði fram í tímann, tímasettar og prentaðar áætlanir um hvað eigi að gera og auglýstar sem stefnumarkmið, þá þætti okkur mjög vænt um að vita áætlun þessa sólarhrings sem nú er hafinn. Áætlanir fram í tímann eru mikils virði og ekki lítið hægt að gefa fyrir þær. En það er enn þá meira virði að vita hvað mun gerast á næstu klukkustundum og á þessum sólarhring. Ég tel t.d. að þeir sem eiga að mæta kl. korter yfir átta til að vinna í nefndum þurfi gjarnan að fá að vita hvað fundurinn á að vera lengi. Ef það er ætlunin að hafa hann í alla nótt, þá er það bara upplýst án þess að ég muni gera athugasemd við það, en þá tel ég sjálfgefið að þeir sem eiga að fara í nefndastörf í fyrramálið muni óska eftir því að þeim nefndastörfum verði frestað. Það er náttúrlega ekki hægt að ætlast til annars en þeir sem vinna að því að fara yfir mál hafi sæmilega hugsun og það er hætt við að sá sem er orðinn mjög syfjaður hafi

ekki þá athyglisgáfu sem hann þarf að hafa til að yfirfara mál.
    Ég vildi bara koma þessu á framfæri en fyrst og fremst þakka hæstv. forseta fyrir að það er upplýst að það er hann sem hefur stöðvað hæstv. utanrrh. í sókn hans á hendur þinginu.