Framhald umræðna um EES og fjarvera utanríkisráðherra

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 13:50:38 (3632)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Auðvitað er það vilji okkar allra hér í þinginu að reyna að ná saman um hvernig við leiðum mál til lykta. Og það er almennt farsælt að menn átti sig á því að þetta er vinnustaður eins og hver annar vinnustaður og menn eiga að sýna hver öðrum skilning og umburðarlyndi í því. Það var nú í þeim anda --- ég vil biðja hv. þm. Össur Skarphéðinsson að vera hér í salnum. Forseti. Ég verð að bíða meðan þingmaðurinn víkur úr salnum og vona að klukkan gangi ekki á mig á meðan. --- Það var í þeim anda, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem ég tók því vel þegar hæstv. utanrrh. hafði samband við mig í nótt og bað um að því yrði sýndur skilningur að hann þyrfti að hverfa á utanríkisráðherrafund NATO. Ég sagði honum að ég mundi sýna því skilning og ég mundi meira að segja beita mér fyrir því að menn mundu sýna því skilning hér í þinginu. En ég verð að segja við hv. þm. Össur Skarphéðinsson að það er ekki mjög skynsamlegt að byrja á því að koma hér upp sem formaður þingflokks Alþfl. og fara að skattyrðast við þingmenn um það hvað þeir hafa talað oft um þingsköp. ( ÖS: Ég nefndi þig nú ekki.) Það skiptir engu máli hverja þú nefndir, hv. þm. Gjörðin var hin sama. Er þetta virkilega þannig að það þurfi að útskýra fyrir formönnum þingflokka stjórnarflokkanna og forsrh. og utanrrh. svona almenna mannasiði í samskiptum við menn hér í þinginu? Við erum búnir að glíma við það að hæstv. utanrrh. er hér utan þings búinn að senda mönnum tóninn. Auðvitað hefur það verið mjög óheppilegt og meira en helmingurinn af þingskaparæðum sem hér hafa verið hafa verið vegna þeirra ummæla, hv. þm., utan þings.
    Síðan þegar hæstv. utanrrh. fer úr landi, þá byrjar hæstv. forsrh. á því að senda þinginu tóninn utan þings og svara þingmönnum eins og hv. þm. Steingrími Hermannssyni utan þings. Forsætisráðherrann hafði ekki manndóm í sér til þess að koma hér upp og svara hv. þm. Steingrími Hermannssyni í andsvari en sendir honum skæting og athugasemdir í viðtali við Morgunblaðið í dag. Og ef formaður Sjálfstfl., forsrh., og formaður Alþfl., utanrrh., halda þessu áfram að senda þinginu tóninn með þessum hætti, með skætingi, óhróðri og rógi utan þings, þá er nánast vonlaust að ná hér saman. Það hljóta allir að skilja. Ég tel ekki að þessir tveir hæstv. ráðherrar séu svo óskynsamir að þeir átti sig ekki á því að með þessu eru þeir að gera samkomulagið mjög erfitt.
    Engu að síður, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, samþykkti ég það fyrir mitt leyti gagnvart hæstv. utanrrh. að greiða fyrir því að menn sýndu því skilning. En ég vona þá að meðan hæstv. utanrrh. er erlendis fari hann ekki að senda þinginu tóninn og hann hætti því líka þegar hann kemur heim. Og ég vona að á meðan verði hæstv. forsrh. ekki í því að senda þinginu tóninn. Það er því frumskilyrði fyrir því að við getum öll unnið að því að þessir tveir forustumenn þjóðarinnar hætti að senda þinginu tóninn með þessum hætti.