Framhald umræðna um EES og fjarvera utanríkisráðherra

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 13:42:15 (3629)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það er nú aðeins út af því þegar beðið er um orðið hér að ég nefni það í upphafi að ég hafði litið svo til að þegar ljóst væri að aðstoðarmaður forseta hefði tekið eftir, þá gengju boð á milli. Það væri gott fyrir okkur að vita það hvort við þurfum að ná beinlínis sambandi við forseta eða hvort aðstoðarmenn taka við og flytja á milli boð.
    En það var ekki það sem ég ætlaði að ræða hér heldur sú frétt sem mér barst í morgun sem tengist dagskrá þessa fundar þess efnis að hæstv. utanrrh. væri farinn úr landi. Ég veit ekki hvort ég er einn um að sakna hæstv. ráðherra hér úr hópnum, þeir eru óvenjumargir staddir hér núna, en ég fékk það staðfest í morgun að hæstv. ráðherra væri farinn úr landi, sá ráðherra sem hefur forræði á þeirri umræðu sem hér fer fram, því dagskrármáli. Mér er ekki kunnugt um að neitt samkomulag hafi verið gert um það, það hefur a.m.k. ekki verið greint frá því í mínum þingflokki að neitt samkomulag hafi verið gert um það eftir að þessi umræða hófst hér gegn mótmælum stjórnarandstöðunnar að utanrrh. ætlaði að fara úr landi meðan á umræðunni stæði eða tiltekna daga.
    Nú hef ég auðvitað ekkert við það að athuga að hæstv. ráðherra fari erlendis og vafalaust er hann að gegna skyldustörfum. En þá ætti að vera jafnsjálfsagt að umræðu væru frestað á meðan um þetta mikilvæga mál og hún upp tekin og henni fram haldið þegar ráðherrann er kominn á vettvang á nýjan leik.
    Ég óska eftir því að á þessu máli verið tekið á milli fulltrúa þingflokka því að hafi eitthvert samkomulag verið gert, þá hefur það a.m.k. ekki borist mér til eyrna. Ég tel nauðsynlegt að það liggi þá ljóst fyrir ef um það hefur verið samið með einhverjum hætti, það er mér ókunnugt um, og ég verð að lýsa mikilli undrun á þessu ef ráðherrann ætlast til þess af forustu þingsins að halda þessu máli hér á dagskrá í sinni fjarveru. Ég vil taka það fram að þó að að sjálfsögðu muni einhver ráðherra gegna embættisverkum innan lands fyrir hæstv. ráðherra á meðan, þá gildir það auðvitað ekki gagnvart þessu máli hér, þessu stóra máli. Þingmenn hljóta að eiga heimtingu á því að hæstv. ráðherra sé í kallfæri þegar þetta mál er hér rætt.