Evrópskt efnahagssvæði

83. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 00:56:12 (3622)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Áður en ég hef ræðu mína vil ég fara örfáum orðum um þau ummæli um tíma sem hér hafa fallið. Það er nefnilega þannig að við þurfum ákveðinn tíma

til mjög mikilvægra mála á Alþingi, mála sem ekki er eins létt að fresta og þessu máli sem við erum að fjalla um nú, þessu viðamikla máli sem verðskuldar alla þessa umræðu. Hún er nauðsynleg. Hún er nauðsynleg lýðræðisins vegna, hún er nauðsynleg málfrelsisins vegna sem við forseti erum bæði sammála um að þurfi að hafa í heiðri.
    Ég er raunar ein þeirra sem þurfa að mæta á fund sjútvn. kl. 8.15 í fyrramálið. Þar eru oft og tíðum mjög merkileg mál til umræðu og ég verð að segja að mér þykir forgangsröðun hæstv. ríkisstjórnar afskaplega sérkennileg, en ég get ekki gert annað en benda á þetta. Ég get ekki breytt neinu þar um og því verð ég á þessum undarlega tíma sólarhrings að fjalla um mál sem ekkert liggur á að afgreiða og fyrir því hafa verið færð rök. Mér leiðist að tyggja upp það sem aðrir hafa sagt og ég treysti því að fólk sé almennt kunnugt þeim rökum og þau hafa ekki verið hrakin. Það eina sem eftir stendur er það að hæstv. utanrrh. þykir óþægilegt að mæta til ráðstefnu annarra ríkja EFTA og Evrópubandalagsins þar sem hann er sjálfur óöruggur um sína samherja en því verður hann að sæta. Niðurstaðan verður væntanlega ekki önnur fyrir jól en eftir jól. Þar að auki er upplýst að það er alls ekki nein tímaþröng jafnvel þótt við tækjum tillit til þessa. Það hefur ekki verið hrakið.
    Ég hef alllengi verið að velta því fyrir mér hvert væri það aðalatriði sem ég vildi fjalla um við 2. og aðalumræðu málsmeðferðar EES-samningsins. Og æ ofan í æ hefur sama orðið komið upp í huga minn, lýðræði. Ég óttast um lýðræðið á Íslandi eins og nú er málum komið. Ég hef alvarlegar áhyggur og mun reyna að færa rök fyrir því hvers vegna ég hef þessar áhyggjur. Ég tek það fram að mjög mörg efnisatriði þessa samnings verðskulda vissulega ítarlega umfjöllun og má vera að ég blandi mér meira í þá umfjöllun þegar á líður umræðuna en fyrst vil ég taka samkvæmt minni forgangsröðun það atriði og þá umræðu sem ég tel brýnast að taka nú þegar í upphafi.
    Það verður aldrei sátt um afgreiðslu EES-samningsins á Íslandi ef þjóðin fær ekki að segja sína skoðun á honum. Ég er reiðubúin til þess að hlíta þeim úrskurði sem þjóðin kveður upp hvort sem hann er í takt við mínar skoðanir eða ekki. En ég uni því illa ef keyra á þennan mesta fjölþjóðasamning sem Íslendingar hafa gerst aðilar að í gegn á þann ólýðræðislega hátt sem nú stefnir í.
    Ísland er eina EFTA-landið, að Svíþjóð undanskilinni, þar sem hvorki er krafist aukins meiri hluta né þess að aðild að EES sé borin undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Og hvað Svíþjóð varðar þá mun aðild að Evrópubandalaginu verða borin undir aukinn meiri hluta á þjóðþingi Svíþjóðar og vel getur það einnig gerst að þar fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Slíkt er mat þessara þjóða á því hvernig eigi að taka lýðræðislegar ákvarðanir.
    Á Íslandi gæti á hinn bóginn farið svo að einfaldur meiri hluti Alþingis tæki þá ákvörðun að við gengjum í EES. Og þessa tel ég vera eina meginástæðu fyrir því að við, andstæðingar þessa samnings, sættum okkur illa við að bæði skoðanir okkar séu fótum troðnar svo og skoðanir annarra sem eru okkur samsinna því það hefur komið í ljós að það veitir ekki af að bera stórar spurningar undir þjóðaratkvæðagreiðslu og það veitir ekki af því að hafa ákvæði um aukinn meiri hluta í lögum og stjórnarskrám annarra ríkja til þess að umræða hleypi ekki öllu í bál og brand. Og þessi umræða er fjarri því að fara einungis fram hér í þingsölum.
    Þó að margir hafi á vissum tímum talið að þeir væru vanmáttugir í þessari umræðu þar sem rekinn hefur verið mjög harður áróður fyrir því hversu fáfrótt fólk sé um Evrópskt efnahagssvæði og þann samning sem stjórnvöld vilja endilega að við gerum þá er samt mjög mikil og lifandi umræða í samfélaginu. Það kraumar undir og það sýður og ekki að ástæðulausu. Það hefur vakið athygli mína hve margir fylgjast með þessari umræðu núna. Þótt þeir eigi val á tveimur afþreyingarrásum á sjónvarpstækjum sínum virðast þeir samt sem áður stilla nú á þessa umræðu. Það hefur komið fram í samræðum mínum við fólk þá sjaldan að ég slepp út úr þessu húsi frá þessum umræðum. Jafnframt hef ég ábyggilegar heimildir ýmissa ættingja minna og vina fyrir þessu og ég geri ráð fyrir að aðrir hafi sömu sögu að segja. Og ég vek raunar athygli á því að þegar tíu mínútna hlé í gærkvöldi varð að klukkustundar hléi að þá hringdu hingað í þinghúsið, í starfsmenn Alþingis, hlustendur og áhorfendur Sýnar og spurðu hvenær umræðan héldi áfram. Auðvitað hefur fólk áhuga á þessu þótt það sé ekki spurt. Jafnvel þó svo megi vel vera að sú skoðun hæstv. utanrrh. að þingmeirihluti sé fyrir þessu máli sé rétt þá er þetta engu að síður staðreynd.
    Hér á landi eru aðstæður á margan hátt sérstæðar. Í fyrsta lagi vegna þess að atvinnulíf þjóðarinnar er með öðrum hætti en atvinnulíf annarra EFTA-landa og Evrópubandalagslandanna allra. Frelsin fjögur eru auðvitað fjarri því að vera óumdeild í Evrópu, hvort sem er utan eða innan Evrópubandalags eða EFTA. Engu að síður má segja að það samningssvið sem varðar þessi frelsi fjögur komi frekar við önnur EFTA-lönd en Ísland og okkar sérstaða sé skýrari enda erum við að sjálfsögðu eina EFTA-landið og eina landið í Evrópu sem hefur þá miklu sérstöðu að 80% af vöruútflutningi eru fiskafurðir. Þetta er okkar helsta sérstaða. Og þar af leiðandi er ekkert skrýtið að við höfum fyrst og fremst sóst eftir fríverslun með fisk en ekki fengið, sóst eftir því að halda landhelgi okkar lokaðri vegna þess að við höfum langa, mikla og birta reynslu af því er aðrar þjóðir hafa komist inn í landhelgi okkar og vil ég þá sérstaklega nefna það hrun sem varð hér við Faxaflóa þegar margar byggðir fóru nánast í eyði rétt fyrir síðustu aldamót einfaldlega vegna þess að við höfðum ekki forræði sjálf yfir fiskimiðum okkar og við urðum ofveiði annarra þjóða að bráð, við urðum fórnarlömb.
    Núna eru allt önnur og öflugri veiðitæki og það er til mikils að vinna, ekki bara varðandi það að halda því grundvallaratriði að hleypa ekki skipum inn í fiskveiðilandhelgi okkar sem við höfum mikið haft fyrir að losna við, opnum ekki fyrir að knúið verði á um frekari veiðiheimildir. Jafnframt þá verðum við, ef við ætlum að hugsa um framtíðina, að fara að huga að jaðarsvæðunum rétt utan við fiskveiðilandhelgi okkar en þar hafa togarar raðað sér á fengsælum miðum, geri ég ráð fyrir, ég býst ekki við að þeir séu þarna í skemmtisiglingu heldur geri ég ráð fyrir að þeir séu þarna til veiða. Hvaða afleiðingar þessi nýja sókn nýrra og öflugra skipa mun hafa vitum við ekki enn. Við vitum það bara að í stað þess að vera að setja okkur í sóknarstöðu þá erum við nú þegar búin að setja okkur í varnarstöðu með því að embættismenn okkar hafa gengið frá fiskveiðisamningi sem er fullkomlega óviðunandi og jafnvel nokkrir talsmenn þess að við göngum inn á Evrópskt efnahagssvæði treysta sér ekki til að styðja.
    Þetta er fyrsta atriðið. Annað atriðið er það að fyrir aðrar EFTA-þjóðir er aðild að Evrópsku efnahagssvæði leið inn í Evrópubandalagið. Þetta er meginstraumurinn. Og grundvallarumræðan um inngöngu að Evrópubandalaginu mun án efa taka enn meiri tíma og fara fram á fleiri stöðum og verða öflugri en umræðan núna. Það má segja að sums staðar sé aðalumræðan eftir. Það er yfirlýst markmið stjórnvalda að fara ekki inn í Evrópubandalagið og ég trúi því á meðan ekki annað sannast, en ég vil benda á þetta vegna ítrekaðra ummæla um að hér sé umræða eitthvað meiri en annars staðar. Það markast hreinlega af því að umræðan er í rauninni ekki fullkomlega komin í gang hjá öðrum þjóðum vegna þessara sérstöku aðstæðna. Umræða hefur einnig verið mikil víða eins og t.d. í Sviss, úti í samfélaginu og þar var svo komið vikurnar fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna 6. des. sl. að öll blöð voru sneisafull af fréttum af Evrópska efnahagssvæðinu. Jafnvel þótt ríkisstjórn Sviss stefndi inn í Evrópubandalagið þá töldu Svisslendingar að um nóg væri að ræða. En þeir höfðu möguleika á að koma sínum skoðunum á framfæri með því að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu og höfðu því töluvert betri stöðu en við. Hér verðum við að reyna eftir fremsta megni að tryggja að lýðræðisleg umræða fari fram í þjóðþinginu og í samfélaginu en vitanlega er mjög bagalegt að hér skuli ekki vera leyft að fara út í þjóðaratkvæðagreiðslu og ég mun koma nánar að því á eftir.
    Ég vil að lokum varðandi þessar sérstöku sérstöku aðstæður einnig geta þess að á þjóðþingum nágrannalanda okkar eru stjórnarandstöðunni tryggð mun meiri réttindi en hér gerist. Hér má segja að málfrelsið, sem er nú ekki algjörlega ótakmarkað --- sem betur fer er málfrelsi í þessu máli og í frumvörpum og meiri háttar málum, það er í rauninni kannski það eina sem við höfum fram yfir margar þær þjóðir en á móti kemur að í þjóðþingum nágrannalanda okkar víða eru áhrif stjórnarandstöðunnar tryggð með öðrum hætti, m.a. er

þar alsiða að þingnefndir séu undir forustu stjórnarandstæðinga. Þar er einnig alsiða að það sé tekið meira tillit á öðrum stigum mála til stjórnarandstöðu og þetta veit ég að þingreyndir menn og menn, sem hafa komið nálægt samstarfi við önnur þjóðþing, vita. Og þeir munu ekki hrekja það enda engin ástæða til og ekkert feimnismál í rauninni. Það sem er feimnismál er að við skulum ekki hafa sama hátt á hér.
    Ég þarf ekki að taka það fram hver áhrif stjórnarandstöðu eru þar sem minnihlutastjórnir eru við lýði eins og víða er í nágrannalöndum okkar, en það er enn einn anginn, enn ein hefðin sem tryggir alla vega vald hluta stjórnarandstöðu en er aftur á móti ekki hér og er ekki siður hér á landi. Ég man í svipinn ekki eftir því síðan að Alþfl. var hér með skammvinna minnihlutastjórn í kringum 1980 og það var ekki hið dæmigerða munstur sem gerist víða á Norðurlöndum.
    Ég held að það væri öllum til góðs að fá að vita nákvæmlega svo það sé nú tryggt og ég verði ekki sökuð um að fara með fleipur hvernig staðið er að afgreiðslu þessa máls í þjóðþingum hinna EFTA-landanna og tek ég þá fyrst Austurríki. Þar þurfti aukinn meiri hluta, tvo þriðju hluta í því sem þeir kalla Nationalrat og í Bundesrat. Í Finnlandi þurfti einnig aukinn meiri hluta, 2 / 3 . Svo kemur Ísland og þar þarf bara einfaldan meiri hluta og þar er ekki gefinn kostur á þjóðaratkvæðagreiðslu. Í Liechtenstein var haldin, eins og við vitum, þjóðaratkvæðagreiðsla en aftur á móti þarf þingið einfaldan meiri hluta þannig að öðru þessu skilyrði er fullnægt, og því sem ég tel í rauninni heppilegra. Í Noregi þarf einnig aukinn meiri hluta, 3 / 4 hluta, og í Svíþjóð er eina undantekningin fyrir utan Ísland þar sem ekki þarf beinlínis að fara út í aukinn meiri hluta eða þjóðaratkvæði. Hins vegar er það yfirlýst, og það hefur verið staðfest af ábyrgum aðilum, að aðild að Evrópubandalaginu verði borin undir þjóðaratkvæði, alla vega þarf aukinn meiri hluta, það er tryggt. Þar er aðild að Evrópska efnahagssvæðinu aðeins skref í áttina inn í Evrópubandalagið. Og ég sé í rauninni þessa aðild að Evrópsku efnahagssvæði ekki með öðrum augum, hvernig svo sem ég rýni og það er mitt persónulega mat. Ég sé ekki að það geti leitt okkur annað og það tel ég enn aukna ástæðu til þess að vera andvíg aðild að Evrópsku efnahagssvæði því ég tel það einfaldlega mjög slæman kost. Í Sviss þekkjum við málið, þar var þjóðaratkvæðagreiðsla svo sem frægt er orðið.
    Hér er ólíku saman að jafna og okkar unga lýðveldi er greinilega ekki búið að slíta barnsskónum á meðan svona ólýðræðislega er hægt að standa að mikilvægri ákvarðanatöku. Ég vil vekja athygli á því enn og aftur að það var ekki einu sinni meiri hluti alþingismanna sem meinaði þjóðinni að segja álit sitt, heldur 31 þingmaður af 63 og andstaðan var mikil. 28 þingmenn studdu lýðræðislega kröfu um þjóðaratkvæði. Hæstv. utanrrh. lét sér á hinn bóginn sæma að fara lítilsvirðandi orðum um þá þjóðaratkvæðagreiðslu sem hefði getað orðið og kallaði hana ekkert annað en skoðanakönnun. En í hinu orðinu sagði hann að ekki þyrfti á þjóðaratkvæðagreiðslu að halda vegna þess að við hefðum svo oft skoðanakannanir á Íslandi. Og þá voru þessar sömu skoðanakannanir allt í einu orðnar feikilega merkilegar, svo merkilegar að við þyrftum ekki einu sinni að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þess að þessar merkilegu skoðanakannanir færu fram. En greinilega hefur hæstv. ráðherra ekki litið svo á að þessar skoðanakannanir færðu honum nein skilaboð því að það er alveg ljóst að andstaðan í samfélaginu er mjög mikil og oftar en ekki hafa fleiri verið andvígir Evrópsku efnahagssvæði á Íslandi í skoðanankönnunum heldur en fylgjandi. En ósvífni hæstv. utanrrh. kemur ekki lengur á óvart. Hann lætur sér sæma að lítilsvirða bæði þingið og þjóðina enda telur hann sig líklega ekki mann með mönnum í hópi Íslendinga eftir að hann fór að umgangast Evrópukratana, vini sína. Ég hef reyndar alltaf litið á það sem minnimáttarkennd ef menn leggja sig í líma við að þóknast þeim sem hafa meiri völd en sparka í þá sem minna mega sín.
    Það komu mikil öfugmæli fram af hálfu stjórnarsinna í umræðum um tillögu okkar stjórnarandstæðinga um þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir sögðu annars vegar að kosið hefði verið um aðildina að EES í síðustu kosningum og þar af leiðandi þyrfti ekkert að gera það aftur með því að hafa sérstaka þjóðaratkvæðagreiðslu og svo hins vegar að það væri ekki hægt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um EES vegna þess að hætt væri við því að þá yrði

í raun kosið um eitthvað allt annað. Hvað eru þessir fulltrúar, sem telja sig líklega enn fulltrúa meiri hluta íbúa þjóarinnar að segja um kjósendur sína og kjósendur okkar hinna? Að þeir hafi látið afstöðu sína til EES ráða því hvernig þeir kusu í seinustu almennum kosningum þrátt fyrir að allt önnur mál hafi verið meginmál kosingabaráttunar? Og hins vegar að ef kjósendur væru spurðir einfaldrar spurningar í þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort þeir væru meðmæltir eða mótfallnir EES þá mundu þeir kjósa til að tjá sig um eitthvað allt annað. Þetta finnst mér óvirðing við kjósendur.
    Það leynir sér ekki að enn eru mikil sárindi vegna vegna þess að þjóðaratkvæðagreiðslu var hafnað. Og ef ég tek aðeins eitt dæmi úr grein frá 11. nóv. í DV þar sem Ögmundur Jónasson formaður BSRB tjáir sig um þetta þá held ég að það segi það sem segja þarf um það hversu margir eru sama sinnis og ég um að þarna sé vegið að lýðræðinu. En Ögmundur segir, með leyfi hæstv. forseta, í þessari grein:
    ,,Á Alþingi hefur hins vegar verið beitt flokksaga til að fá samþykki fyrir því að gengið verði gegn þessum vilja þjóðarinnar [þ.e. þjóðaratkvæðagreiðslu] Þetta lýsir forræðishyggju og gengur þvert á lýðræðisleg vinnubrögð. Það hlýtur að vera þingmönnum og þjóðinni allri umhugsunarefni þegar lýðræðislega kjörnir fulltrúar okkar á Alþingi eru komnir eins gjörsamlega úr takt við þjóðarvilja og raun ber vitni.``
    Enn fremur segir Ögmundur: ,,Hin þægilega leið sem forræðishyggjumenn hafa löngum farið; að afgreiða óþægilegar skoðanir með því að gera fólk tortryggilegt með pólitískum stimplum gengur ekki upp í þessu máli. Sannleikurinn er sá að afstaða manna til þjóðaratkvæðagreiðslu um EES er engan veginn flokkspólitísk. Það sem vakir fyrir fólki er einfaldlega að niðurstaðan verði farsæl fyrir þjóðina og henni að skapi. Þetta er lýðræðisleg krafa.``
    Og að lokum segir Ögmundur í þessari grein undir millifyrirsögninni, Brothætt lýðræði þar sem hann deilir á að ekki séu tryggð lýðræðisleg vinnubrögð, með leyfi forseta:
    ,,Þetta á ekki síst við þegar samstaða hefur myndast í stofnanaveldinu --- eins og gerst hefur í þessu máli --- til að knýja fram tiltekna niðurstöðu. Þegar samstaða stofnanaveldisins er komin úr takt við fjársvelta Samstöðu almennings úti í þjóðfélaginu er kominn tími til að staldra við og spyrja hvort við séum á réttri braut. Gleymum ekki að lýðræði er brothætt.``
    Hér er að mínu mati einmitt komið að stórum kjarna málsins. Lýðræðið er brothætt og í þessu tilviki er það brothætt gagnvart tvennu. Annars vegar þeim vinnubrögðum sem höfð eru hér á Íslandi varðandi afgreiðslu málsins og hins vegar varðandi það stofnanaveldi og skrifræði sem mun ráða ríkjum á Íslandi sem víða annars staðar í Evrópu ef við snúum ekki við blaðinu og höfnum EES á Alþingi.
    Það er algengur og alvarlegur misskilningur að innan Evrópu sé almenn ánægja með Evrópubandalagið og með þau lög og reglur sem þar ríkja og munu ríkja á Evrópsku efnahagssvæði líka. Þvert á móti er mikil og vaxandi andstaða þar og það hefur glöggt komið fram. Skrifræðið hefur ákveðið að fullkomna sjálft sig í Maastricht en það er auðvitað bara eðlileg afleiðing af því hvernig skrifræði vinnur. Þetta ættum við öll að þekkja sem höfum velt eitthvað fyrir okkur pólitískri sögu. Og þessi andstaða er ekki sérandstaða einhverra þjóðrembusinna. Þvert á móti eru margir þessara þjóðrembusinna ákafir fylgismenn Evrópusamstarfsins vegna þess að þeir telja að sínum sérhagsmunum sé best borgið þar, en margir þeirra sem telja sig til alþjóðasinna og Evrópusinna hafa tekið mjög skarpa og skýra afstöðu gegn Evrópsku efnahagssvæði og gegn Evrópubandalaginu.
    Þetta er mjög eðlilegt ef maður lítur á eðli þessara samfélaga. Því segja má að flóknar reglur Evrópubandalagsins, sem að hluta -- ég ítreka það -- gilda á Evrópsku efnahagssvæði hafa verið að tryggja og festa í sessi alls konar sérhagsmuni, sérhagsmuni fyrirtækja, hagsmunaaðila á einstökum svæðum eða hagsmunaaðila sem vilja geta farið frítt yfir öll svæði. Um þetta snýst þetta skrifræði. Um þetta eru til ótal mörg dæmi sem ég veit að jafnvel þeim sem hafa aðhyllst Evrópskt efnahagssvæði með heilum eða hálfum hug er kunnugt um. Það er nefnilega ekki svo að þetta sé eitthvert einfalt frelsissvæði þar sem menn svífa á vængjum frelsisins, síður en svo. Þetta er niðurnjörvað af öllum þeim reglugerðum og tilskipunum sem til þarf til þess að vernda ýmsa sérhagsmuni, vernda hagsmuni ýmiss konar fyrirtækja, vernda þá fyrir umhverfissjónarmiðum, eins og þau eru nú vond í augum margra sem eiga þá ósk eina að geta selt, og vernda þá gegn lýðræðisöflum því það er það sem gerist í mörgum tilvikum.
    Vissulega eru margir jákvæðir þættir með í þessu reglugerðafargani. Ég vil bara að það komi skýrt fram að jákvæðu þættirnir eru ekki þeir einu. Sem betur eru til t.d. varðandi neytendamál ýmiss konar ákvæði sem eru mun betri og fullkomnari en íslensk reglugerð og lög um neytendamál. En það er ekki vegna þess að við séum með svo góð lög og reglur heldur vegna þess að við erum svo frumstæð í þessum málum að við höfum ekki enn sett viðunandi lög og reglugerðir t.d. í þessum málaflokki. Þar af leiðandi munu lög og reglur Evrópubandalagsins, sem yfir okkur ganga í Evrópsku efnahagssvæði, ef við göngum inn í það, verða endurbætur. En hvernig ósköpunum geta menn sagt það að þessar endurbætur gætu ekki orðið öðruvísi en við yrðum aðilar að Evrópsku efnahagssvæði? Það hef ég aldrei skilið og mun aldrei skilja. Því auðvitað erum við frjáls enn til að setja okkar eigin lög og reglugerðir og setja þann metnað í það sem við teljum okkur sæma.
    Varðandi andstöðuna gegn EES hef ég löngum talið það mjög athyglisvert að konur hafa reynst í könnunum mun stærri hópur andstæðinga EB og EES en karlar og vissulega er ég ánægð með það. En því miður er það þannig að karlar hafa meiri ítök í atvinnulífinu sem knýr helst á um að við gerumst aðilar að EES, en þó alls ekki óskipt, og þar af leiðandi hefur þeirra rödd verið hærri. Þeir hafa einnig verið við stjórnvölinn í öllum ríkjum og sé ástandið slæmt í þeim efnum innan einstakra ríkja Evrópubandalagsins og EFTA þá er það enn verra þegar komið er fjær hinu beina valdi, sveitarstjórnunum, þjóðaratkvæðagreiðslunum eða hvernig sem hið nálæga vald birtist, það er misjafnt. En þegar komið er alla leið til Brussel eru konur nánast dottnar alveg úr lestinni. Auðvitað er það ein af þeim kvennapólitísku ástæðum sem eru gegn því að við tengjumst Evrópsku efnahagssvæði.
    Þegar hafa verið rakin ýmis þessara raka í ræðum hv. þingkvenna, hv. 10. þm. Reykv., Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, og hv. 15. þm. Reykv., Kristínar Einarsdóttur, og ég sé ekki ástæðu til að vera með miklar endurtekningar hér. Hins vegar er ég ekki viss um að menn almennt geri sér grein fyrir því hver tölfræðin er í þessu en ég held að gróft tekið megi segja að þar sem 40 karlar eru á móti EES og EB séu 60 konur á móti, svo ég gefi einfalda hugmynd um þetta. Ég geri ekki ráð fyrir að allar þessar konur hafi verið að velta sér kvennapólitískum fræðum né þeim feminísku rökum sem raktar hafa verið af þeim fáu konum sem hafa komist til valda undir Evrópufána. Svissneska þingkonan Cesile Bühlman sagði á blaðamannafundi 16. nóv. sl. að kvennapólitísk rök gegn EES væru ekki síst hið frjálsa flæði vinnuafls og vísaði þá bæði til þess veruleika sem er í Mið-Evrópu og eins þess veruleika sem gæti blasað við okkur þegar fyrirtæki ættu þess kost að færa sig á ódýrari svæði og þegar hið frjálsa flæðandi vinnuafl væri neytt til að flæða á eftir ef það vildi hafa einhverja vinnu. En það er náttúrlega ekki endalausa vinnu að hafa.
    Ýmsar kannanir hafa verið gerðar á Íslandi sem styðja að þessi viðhorf ríki einnig hér. Ég ætla ekki að tilgreina neina sérstaka en bendi á könnun sem utanrrn. gerði í sumar þar sem er að finna ýmsan talnafróðleik sem styðjur það sem ég er að segja.
    Í Finnlandi er raunar vaxandi andstaða gegn aðild að Evrópubandalaginu þrátt fyrir að þeir hafi verið að staðfesta, eins og kom fram í máli hæstv. utanrrh. fyrr í þessari umræðu, EES-aðild. Það er vaxandi andstaða gegn tengingu við þetta evrópska stórveldi, þ.e. Evrópubandalagið -- annað er víst ekki mælt þarna -- og styður það enn fyrirvara minn hér. Nú eru álíka stórir hópar með og móti Evrópubandalagsaðild en enn eru fleiri karlar, eða um 55% karla, meðmæltir Evrópubandalagsaðild en 45% á móti. Þetta eru raunar óskaplega miklar breytingar frá því sem áður var en fyrst og fremst segir þetta þó að konurnar í Finnlandi eru harðari í sinni andstöðu en karlarnir.
    Í Sviss voru það einnig konurnar sem voru í meiri hluta þeirra sem voru andvígir aðild að EES. Ég hef ekki tölur úr sjálfum kosningunum, ég fann þær ekki þrátt fyrir

nokkra leit, en hins vegar var þetta fullyrt í fréttatíma og er í samræmi við eldri tölur. Í kantónunni Zürich t.d., sem er ein stærsta og öflugasta kantónan, var voru hlutföllin þannig þrem vikum fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna að um 65% karla og 75% kvenna voru á móti aðild að Evrópsku efnahagssvæði, ef aðeins eru teknir þeir sem tóku afstöðu.
    Ég held að þessi talnaupptalning dugi mér. Ég er ekkert sérlega gefin fyrir tölur. Hins vegar verð ég að minna á að það þykir einatt trúverðugra ef maður nefnir tölur máli sínu til stuðnings, þó að ég telji að hugmyndir skipti meira máli en tölur. En altént tel ég að ég hafi látið ykkur í té tölur sem máli skipta svo það fari nú ekkert á milli mála hver staðreyndin er hér.
    Við stöndum frammi fyrir breyttum heimi nú, heimi sem krefst meira samstarfs þjóða í milli í stað átaka. Það hefur verið orðað svo af raunar einum andstæðinga EES, Andreasi Gross, þingmanni í Sviss, að ýmis þjóðríki séu orðin of lítil fyrir stóru málin og of stór fyrir litlu málin. Það þarf því ekki að undra að menn leiti leiða til að auka samstarf þjóða í milli, t.d. í hinni sundurleitu Evrópu sem enn á ný er orðin að vígvelli sem allir E-stafir geta ekki megnað að stöðva átök í. En samstarf þarf ekki og getur ekki til langframa byggst á skrifráðu stórríki sem þægir fyrst og fremst sjálfu sér. Þvert á móti þarf að finna aðra og lýðræðislegri lausn á ríkjasamstarfi en ríkjablokkir á borð við þá sem Evrópubandalagið býður upp á. Við höfum nú þegar séð hver örlög slíkra ríkjablokka verða. Þetta var reynt með því að steypa saman í miðstýrt skrifræðisveldi öllum ríkjum fyrrum Sovétríkjanna. Sú tilraun var dæmd til að mistakast þrátt fyrir að hún hafi verið gerð í þágu hugsjóna og fagurra orða og mikilla drauma. Þær hugsjónir snerust um jöfnuð manna á meðal en ég verð að viðurkenna að mér hugnast hugsjónir nýja stórríkisins ekki alveg eins mikið þó ég sé þess fullviss að þær hugsjónir eru í einlægni fram settar og sjálfsagt af sömu draumórum og fyrri ríkjablokkir hafa verið byggðar á. Mér sýnist að þetta sé jöfnuður allra vörutegunda en ekki manna, eða kannski jöfnuður milli fyrirtækja sem á að tryggja en það gildir víst einu. Þó við heyrum ekki slagorð á borð við ,,heildsalar allra landa sameinist`` heldur er talað um frelsin fjögur, þá held ég að við hljótum að skilja að þarna er samhengi á milli. Ég treysti því að menn þekki þá sögulegu skírskotun sem hér er á ferðinni.
    Lýðræði sprettur ekki af sjálfu sér. Ef litið er yfir söguna má sjá að það eru ekki hin ráðandi öfl sem hafa krafist lýðræðis heldur þeir sem telja sig ekki njóta lýðræðis. Í frönsku byltingunni voru það borgararnir, þriðja stéttin, sem ekki hafði völdin þá. Þeir snerust til andófs við klerka og aðal og á þessu á okkar nútímalýðræði að vera byggt. Það mætti taka fleiri dæmi úr sögunni en ég held að við verðum að skilgreina hver eru hin ríkjandi öfl núna því að það er svo augljóst að það eru nákvæmlega þau sem ráða ferðinni. Það eru stórfyrirtæki í ríkjum Evrópu sem hafa langmest ítök og langmest völd innan Vestur-Evrópu. Ég hygg að í upplausninni í austanverðri Evrópu sé þetta allt á einhvers konar deiglustigi sem ég því miður óttast að muni fara í svipaða átt. Og stórfyrirtækin hafa hagsmuni af því að sameina mestalla Vestur-Evrópu í ríki sem byggist á hugsjónum verslunar og viðskipta og því að ýta fólkinu sífellt fjær frá valdinu, en því er þó talin trú um að allt sé þetta gert í þess þágu.
    Það er ekki við neina heimskingja að etja og það hefur ekki farið fram hjá mörgum að fylkingar andstæðinga og fylgjenda hins Evrópska efnahagssvæðis eru álíka stórar í flestum EFTA-ríkjum þrátt fyrir þrotlausan einhliða áróður stjórnvalda þar í þágu hins evrópska stórríkisins. Innan Evrópubandalagsins gegnir sama máli um fylgjendur og andstæðinga Maastricht, sem er framtíðarsinfónía Evrópubandalagsins. Þó að við vitum að Evrópubandalagið er svo sannarlega ekki eina lausnin í þessum málum þá er það eina lausnin sem hugnast þessum fyrirtækjum því hún er líklega sú eina sem tryggir hagsmuni þeirra í lengd og bráð og því miður, eins og ég gat um áður, gegn hagsmunum þeirra sem hafa bent á hvað hinn gegndarlausi hagvöxtur hefur óholl áhrif á umhverfið, hversu hættulegt það er að hugsa aðeins í krónum og aurum en ekki í umhverfisvernd og miskunn fyrir umhverfinu, sem er jú sameign okkar allra, og get ég þó aðeins eins málaflokks sem vert er. Það hefur sýnt sig svo ekki verður um villst hverra hagsmuna Evrópubandalagið gætir á

því samningssviði sem EES tekur til, þ.e. verslunar og viðskipta. Hagsmunir fyrirtækja, þeirra öflugu og stöndugu, eru æðri hagsmunum einstaklinganna. Mig langar að taka þrjú dæmi:
    Ef fyrirtæki er að leita sér að starfsmönnum þá er á þessu frjálsa flæðisvæði mögulegt að finna staði þar sem vinnuafl er ódýrt og félagsleg réttindi lítil og þangað leita fyrirtæki í meira eða minna mæli með framleiðslu sína. Þetta er ákveðinn meginstraumur sem ekki verður á móti mælt. Hugsjónin er ekki að skapa sem flest störf þar sem það hentar vinnuaflinu. Þetta vinnuafl er vel að merkja fólk með fjölskyldur og rætur í sínum heimahögum. Þetta gerir einnig erfitt fyrir í launabaráttu á þeim svæðum þar sem laun eru blessunarlega hærri og þar sem félagsleg réttindi hafa verið tryggð. Dugar t.d. að nefna þá atlögu sem gerð er að fæðingarorlofi núna. Hótanir vofa sífellt yfir að ef menn geri óhóflegar kaupkröfur að mati vinnuveitenda vel að merkja þá flytji fyrirtækið starfsemi sína annað. Þetta gerir meira og minna máttlaus þau ákvæði EES-samningsins að laun og félagsleg réttindi hvers lands skuli gilda. Við slíkar aðstæður hlýtur það að vera tímaspursmál hversu lengi það mun gerast vegna þess þrýstings, sem stundum hefur verið kallaður ,,social dumping``, að jafnað verði niður á við, ef ég nota klisju sem varð fleyg úr grein hv. þm. Árna Johnsens. Ég man ekki alveg hvernig hann ætlaði að jafna en ég man að í framhaldi kom þetta fram.
    Þetta er fyrsta dæmið sem ég held að flestir kannist við og viðurkenni með einum eða öðrum hætti. Við sem erum andstæðingar Evrópska efnahagssvæðisins viðurkennum þetta berum orðum og hætt er við að fylgjendur Evrópska efnahagssvæðisins samþykki þetta einfaldlega með gjörðum sínum, með því nákvæmlega að nýta sér þetta og með því að beita þessum hótunum. Það er nú þegar hægt að búast við að fari að bera á þessu. Hér ber einnig að taka inn í myndina hversu mikið atvinnuleysi er á svæði Evrópsks efnahagssvæðis og hversu mjög það fer vaxandi hér. Raunar erum við að fá tíðindi um að það sé í hámarki sem ekki hefur orðið um margra ára skeið.
    Í öðru lagi vil ég benda á að dómar sem fallið hafa vegna kæra fyrirtækja sem ekki hafa unað ströngum fyrirmælum um vörumerkingar varðandi t.d. efnainnihald vöru hafa fallið fyrirtækjunum í hag. Það er grundvallarlínan og því sem kallað er viðskiptatálmanir er gert hærra undir höfði en grunsemdum um að efni séu skaðleg. Ef ekki er búið að sanna að efni séu skaðleg er í rauninni gengið út frá því að það þurfi ekkert að vera að hafa fyrir því að setja þessar merkingar á umbúðirnar.
    Ég vil bara taka eitt dæmi sem ekki ómerkari maður en fyrrum háskólarektor, Sigmundur Guðbjarnason, kom með á mjög athyglisverðri ráðstefnu um matvælaframleiðslu Íslendinga í upphafi þessa mánaðar. Jafnvel efni sem talin eru mjög skaðlaus eins og t.d. Nutrasweet liggja undir grun enn einu sinni. Samkvæmt þeim könnunum sem hann vitnaði til hefur komið í ljós að þetta skaðlausa efni, sem gengur ýmist undir nafninu Aspartam eða Nutrasweet eða Canderel veldur höfuðverk. Það getur vel verið að það valdi engum öðrum skaða en höfuðverk en við sem þekkjum höfuðverk vitum að það er ærið nóg. Auðvitað ætti að vara fólk við slíku. En þetta er eitt af þeim efnum sem hafa verið úrskurðuð skaðlaus. Ég geri ráð fyrir að það teljist til viðskiptahindrana að tíunda þetta sérstaklega án þess að hafa sérstaklega farið út í að kanna það. Ég trúi fyrrv. háskólarektor þessu máli. Þetta er eitt af því sem mundi væntanlega flokkast undir viðskiptahindranir. Og lái mér hver sem vill að ég sætti mig ekki við þetta. Mér finnst þetta afturför. Þrátt fyrir að margt gott geti fylgt aðild að Evrópsku efnahagssvæði fyrir okkur sem erum svona frumstæð í neytendamálum þá er þetta samt sem áður eitt dæmi um að hagsmunir fyrirtækjanna ráða ferðinni en ekki hagsmunir einstaklinganna.
    Þriðja dæmið sem ég ætla að taka er varðandi starfsréttindi. Þar er kannski um svolítið annað að ræða. Þar er nefnilega verið að fara út í alls konar leiðir sem ég sé ekki fyrir endann á. Ég geri ráð fyrir að flestar þeirra séu færar en þó varð ég vör við það í bandormsfrv., sem hefur verið til umfjöllunar í allshn., og hef fengið það staðfest að þar er verið að setja girðingar sem munu ekki halda vegna þess að það samrýmist ekki frjálsu flæði þjónustu. Þar er um að ræða að verið er að gera kröfu um búsetu á Íslandi þar sem búsetuákvæði hefur enga sérstaka skírskotun. Þrátt fyrir ábendingar og umfjöllun í nefndinni er ekki enn búið að leiðrétta þetta. Þetta er fölsk trygging fyrir launþegasamtök sem hafa sótt töluvert á um að settar séu girðingar. Ég er sjálf beggja blands varðandi það hvort sú krafa sé rétt. Engu að síður hlýt ég að virða það ef launþegasamtök telja að slíkar girðingar séu mikilvægar. Það er þá lágmark að þær haldi en ekki séu settar upp einhverjar pappírsgirðingar sem eru einskis nýtar ef farið er í mál. Þetta er því miður verið að gera.
    Ég hef ekki mikið fjallað um stjórnarskrárþátt EES-samningsins í þeim fáu og tiltölulega stuttu ræðum sem ég hef haldið um Evrópskt efnahagssvæði. Ekki vegna þess að ég telji það mál lítilvægt heldur þvert á móti tel ég það skipta verulegu máli en ég tel að þeim þætti málsins hafi verið gerð afskaplega góð skil, svo góð að mér er það hreint óskiljanlegt hvernig það getur gerst að enn séu menn reiðubúnir til að taka þá áhættu að samþykkja samning sem mjög líklega brýtur ákvæði stjórnarskrárinnar.
    Það er aðeins eitt efnisatriði sem ég tel ástæðu til að taka fram varðandi þetta. Ég er ein þeirra sem telja ekki ástæðu til að breyta ákvæðum stjórnarskrárinnar í þágu EES. Ég er fullkomlega sátt við hana eins og hún er nú þar sem eru umtalsverðar takmarkanir á því að við göngumst undir yfirþjóðlegt vald. Hins vegar geri ég mér fullkomlega grein fyrir því að vera kann að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði verði að veruleika hér á landi þótt það geti gerst á þann ólýðræðislega hátt sem ég gat um í upphafi ræðu minnar. Ef það gerist tel ég óhjákvæmilegt að standa að nauðsynlegum stjórnarskrárbreytingum í samræmi við frv. það sem nokkrir hv. þm. stjórnarandstöðunnar fluttu fyrr á þinginu og hefur verið vísað til ríkisstjórnarinnar. Það tel ég nauðsynlegt til að koma í veg fyrir þá óhæfu að á Alþingi Íslendinga verði framið stjórnarskrárbrot.
    Ég verð að segja að mér þykir það nokkuð alvarlegt mál að telja að hægt sé að brjóta stjórnarskrána fyrst og breyta henni svo eins og lesa má út úr áliti fjórmenninga hæstv. utanrrh. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Þá er hugsanlegt að reynslan leiði í ljós að það reynist ekki rétt sem við byggjum á um framkvæmdarvaldið og dómsvaldið, þ.e. að reglurnar um vald stofnana EFTA séu vel afmarkaðar, að þær feli ekki í sér verulegt valdframsal og séu ekki íþyngjandi í ríkum mæli. Einnig er hugsanlegt að í samkeppnismálum komi til meiri afskipta en hér er reiknað með. Við teljum ólíklegt að forsendur okkar að þessu leyti reynist rangar. Við teljum jafnframt að engin nauðsyn sé að ráðast nú í breytingar á stjórnarskránni vegna þessa möguleika. Ef fram kemur síðar að slíkra breytinga sé þörf er Ísland að þjóðarétti skuldbundið til að gera þær.``
    Mikið er ég oft búin að furða mig á þessum röksemdum. Þær ganga ekki upp í mínum huga. Ég er mjög ósátt við að það eigi að vera hægt að komast upp með að brjóta stjórnarskrána fyrst og lappa svo upp á hana eftir því sem brotið leyfir. Það finnst mér ekki sæmandi.
    Í 5. kafla eru mörg önnur atriði sem mér blöskra svo að ég kemst eiginlega ekki ógrátandi í gegnum þann texta og ætla því ekki að kvelja hvorki sjálfa mig né aðra á því. Eins og við heyrðum hér vitnað í einn fjórmenninganna sagði hann að hann teldi að það væri eitthvert smotterí sem gæti kannski verið brotið þarna og samanlagt gæti það kannski verið dálítið mikið en samt ekki svo mikið að við þyrftum að hafa áhyggjur af því. Mórallinn í sögunni er þessi og þetta er auðvitað óviðunandi.
    Í ljósi þess sem hæstv. forseti sagði á undan þá held ég að ég geti sleppt góðum hluta af næsta kafla ræðu minnar þar sem ég var farin að hafa verulegar áhyggjur vegna þess orðróms að einhverjir stjórnarsinnar hefðu áhuga á að takmarka málfrelsi í þessu stóra og viðamikla máli. En ég held að þeirri hættu hafi verið bægt frá. Ég skildi hæstv. forseta svo að hann mundi beita sér í því máli ef á þyrfti að halda. Ég vona raunar að þetta hafi bara verið einhverjar óábyrgar hugdettur. Hitt er aftur á móti alvarlegt að þessum hugdettum var komið á flæking sem hótunum. Það finnst mér ógeðfellt. Skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi eru nefnilega mjög dýrmæt mannréttindi sem okkur er allt of gjarnt að telja sjálfsögð. Þessi mannréttindi ættu að vera sjálfsögð en við verðum að gæta þess vel að þrengja ekki um of að þessu frelsi okkar. Enn eru því miður margar þjóðir í heiminum þar sem

þessi sjálfsögðu mannréttindi eru ekki virt.
    Ég vil geta þess varðandi þessa umræðu að ég tel hana hafa verið bæði upplýsandi og markvissa að langmestu leyti. Enda í afskaplega mörg horn að líta og við getum ekki hvert og eitt kynnt okkur öll efnisatriði málsins. Ég held ég geti sagt það með góðri samvisku að við kvennalistakonur höfum m.a. valið þann kostinn að skipta nokkuð með okkur verkum.
    Sem betur fer slepp ég við að taka þennan kafla frekar fyrir sem ég hafði hugsað mér og tel heldur ekki ástæðu til að ítreka það enn og aftur að hluti af því sem felst í málfrelsi og skoðanafrelsi er sú leið sem hafnað var, þ.e. þjóðaratkvæðagreiðsla, en 70% kjósenda samkvæmt skoðanakönnun vildu fara þá leið. 34 þúsund kjósendur skoruðu á stjórnvöld skriflega að fara þá leið.
    Franski upplýsingastefnumaðurinn og rithöfundurinn, Voltaire, sem uppi var á fyrri hluta átjándu aldar, var boðberi frjálslyndis í stjórnmálum. Hann var í andstöðu við ríkjandi valdastofnanir hvort sem þær voru veraldlegar eða kirkjulegar. Okkur kann að þykja það framandlegt hér og nú en sú var tíðin að kirkjan hafði ítök jafnvel hér á Íslandi. Þetta segir okkur að það er síbreytilegt hverjir eru valdhafar og það er síbreytilegt hverjir þurfa að krefjast réttar síns. Ein þeirra leiða út úr þeim ógöngum sem fær er er að auka vægi þjóðaratkvæðagreiðslna og hafa þær oftar. Ég veit að um þetta eru deildar meiningar bæði meðal stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga. Þetta er hins vegar mín skoðun og ég held að við ættum að líta á hugmyndir Voltaire þegar við gerum okkur grein fyrir því að það er stigsmunur en ekki eðlis hvernig farið er að þegar fólk lýsir skoðunum sem er ekki í þágu ríkjandi valdastofnana hvort sem þær eru kolkrabbar Íslands og Evrópu eða einhverjar aðrar valdastofnanir. Voltaire var tilbúinn að hætta frelsi sínu frekar en að þóknast ríkjandi stjórnvöldum. Hann fór í fangelsi vegna skoðana sinna oftar en einu sinni en lét það ekki á sig fá og hélt ótrauður áfram gagnrýni sinni. Hans þekktasta verk er án efa Birtingur, kostuleg háðsádeila á ýmislegt sem enn er í fullu gildi, m.a. á stíðsrekstur og valdahroka. Ég held að okkur væri hollt að skoða þessa ádeilu hans þegar nýir herrar vilja með nýjum ráðum ráða öllu og helst ekki heyra skoðanir fólks.
    Ég geri það stundum að fletta góðum bókmenntum þegar mér þykir orðið forheimskandi bókstaflega að taka þátt í umræðu þar sem fyrst og fremst er beitt völdum en ekki rökum og ekki upplýsingum. Ég á hér við þann blæ sem skapast þegar mikill tími umræðu fer í karp og barning við ráðherra sem eru með ósvífin ummæli um þing og þar af leiðandi þjóð. Ástæður þess að slíkar yfirlýsingar hafa heyrst af munni ráðherra eru að mínu mati þær að þingmenn hafa ekki allir verið þóknanlegir ríkjandi herrum. Mér þykir illt að það skuli verða til þess að menn láta sér sæma að fara með fleipur og niðrandi ummæli. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að koma með örlitla hugleiðingu úr Birtingi til athugunar:
    ,,Ó já, sagði Lítilsbeiðandi. Það er skemmtilegt að mega skrifa það sem maður hugsar. Það er réttur mannsins. Í allri okkar Ítalíu er aldrei skrifað annað en það sem maður hugsar ekki. Þeir sem byggja föðurland Sesara og Antónía þora ekki að láta sér detta neitt í hug án þess að spyrja einhvern svartmunk um leyfi.``
    Ég ætti kannski ekki að hætta mér út á þann hála ís en ætla samt að gera það með auknu hugrekki eftir að hafa lesið um að áður hafi menn verið gagnrýndir fyrir að hafa skoðanir og jafnvel málfrelsi og tjáningafrelsi á annan hátt og vekja athygli á því að ég tel að í EES-málinu, ekki síst í þeim hluta málsins sem varðar þjóðaratkvæðagreiðslu, hafi málfrelsi og skoðanafrelsi stjórnarþingmanna verið lítilsvirt. Þeir eru ekki margir sem hafa haft kjark, þor og kraft til þess að brjótast undan því ofríki sem þeir eru beittir af valdsmönnum þessa samfélags.
    Ég ætla ekki að taka nein sérstök dæmi en ég veit þó að menn hafa verið með yfirlýsingar fyrir kosningar sem þeir verða síðan að kokgleypa og éta ofan í sig eftir kosningar vegna þess að valdamenn stjórnar segja þeim það. Ég vil líka vekja athygli á því að næstir á undan mér voru tveir þingmenn stjórnarliðsins sem ég veit að báðir höfðu ýmislegt fram að færa, Tómas Ingi Olrich og Árni R. Árnason, á mælendaskrá. Ég veit það ekki

en mig grunar að það hafi verið þrýst á þá að taka sig út af mælendaskrá. Auðvitað vona ég að sá grunur minn sé rangur en það hefur gerst og ég þekki dæmi þess að stjórnarsinnar hafa ekki fengið að tala. Því er borið við, og verður sjálfsagt borið við í þessu tilviki, að við stjórnarandstæðingar, sem teljum okkur þurfa að tala og teljum okkur hafa rétt til þess, séum að taka tíma frá þeim. Í þessu tilviki á það hreinlega ekki við. Það er nógur tími. Við erum ekkert að falla á tíma. Það er misskilningur og margbúið að rekja það hér og ætla ég ekki að fara að taka tíma í það.
    Ég hef áður fengið tækifæri, ekki síst í greinaskrifum, til þess að segja skoðun mína á hinu Evrópska efnahagssvæði varðandi sjávarútvegsmálin sem eru á mínu sviði og ætla því ekki að hafa langt mál um það. Þar koma saman bestu hliðar samningsins um Evrópskt efnahagssvæði og verstu. Bestu hliðarnar eru að sjálfsögðu þær tollaívilnanir sem við fáum og eru ótvíræðar. Það er alveg ljóst að þessar tollavílnanir munu skila sér, að vísu alls ekki í þeim stíl sem lofað hefur verið eins og jólasveinninn væri á ferð stundum þegar verið er að gefa mönnum fyrirheit um milljarða. Við erum ekki að tala um upphæðir af þeirri stærðargráðu og fyrir því eru nokkrar ástæður, m.a. þær að samkeppnisstaða helstu samkeppnisaðila okkar eins og Noregs batnar meira en samkeppnisstaða okkar vegna þess að við búum við laka samkeppnisstöðu vegna ríkisstyrkja og einnig vegna þess að hér eru aðstæður fyrirtækja því miður ekki sem skyldi. Þetta hefur allt verið rakið býsna vel í umræðunni og ég ætla alls ekki að fara að tíunda þetta í smáatriðum því að ég hef haft ágætis tækifæri til þess og ég hef notað það.
    Ég held að það sé ekki nema eitt atriði sem ég þarf að bæta við þarna. Það hefur nefnilega valdið svolitlum misskilningi hvaða möguleikar gætu komið upp ef við höfnuðum EES-samningnum. Í fyrsta lagi gæti sú staða komið upp að þar með væru Norðmenn afdráttarlaust í enn betri stöðu en við með sínar tollaívilnanir en á móti kemur að Norðmenn eru ekki búnir að ganga frá sínum fiskveiðisamningi og líka það að við vitum ekki hversu mikið uppnám EES-samningarnir færu í ef Íslendingar höfnuðu aðild að EES líka. Þetta er einfaldlega mál sem við ekki vitum. Það er því mögulegt að við með okkar bókun 6 og hagstæðari samninga en Norðmenn nú stæðum betur ef við höfnuðum EES en Norðmenn en að sjálfsögðu er það ekki gefið. Það gæti farið svo að Norðmenn færu inn í Evrópskt efnahagssvæði, sem ég veit ekki hvað yrði kallað þá. Hins vegar er alls ekki sjálfgefið að þeir fari inn í Evrópubandalagið vegna þess að það er mjög sterk andstaða í Noregi. Einu sinni hafa þeir fellt aðild að Evrópubandalaginu og það eru kosningar næsta haust í Noregi og það er rökstuddur grunur, rökstuddur með skoðanakönnunum, að þá muni andstöðuflokkarnir gegn EB og EES sækja mjög í sig veðrið í Noregi. Hin pólitíska staða er því ekki sjálfgefin í þessu máli. Mér hefur þótt gæta býsna mikils misskilnings í þessu. Það hefur verið sagt:
    A. Staðan er núna sú að við höfum betri samning en Norðmenn.
    B. Ef við og Norðmenn förum inn á Evrópskt efnahagssvæði, þá bæta þeir að vísu stöðu sína meira en við en ef þeir færu einir inn, þá mundu þeir standa miklu betur en við.
    Þetta eru ekki einu kostirnir. Fjórði kosturinn er sá að ekkert verði af Evrópsku efnahagssvæði. Þá hefðum við yfirburðastöðu. Þá gætu Norðmenn staðið betur ef þeir færu inn í Evrópubandalagið. Það er heldur ekki sjálfgefið. Allt byggist þetta á tíma, pólitískum vilja og því hversu mikið lýðræði verður í ákvarðanatöku. Mig grunar að Norðmenn með kröfu sína um aukinn meiri hluta, með þær kosningar sem fram undan eru á næsta hausti þar og með sína fortíð í andstöðu gegn Evrópubandalagsaðild hafi ekki sagt sitt síðasta orð þar.
    Það getur því vel verið að dugnaður manna við að strika út nöfn sé feikilega mikill en sá möguleiki er vissulega fyrir hendi að ef við segðum okkur frá þessum samningi, þá yrði ekkert af Evrópsku efnahagssvæði þar sem flestar hinar þjóðirnar eru á leið inn í Evrópubandalagið, þ.e. stjórnvöld. Ég er ekki viss með þjóðirnar sjálfar. Ég hef reyndar feikilega miklar efasemdir um það.
    Varðandi fiskvinnsluna, þá hefur það verið rakið mjög vel að í rauninni er bara frumvinnslan varin og það eru til bakdyraleiðir raunar nú þegar inn í frumvinnsluna. Það

er ekki til fyrirmyndar. Ég var afskaplega hrædd við þau lög sem við settum á síðasta vetri varðandi fjárfestingar erlendra aðila þar sem ég taldi að væri möguleiki á meiri opnun en ég var reiðubúin að samþykkja í okkar viðkvæmu fiskvinnslu, þá er ég að meina frumvinnslu, og sömuleiðis í útgerð. Ég tel að við séum á háskabraut varðandi eignaraðild útlendinga í íslenskri fiskvinnslu. Allt utan frumvinnslu, þ.e. að verja fisk fyrir skemmdum, er galopið í anda þessa frjálsa flæðis og sú opnun getur orðið okkur mjög dýrkeypt. Ég tala ekki um þann hluta fiskvinnslunnar eins og fiskmarkaðina sem væntanlega er meira og minna skilgreint sem viðskipti en ekki fiskur. Ég held að eignaraðild erlendra aðila í íslenskum fiskmörkuðum sé kannski eitt það hættulegasta í þessu máli öllu saman.
    Við verðum að muna að við eigum allt okkar undir sjávarútvegi og fiskvinnslu og við höfum verið að stíga skref aftur á bak sem sumir telja kannski að sé allt í lagi að stíga og halda að nú séum við bara að fá fjármagn í fiskvinnsluna okkar í okkar þágu. Ég held að það sé mikill græningjaháttur að halda að hingað komi menn með fullar hendur fjár til þess að styðja við bakið á Íslendingum, efla fiskvinnslu og útgerð og skilja svo arðinn eftir hér. Ég held að þetta sé því miður ekki raunhæft þó að það væri að sjálfsögðu æskilegt.
    Ég tek undir orð hv. 1. þm. Austurl., Halldórs Ásgrímssonar, um að það er sjálfgefið að sjávarútvegssamningurinn eigi að frestast um ár vegna þeirrar stöðu sem komin er upp eftir að Sviss felldi samninginn um EES. Ég gleðst yfir því að hann skuli hafa tekið af skarið með það að hann er andstæðingur þess samnings sem við höfum nú séð. Ég hef haft tækifæri til að tjá mig um það mál og ég ítreka þau ummæli mín. Ég tel að þessi samningur feli í sér of mikla opnun til þess að við getum unað við hann. Ég tel líka að í honum geti verið gildrur og ég tel ekki ástæðu til þess að taka áhættu.
    Ég sagði það fyrr í umræðunni og ítreka það enn að við megum ekki gleyma því að á hverju máli eru tvær hliðar, kostir og gallar. Ég þykist hafa rakið það að ég sé þá kosti sem eru fyrir hendi og geta fylgt opnari viðskiptum en þar er líka um galla að ræða. Ég hef líka viðurkennt það eins og aðrir að niðurfelling tolla er okkur hagstæð. Ég hefði viljað fá það með öðrum hætti en auðvitað fagna ég slíku. Það breytist ekkert þó að ég hafi bent á það að þessi hagnaður verði ekki eins mikill og menn héldu. Eitthvað kemur væntanlega neytendum til góða og jafnvel erlendum milliliðum og við því er ekkert að segja. Þetta er bara eðli viðskipta og ég skil ekki hvað menn eru viðkvæmir fyrir því þegar þetta er sagt, en því miður verður maður hreinlega fyrir árásum þegar maður nefnir þetta vegna þess að það má ekki segja neitt nema sem er gott og fagurt um þennan samning. Ég held að mig setji ekkert ofan þó að ég lýsi kostum þessa samnings. En ég ætlast til þess að aðrir þoli að heyra staðreyndir um það að þessir stóru kostir séu ekki algerlega hvítir heldur hafi komist einhver smáskuggi þar á.
    Jafnframt held ég að það sé alveg ljóst að ég þoli það vel að heyra það að sumt hafi tekist vel varðandi fiskveiðisamninginn. Ég tel vel staðið að málum varðandi eftirlitsmenn um borð í skipunum en veika hliðin sé vigtunin í erlendum höfnum. Þarna er einn jákvæður punktur og einn neikvæður og það er ekkert athugavert við það að horfast í augu við slíkt. Menn geta haft deildar meiningar en það verður að vera hægt að tala um hlutina.
    Ég ítreka það enn að aðrir ýmsir kostir sem nefndir hafa verið til sögunnar við Evrópska efnahagssvæðið varða mál sem vel er hægt að kippa í liðinn hér án þess að ganga í EES.
    Eitt af því sem er dálítið margslungið mál er kannski ákveðin ástar-hatursafstaða íslenskra fyrirtækja og forsvarsmanna atvinnulífs Íslands gagnvart EES-samningum. Í öðru orðinu hvetja þessir aðilar mjög til þess að við drífum þennan samning í gegn. Í hinu orðinu koma þeir með öll rökin sem eru gegn því að við göngum inn í Evrópskt efnahagssvæði eins og sakir standa núna. Ég ætla ekki að fara í þá grundvallarspurningu, sem ég býst við að mundi eftir standa á milli mín og þessara forsvarsmanna, hvort þetta sé æskilegt fyrir lýðræðið. Ég er bara að tala um praktísk mál núna út frá sjónarmiðum þessara manna. Ég skil ekki að menn haldi það að allt muni bara verða í himnalagi og allt í einu

verði farið að styðja við bakið á og létta sköttum af íslensku atvinnulífi þegar við erum komnin inn í EES á sama tíma og verið er að benda á að það er verið að íþyngja atvinnulífinu m.a. með því að skapa þeim fyrirtækjum sem standa höllum fæti í samkeppni miklu erfiðari rekstrarskilyrði en fyrirtækjum sem þau verða óhjákvæmilega í samkeppni við.
    Það er ekki bara smæð fyrirtækja sem veldur heldur eru það líka beinar aðgerðir stjórnvalda og ég heyrði það í fréttum að það væri hreint ekki verið að létta sköttum af atvinnulífinu. Ég verð að viðurkenna að ég var svo græn að ég hélt að það væri verið að því. En það er mat þeirra sem eru í atvinnulífinu að alls ekki sé verið að því, síður en svo. Ég á eftir að fara í gegnum staðreyndir þarna, en sé svo er þetta orðin slík hringavitleysa að það tekur ekki nokkru tali. Ég hélt að góðu fréttirnar væru þær að skattarnir væru að fara niður en aðrar aðstæður í samkeppni væru óhagstæðar. Það væru aðrir hlutir sem væru óhagstæðir í samkeppninni, ríkisstyrkir dulbúnir og ódulbúnir. Það væru slík atriði sem gerðu stöðu þeirra erfiða. Nú er það bara ekki þetta sem er verið að tala um. Það er hreinlega verið að segja að skattarnir standi fyrir sínu og ríkið taki sitt alveg sama hvað reynt er.
    Samt sem áður skilgreini ég forsvarsmenn stórra samtaka atvinnurekenda sem valdaaðila og þar af leiðandi þá sem hafa þegar tögl og hagldir í samfélaginu, en aðra þá sem þurfa að sækja á um að njóta lýðræðis. Það er orðið ansi hart þegar efnisleg rök koma frá þessum aðilum, sem ættu að hafa það í hendi sér hvernig staðið er að málum, gegn þessu. Ég bendi á að það þarf ekki forsvarsmenn í atvinnulífinu til að segja mér það að við erum í þann veginn að fara að íþyngja ferðaþjónustu okkar svo svívirðilega að við erum kannski að kippa stoðum undan þeirri atvinnugrein sem hefur lofað einna bestu. Ég ætla ekki að voga mér að segja að það sé glæpsamlegt en það er afskaplega alvarlegt.
    Varðandi iðnaðinn erum við ekkert að breyta neinu. Við erum fyrir löngu búnin að gera þær breytingar sem verða í iðnaðinum. Það er nokkuð sem allir vita að hefur löngu verið gert.
    Varðandi ákvarðanatöku sem mér verður tíðrætt um langar mig til að vitna í ágætis pistil nóbelsskáldsins okkar, Halldórs Laxness, í sendibréfi hans til fransks prófessors, Regis Boyer. Þar segir hann m.a. dæmalausa sögu af kristnitökunni sem ég tel að sé svolítil dæmisaga um hvað er nákvæmlega að gerast núna. Ég trúi því að þetta muni menn skilja. Hann byrjar á orðum Ara fróða, með leyfi forseta:
    ,,Þá er mælt í lögum að allir menn skyldu kristnir vera og skírn taka. Þetta afrek í því að fara aftan að siðunum virðist hafa verið samþykkt með lófataki á Alþingi við Öxará. Sem sé, Íslendingar voru ekki skírðir til kristni sem siður er í þeim trúarbrögðum, heldur lögfest á Alþingi að allir menn á landinu skulu kristnir frá þeirri stundu sem klappað er saman lófunum. Skiptir ekki máli þó menn séu óskírðir og með öllu óuppfræddir í kenningunni. Þetta er víst það sem kallað er contradicto in re.
    En fátt segir um afdrif þessa ókatekiseraða fólks sem hvorki hafði getað lært kverið né gengið til spurninga en var orðið kristið samkvæmt lófataki andstæðinga sinna á Alþingi. Sem betur fer er guð stór eins og sagt er um Allah.``
    Læt ég þetta verða lokaorðin í máli mínu í kvöld.