Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 00:53:46 (3621)

     Eggert Haukdal (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta liggur fyrir skjalfest frá þeim tíma að dr. Gylfi var áhugamaður um EB. Það hafa alltaf verið að koma upp í íslenskum stjórnmálum öðru hverju menn sem hafa mænt á EB. Þeir eru sífellt að skjóta upp kollinum. Það var dr. Gylfi á sínum tíma. Sem betur fer voru farsælir menn í forustu þá í viðreisn, dr. Bjarni, sem horfðu ekki til þeirrar áttar.
    Það má svo aftur segja að Alþjóðasamband jafnaðarmanna er virkt. Því tekst að hafa allt of mikil áhrif. Krötum tókst að vinna vel í síðustu ríkisstjórn með Framsókn og kommum og réðu þá allt of miklu um mótun þess sem við erum senn að ganga til, því miður. Síðan fengu þeir nýjan ferðafélaga, Sjálfstfl., og tekst um of að ráða þar líka. Í íslenskum stjórnmálum er sú staða að Alþfl. er því miður allt of sterkur og tekst að spila á hlutina og ráða of miklu. Að EES skuli vera að koma á er út af fyrir sig afrek fyrir þá. Það má óska Evrópukrötum til hamingju með það að vera senn búnir að keyra þetta í gegn og takast að fá til fylgilags við sig hægri og miðflokka víða í Evrópu. Það má og út af fyrir sig óska íslenskum krötunum til hamingju með þetta afrek en þjóðum Evrópu og íslensku þjóðinni óska ég ekki til hamingju með það.