Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 00:50:28 (3619)

     Páll Pétursson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Mér þykir út af fyrir sig gott að heyra það sem ég reyndar vissi áður að herra forseta er annt um málfrelsi þingmanna. Ég tel hins vegar ekki eðlilegt að halda áfram langt fram á nóttina með þennan fund. Sýnilega endist ekki nóttin til þess að klára þessa mælendaskrá og við eigum að baki drjúgan vinnudag. Ég vek athygli á því að við í stjórnarandstöðunni höfum verið ákaflega sáttfús í dag og umræður hafa gengið samkvæmt dagskrá síðan kl. 1.30, hér um bil upprofslítið. Ég vek athygli á því að það er ekki einungis að við þingmenn þurfum einhverja hvíld, heldur þarf líka starfsfólk Alþingis, sem hefur unnið undir miklu álagi, að hvíla sig einhverja stund líka.
    Út af hinni eðlilegu og snjöllu hugmynd hv. 4. þm. Reykv. vil ég segja það að ég er tilbúinn til að fresta minni ræðu til morguns.