Framhald umræðna um EES og fjarvera utanríkisráðherra

84. fundur
Miðvikudaginn 16. desember 1992, kl. 14:02:00 (3637)


     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég get vel skilið að það séu þingmenn hér sem telja sig eiga margt vantalað við hæstv. utanrrh. og kunni því að vera ósáttir við hans fjarveru en það er rétt sem hér hefur komið fram að það var ljóst í byrjun mánaðarins að hæstv. utanrrh. yrði erlendis þessa daga og það var auðvitað skoðað í því samhengi hvar umræðan yrði stödd á þeim tíma. Nú er staðan auðvitað allt önnur en það breytir ekki því að hæstv. utanrrh. hafði samband við allmarga í nótt og ég geri ekki persónulega athugasemd við það að hann skuli vera fjarverandi. Ég hef sannast að segja meiri áhuga á því að tala við þing og þjóð heldur en hann einan og sér og það sama gildir um hv. þm. Jónu Valgerði Kristjánsdóttur en við tvær eigum eftir að tala hér við 2. umr., svo framarlega sem aðrar þingkonur Kvennalistans hugsa sér ekki að tala öðru sinni, sem vel kann að vera. En mér skildist á hæstv. utanrrh. að það væri orðið mikið álitamál hvort Ísland væri í NATO. Mér er svo sem sama um það en hann taldi mikið nauðsynjaverk að hann mætti á þessum fundi og við lýstum strax í byrjun mánaðarins skilningi á því að hann yrði að vera þarna á þessum, að því er okkur skildist, mikilvæga fundi og því var ekki gerð athugasemd við það að hann færi á þessum tíma. Ég ítreka það að við sem eigum eftir að tala gerum ekki athugasemd við hans fjarveru.