Framhald umræðna um EES og fjarvera utanríkisráðherra

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 13:57:09 (3634)

     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Í samkomulagi sem gert var milli þingflokka um afgreiðslu þingmála fyrir jólahlé miðvikudaginn 2. des., áður en atkvæðagreiðslan í Sviss fór fram, kom það fram og er bókað að hæstv. utanrrh. óskaði eftir því að ekki yrðu gerðar athugasemdir við óhjákvæmilega fjarveru hans vegna funda erlendis 17. og 18. des., þ.e. á fimmtudegi og föstudegi í þessari viku en þá var áformað að hefja 3. umr. um EES-málið í dag, 16. des. En á þessum fundi og í þessu samkomulagi var líka bókaður sá fyrirvari af hálfu Alþb. og Samtaka um kvennalista að til greina kæmi að halda umræðu áfram á laugardegi 19. ef henni lýkur ekki á miðvikudegi 16. Ég vildi vekja á þessu athygli vegna þess að þessi bókun tengist auðvitað því að við vorum því samþykk á þeim tíma, ef samningurinn yrði ekki felldur í Sviss, að hefja 3. umr. í dag en fresta henni síðan á meðan utanrrh. væri í burtu á fimmtudegi og föstudegi og halda henni síðan áfram á laugardegi. Þetta kemur alveg skýrt fram í bókun þessara tveggja stjórnarandstöðuflokka og var þeirra viðhorf á þeim tíma. Þess vegna er það ekki rétt að halda því fram að það hafi á sínum tíma verið gert samkomulag um það að hæstv. utanrrh. gæti óátalið verið í burtu meðan verið væri að ræða hér um þennan samning. Það var þvert á móti einmitt gert ráð fyrir því að það yrði þá ekki haldið áfram umræðum um samninginn meðan hann væri í burtu eins og kemur glöggt fram af þessum bókunum.
    Hæstv. utanrrh. kom að máli við mig eins og marga aðra hér í nótt og ég benti honum á þessa fyrirvara. Ég benti honum líka á að það hefði ekkert verið rætt um þetta

mál í þingflokkunum eftir að samkomulagið fór út um þúfur eins og allir þekkja. Ég sagði honum hins vegar að ég teldi eðlilegt að hann sækti nauðsynlega fundi erlendis og ég mundi ekki persónulega gera athugasemd við það, en ég væri hins vegar fullviss um að einhverjir alþingismenn yrðu til þess að sakna hans hér ef haldið yrði áfram umræðu um samninginn og mundi óska eftir því að hann svaraði spurningum. Og það hefur þegar komið á daginn. Ég vildi að þetta kæmi hér skýrt fram að þannig er staða málsins. Þetta hefur ekkert við rætt í þingflokkunum, þarf auðvitað að ræðast þar og milli þingflokksformanna. Það er dálítið sérkennileg staða að halda áfram umræðum um málið án hans en persónulega hef ég lýst því yfir að ég muni una því að hann sé í burtu meðan málið er hér til umræðu en veit að ég get ekki bundið einstaka þingmenn hvað varðar kröfugerð um svör við spurningum.